Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Á faglegum nótum 6. janúar 2020
Þriðjungur matvæla fer árlega til spillis!
Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com
Síðustu ár hefur umræða um sótspor matvælaframleiðslu í heiminum verið töluverð og farið vaxandi. Samhliða hefur verið varið miklum fjármunum til að bæta þekkinguna á raunverulegum umhverfisáhrifum af matvælaframleiðslunni og er raunar enn í dag mörgum spurningum ósvarað um áhrifin.
Ein af áhugaverðari staðreyndum um umhverfisáhrifin er samhengið við sóunina sem verður á þeim matvælum sem eru framleidd í heiminum en samkvæmt skýrslu frá FAO, Landbúnaðar- og Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, þá tapast nærri þriðjungur allrar matvælaframleiðslu heimsins árlega!
Umhverfisáhrif matvælaframleiðslu heimsins ná með öðrum orðum vissulega til frumframleiðslunnar, en þau ná svo sannnarlega langt út fyrir frumframleiðsluna einnig og nýverið var haldin áhugaverð ráðstefna í Peking um þessi áhrif, þar sem horft var til sóunarinnar í heildarferlinu, þ.e. frá sjómanninum eða bóndanum og til neytandans, sem og hvað hægt væri að gera til að auka nýtingu almennt séð. Á ráðstefnunni, sem haldin var sem samstarfsverkefni danska umhverfisráðuneytisins og hins kínverska, voru haldin fjölmörg erindi af fulltrúum umhverfisstofnana, fyrirtækja og hins opinbera.
122 þúsund milljarðar í súginn árlega!
Á ráðstefnunni kom m.a. fram að þegar horft sé til nýtingar þeirra matvæla sem eru framleidd árlega þá fari einfaldlega allt of mikið af þeim til spillis og hefur FAO reiknað út að líklega megi ætla að verðmætið sem tapist á hverju ári vegna þessa nemi um 990 milljörðum bandaríkjadala eða hvorki meira né minna en 122 þúsund milljörðum íslenskra króna! Þessi gríðarlegu verðmæti felast í því að það verður margs konar sóun á leið matvæla heimsins af landi, vötnum eða sjó og til neytenda. Þessi sóun er þó misjöfn eftir löndum og á meðal hinna þróuðu landa verður mun meiri spilling á matvælum en meðal þróunarlanda og hjá sumum löndum er sóun matvæla nánast hverfandi!
Krafa neytenda um fallegt útlit matvæla leiðir oft til mikillar sóunar.
1,3 milljarðar tonna
Samkvæmt FAO reiknast hin árlega sóun á matvælum heimsins vera 1,3 milljarðar tonna en afar misjafnt er eftir flokkum hve mikið er talið spillast árlega. Mest eru það ávextir og grænmeti sem oftast fer til spillis en talið er að 45% framleiðslunnar endi ekki sem matur á borði íbúa heimsins og var nefnt sem dæmi um þessa geigvænlegu sóun að talið er að á hverju ári fari 3,7 trilljónir ætra epla til spillis!
Þá er talið að 35% af fiskafurðum og öðrum sjávarafurðum fari til spillis á hverju ári og þannig er t.d. talið að 8% af öllum veiddum fiski í heiminum sé hent aftur í sjóinn, m.a. vegna einhverra takmarkana á veiðum, en í erindi fulltrúa FAO kom fram að talið er að meirihluti þessara fiska séu annaðhvort dauðir, að drepast eða illa særðir og því væri eina vitið að koma með þá að landi og nýta. Fiskveiðikerfi sumra landa komi hins vegar í veg fyrir að sjómenn geti gert það án þess að lenda í vanda.
Þegar horft er til kjötsins þá telur FAO að um 20% af öllu framleiddu kjöti í heiminum fari til spillis og að sama hlutfall af olíufræjum, ólífum og belgbaunum fari einnig til spillis árlega.
95–115 kíló á mann
Þegar horft er til þess hve mikið spillist af matvælum í heiminum er umhugsunarefni hve mikið fer til spillis á heimilum hinna efnameiri íbúa heimsins. Þannig telur FAO að magnið nemi 95–115 kílóum árlega á hvern íbúa í Evrópu, Eyjaálfu og Norður-Ameríku en ekki nema 6–11 kílóum á hvern íbúa í Suður- og Suðaustur-Asíu og í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Sé hins vegar tekið með í reikninginn hve mikið magn matvæla fer til spillis, að teknu tilliti til heildarferlisins, þ.e. frá frumframleiðandanum og til og með neytandans, bætist mikið magn við. Þannig er talið að í Evrópu fari um 250 kíló til spillis á hvern íbúa og í Eyjaálfu og Norður-Ameríku er talið að þetta magn nemi tæplega 300 kílóum á hvern íbúa. Minnst heildarsóun matvæla er hins vegar talin vera í Suður og Suðaustur-Asíu, eða um 125 kíló á hvern íbúa, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Að mati FAO þá eru skýringarnar á mikilli spillingu matvæla margvíslegar og ekki alltaf vegna þess að matvælin renni út eða skemmist hjá neytendum. Heldur er oft töluverðu magni af matarafgöngum hent þar sem fólk telji sig ekki geta nýtt þá almennilega.
Af hverju gerist þetta?
Að mati FAO þá eru skýringarnar á mikilli spillingu matvæla margvíslegar og ekki alltaf vegna þess að matvælin renni út eða skemmist hjá neytendum. Heldur er oft töluverðu magni af matarafgöngum hent þar sem fólk telji sig ekki geta nýtt þá almennilega. Þá er það svo að oft gerist það sérstaklega meðal þróaðri landa að stóran hluta spillingar á matvælum megi finna í mikilli samkeppni á milli aðila, sem gerir það að verkum að oft lenda framleiðendur, sölu- eða dreifingaraðilar í því að sitja uppi með matvörur sínar vegna lægri boða samkeppnisaðilanna. Þá fer nokkuð einnig til spillis af tæknilegum eða veðurfarslegum orsökum þegar verið að er uppskera eða heimta matvælin, auk þess sem rof í kælikeðjum frá frumframleiðanda til neytenda brestur eins og gerðist einmitt hér á landi í síðustu viku þegar t.d. margir bændur þurftu að hella niður mjólk vegna straumleysis.
8% gróðurhúsalofttegunda
Þó svo að það sé í raun nógu mikið áhyggjuefni að það mætti metta hundruð milljóna íbúa heimsins með þeim matvælum sem fara árlega til spillis, þá er þetta einnig alvarlegt vegna þess að þegar matvælin eru framleidd verður óþarfa umhverfisálag vegna framleiðslu sem engum nýtist. Stofnunin World Resources Institute hefur t.d. reiknað út að um það bil 8% af árlegri losun gróðurhúsalofttegunda heimsins megi rekja til framleiðslu á matvælum sem enginn borðar!
Er til lausn?
Í framsöguerindum á ráðstefnunni komu fram margvíslegar ábendingar og reynslusögur um hvernig megi snarminnka matarsóunina. Augljósu leiðirnar væru að bæta samgöngur svo hægt sé að koma matvælunum betur á milli staða, efla bæði frumframleiðsluna og vinnsluaðilana svo fagmennskan aukist, tryggja góða kælingu frá frumframleiðanda til neytenda og vinna að auknu geymsluþoli á matvælum. Þá eru alltaf að koma á markað betri og betri umbúðir sem verja matvælin betur auk þess sem fram kom að gera þurfi gangskör í lagaumhverfi margra landa svo hægt sé að nýta betur matvælin eins og dæmið um brottkast á fiski sýnir.
En fleira má gera og tók fulltrúi stofnunarinnar World Resource Institute dæmi frá Bandaríkjunum þar sem sum fyrirtæki hafa, í samstarfi við samtökin, sett matarsóun á dagskrá og náð undraverðum árangri. Í þessu verkefni hafa fyrirtækin tekið upp á því að fylgjast nákvæmlega með sóuninni með mælingum og eftirfylgni, þjálfað starfsfólk sitt í atriðum er varða matarsóun og auk þess fjárfest í bættri lagerstjórn og sum hver einnig breytt umbúðum. Athyglisvert var að heyra að fyrir hvern einn dollara sem fyrirtækin hafa fjárfest í verkefninu, hafa þau uppskorið 14 dollara í aukna veltu vegna aukinnar sölu, sölu á matvælum sem e.t.v. þóttu ekki söluvænleg áður t.d. vegna útlits eða áferðar, vegna þróunar á nýjum vörum sem nýttu það sem áður fór til spillis og með því að draga úr sóun með betra utanumhaldi. Þá telur stofnunin World Resource Institute að stór hluti af því að draga úr sóun sé að auka upplýsingagjöf til allra aðila sem koma að virðiskeðjunni og auka almenna vitund á því mikla vandamáli sem matarsóun er.
Frekara lesefni: www.fao.org.