Tími haustlaukanna
Best er að setja haustlauka niður fyrir fyrstu frost, í september eða október, en ekkert mælir gegn því að setja þá niður síðar, eða svo lengi sem tíðin leyfir.
Margar laukjurtir þurfa að standa í freðnum jarðvegi í nokkrar vikur til þess að undirbúa sig fyrir vöxt að vori. Laukar þrífast best á þurrum stað í vel framræstum og sendnum jarðvegi. Flestar tegundir kjósa skjól og birtu en hátíðarliljur þola nokkurn raka og skugga.
Allar laukjurtirnar sem fjallað er um hér eru einkímblöðungar, að einni undanskilinni, vorboða sem er tvíkímblöðungur.
Einföld þumalfingursregla segir að setja skuli laukana niður sem nemur tvö- til þrefaldri hæð þeirra, og heldur dýpra í lausum jarðvegi. Hentugt bil á milli lauka er tvisvar sinnum þvermálið. Fallegast er að planta laukum þétt, milli 50 og 100 á fermetra, eða 10 til 15 saman í hnapp eftir stærð laukanna, þannig að þeir komi upp eins og stór blómvöndur. Best er að grafa holu í rétta dýpt með lítilli skóflu eða stinga fyrir laukunum með laukajárni og losa um jarðveginn. Gott er að setja mold sem blönduð er með lífrænum áburði, þangmjöli eða hænsnaskít í botninn og yfir laukana. Einnig má blanda eilitlu af tilbúnum áburði við moldina áður en hún er sett yfir þá. Þegar búið er að hylja laukana með góðri mold skal þjappa jarðveginn varlega og hylja hann með laufi eða trjákurli og vökva.
Við niðursetningu er gott að hafa í huga að mismunandi tegundir koma upp á mismunandi tímum og einnig er æskilegt að huga að því hvaða litir fara vel saman.
Haustlaukar þurfa litla umhirðu eftir að þeir eru settir niður. Ef þeir blómstra illa er ástæðan líklega sú að þeir standa í bleytu eða skugga.
Margar tegundir safna ekki nægum forða yfir sumarið til að blómstra árið eftir. Þetta á sérstaklega við um viðkvæmar tegundir, eins og hýasintur og keisarakrónu. Æskilegt er að endurnýja túlípana annað til þriðja hvert ár en viðkvæmum tegundum þarf að skipta út á hverju ári. Krókusar og páskaliljur eða narsissur eru mjög harðgerðar ættkvíslir sem blómgast ár eftir ár. Leggháar tegundir geta þurft stuðning eða uppbindingu.
Laukjurtir þola illa köfnunarefnisríkan áburð þar sem hann eykur ofanjarðarvöxt á kostnað neðanjarðarhlutans. Kalí- og fosfóráburður hentar laukum betur þar sem hann eykur blómgun og frostþol.
Eftir blómgun á að klippa blómstöngulinn burt svo að plantan eyði ekki orku í að mynda fræ. Blöðin þurfa aftur á móti að sölna áður en þau eru klippt burt. Séu þau klippt of snemma nær laukurinn ekki að safna forða fyrir veturinn og blómgast ekki árið eftir. Mörgum finnst ljótt að sjá sölnuð blöð og er þeim hefur oft verið bent á að klippa helminginn burt og binda blöðin saman með teygju en slíkt er ekki ráðlegt vegna þess að það skerðir mjög vöxt og eftirþroska laukanna. Einnig má setja lauka niður í þar til gerðar körfur og má þá taka þá upp og flytja annað eftir blómgun.