Sumar á næsta leiti
Það hljómar kannski undarlega en einmitt núna er sumarið að ganga í garð í garðyrkjustöðvum landsins. Fyrstu sumarblómafræin eru komin í sáðbakkana og smáplöntur af lokkandi blómadrottningum komnar í potta og bíða þess að dagatalið átti sig á tilverunni.
Garðyrkjufræðingar eru við það að hrökkva í sumargírinn því á næstu vikum fyllast öll gróðurhús af sumarblómum og þá er eins gott að vera klár í umönnunarstörfin, vökvun, áburðargjöf, snyrtingar og annað sem þarf til ræktunarinnar.
Allar betri garðyrkjuverslanir hafa hlaðið frærekka sína af fjölbreyttu úrvali fræja af sumarblómum, fjölærum plöntum, matjurtum og trjáplöntum og mold og ræktunarílát eru ekki langt undan. Það er því allt til reiðu, það eina sem garðeigandinn þarf að gera er að velja tegundir til ræktunar.
Endalaus áhugi á ræktun
Valkvíði er alvarlegt vandamál þeirra sem hafa takmarkað pláss en endalausan áhuga á ræktun plantna. Því miður er það svo að þarna þurfa að fara saman hljóð og mynd, það er fátt dapurlegra en að þurfa að henda umframplöntum sem ekki hefur tekist að pranga inn á vini og ættingja. Af þeim sökum er heppilegra að bregða undir sig skynsemdarfætinum og skipuleggja ræktunina vel og í samræmi við ræktunarrýmið.
Sem betur fer er það engin kvöl og pína að skoða myndir af fallegum plöntum, renna yfir myndir af uppáhaldsblómabeðum fyrri ára og gera lista yfir þær tegundir sem væri gaman að rækta aftur. Þegar sá listi er klár er næsta skref að heimsækja garðyrkjuverslanir, hvort sem er í raunheimum eða rafrænum, skoða úrvalið og máta það við fyrirliggjandi áætlanir og láta svo vaða. Svona verkefni eru einstaklega kærkomin á þessum árstíma þegar allra veðra er von og hver óveðurslægðin af annarri ríður yfir landið. Einhverjir kjósa að kúra uppi í sófa með kakó og fjarstýringu, við blómafólkið drögum fram frælista og blómabækur og skipuleggjum litríkt draumasumar með ofgnótt blóma.
Góður grænsápuþvottur
Háveturinn er einnig góður tími til að þrífa og dytta að gróðurhúsum og öðru ræktunarrými sem fólk hefur á að skipa.
Óhreint ræktunarumhverfi getur stuðlað að lakari árangri í ræktuninni og því er nauðsynlegt að skúra og skrúbba nærumhverfi sáðílátanna og ekki gleyma að þvo ílátin sjálf áður en sáningin hefst.
Heitt vatn og uppþvottalögur duga í flestum tilfellum en þeir sem eru með gróðurhús þurfa mögulega að grípa til aðeins harðari efna gegn þörungagróðri.
Góður grænsápuþvottur með kústi eða háþrýstispúl dugar vel í heimagróðurhúsið og svo er vissara að skola vel með köldu vatni á eftir. Gott er að leita til fagmanna í góðu garðyrkjuverslununum sem áður voru nefndar og fá viðeigandi sápur til verksins.
Sáningartími
Sáðmold þarf að vera í fínni kantinum og má ekki innihalda grjót, illgresi, meindýr eða sjúkdóma. Einnig er gott að hafa íhugaaðbetraeraðsáímold sem inniheldur ekki mikinn áburð, það gefur betri árangur í spíruninni. Hægt er að kaupa sérstaka sáðmold í litlum pokum og ef hún klárast ekki má hafa í huga að hún geymist vel á milli ára í lokuðum poka á þurrum stað.
Fræ kemur yfirleitt í vel merktum umbúðum þar sem allar helstu upplýsingar koma fram um tegund og yrki, sáningar- og ræktunartíma, fjölda fræja í grammi og jafnvel spírunarhlutfall. Við skipulagningu sáningar þarf að hafa í huga hvaða tegundir þarf að sá á hvaða tíma því ekki er heppilegt að sá tegundum of snemma, þá er hætt við veseni þegar líður á vorið. Best er að áætla í upphafi hversu mikið pláss við ætlum að nota fyrir viðkomandi tegundir. Þetta er verkefni sem hvaða skipulagsfíkill sem er getur haft unun af að spreyta sig á.
Yfirleitt er fræi sáð í sáðbakka, þar sem sáðplönturnar standa nokkuð þétt, þar til þeim er dreifplantað. Sáningin sjálf tekur því umtalsvert minna pláss en framhaldsræktunin.
Flest fræ spíra vel við stofuhita, á bilinu 18-22 °C, og um leið og litlu kímplönturnar gægjast upp úr moldinni er mikilvægt að tryggja þeim góða lýsingu, svo þær verði ekki langar, teygðar og veiklulegar.
Venjulegar flúorperur geta hjálpað í þessum efnum en einnig ætti alvöru ræktunarfólk að setja ræktunarljós á jólagjafalistann. Hár loftraki er ungum sáðplöntum mjög að skapi en eftir því sem þær stækka og þroskast þarf að venja þær við lægra rakastig og lægra hitastig. Almennt er ágætt að hafa hitastig í uppeldi á íslenskum garðplöntum á bilinu 12-15 °C, ef þess er nokkur kostur.
Hærra hitastig kallar á meiri lýsingu, eigi plönturnar ekki að teygjast um of.
Undirbúnungur og skipulag
Nú er sem sagt tími undirbúnings og skipulags og um að gera að nota hann vel, þegar sól hækkar á lofti verðum við einfaldlega upptekin í ræktunarframkvæmdum.