Tryggja þarf framlög til landgræðslu og skógræktar
Höfundur: Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu sína um stöðu og stefnu Íslands í loftslagsmálum. Í skýrslunni segir meðal annars að miklir möguleikar séu á að binda kolefni í jarðvegi og gróðri á Íslandi á hagkvæman hátt.
Tryggja þurfi fjárframlög til landgræðslu og skógræktar og horfa á fjölþætt vistfræðileg og samfélagsleg markmið skógræktar og landgræðslu.
Skógræktarfólk hefur talað fyrir því um árabil að skógrækt verði beitt í baráttunni við loftslagsbreytingar og að þetta sé eitt hentugasta vopnið sem Íslendingum sé tiltækt í þeim efnum. Ekki er einkennilegt þótt óþolinmæði sé tekið að gæta meðal skógræktarfólks því aukin framlög hafa látið á sér standa þrátt fyrir fögur fyrirheit. Fyrir efnahagshrunið voru gróðursettar um sex milljónir trjáplantna árlega hérlendis en þeim fækkaði um helming eftir hrunið og talan er óbreytt enn. Nú er svo komið að fé skortir til grisjunar í þeim skógum á lögbýlum sem orðnir eru aldarfjórðungsgamlir. Von er því að spurt sé, hvenær komi hækkunin.
Í fjölmiðlum hefur skýrsla Bjartar verið kölluð svört enda kemur þar fram að losun hafi aukist um 26% á Íslandi frá 1990 til 2015. Á sama tíma hafi losun dregist saman um 24% samtals í 28 ríkjum ESB. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kynnt var nýlega er því líka spáð að losun Íslands geti aukist um 53 til 99 prósent áður en samningstími Parísarsamkomulagsins er úti árið 2030. Ef kolefnisbinding með landgræðslu og skógrækt er tekin með í þann reikning lítur dæmið þannig út að óbreyttu að nettólosun myndi aukast um 33 til 79 prósent. Þetta gerir Ísland að forysturíki í aukinni losun sem er vafasamur titill á tímum voveiflegra loftslagsbreytinga. Í þessari stöðu er nú sú þjóð sem talar um hreint land, fagurt land og selur þá ímynd sína útlendingum sem hingað flykkjast með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki þarf að minna á stóraukinn útblástur vegna stóriðju.
Aukningar er von
Nokkur von um aukin framlög til skógræktar hlýtur þó að felast í skýrslu Bjartar. Þar segir orðrétt á blaðsíðu 13 í kafla um kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt:
„Skógrækt og landgræðsla hafa lengi verið hornsteinn í stefnu Íslands í loftslagsmálum, enda eru miklir möguleikar á að binda kolefni í jarðvegi og gróðri á Íslandi á hagkvæman hátt. Mælingar á losun og kolefnisbindingu vegna landnotkunar eru umfangsmiklar og miklar kröfur gerðar um áreiðanleika, sérstaklega ef ríki vilja telja fram árangur á þessu sviði sér til tekna. Bókhaldsreglurnar eru líka flóknar og hafa tekið breytingum, bæði innan Loftslagssamningsins og Kýótó-bókunarinnar sem og hjá ESB.
Almennt er losun vegna landnotkunar ekki innan skuldbindinga ríkja, s.s. í Kýótó-bókuninni og í reglum ESB; það er, ríkjum er skylt að draga úr losun frá brennslu jarðefnaeldsneytis, iðnaðarferlum o.s.frv. en ekki frá landi. Hins vegar hafa verið í Kýótó-bókuninni ákvæði sem heimila ríkjum að telja sér til tekna ávinning af aðgerðum í skógrækt og landgræðslu og á fleiri sviðum landnotkunar. Tryggja þarf að bókhald Íslands á þessu sviði sé eins áreiðanlegt og hægt er. Óvíst er að hve miklu leyti Ísland getur talið sér til tekna aðgerðir á sviði landbóta í framtíðinni, en ljóst er að slíkar aðgerðir munu alltaf koma loftslaginu til góða. Virk þátttaka og bætt þekking á þessu sviði skiptir því miklu máli og þarf að tryggja fjárframlög til landgræðslu og skógræktar. Ekki má eingöngu horfa til skjótfenginnar kolefnisbindingar við aðgerðir á þessu sviði, heldur horfa á fjölþætt vistfræðileg og samfélagsleg markmið skógræktar og landgræðslu og taka tillit til sjónarmiða á borð við vernd líffræðilegrar fjölbreytni og að skógur og uppgrætt land falli vel að landslagi.“
Skógræktin býr að því mikla starfi sem unnið hefur við skógmælingar í verkefninu Íslenskri skógarúttekt (ÍSÚ) í umsjá Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá. Þetta verkefni sér Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna fyrir bindingartölum yfir íslenska skóga. Aðferðafræðin er þróuð og viðurkennd og því vitum við vel hversu mikið binst í skóglendi á Íslandi á hverju ári. Mörgum hefur komið á óvart hversu mikil bindingin er í ræktuðum skógum á Íslandi en niðurstöður ÍSÚ sýna að hún er 7,7 tonn koltvísýrings að meðaltali á hverjum hektara lands á hverju ári. Staða skógræktar er því sterk. Vel er vitað hvað skógarnir binda og því hægt að ráðast í bindingarverkefni með góðri vissu um árangur eins og fram kemur í tilvitnuninni í skýrsluna hér að ofan.
Tækifæri sveitanna í bindingu
Í skýrslunni umræddu er rætt um landbúnað og að unnið sé að gerð vegvísis um minni losun í landbúnaði. Nytjaskógrækt er að sjálfsögðu landbúnaður þegar allt kemur til alls og þess vegna ber að fagna því sem segir í skýrslunni um að skoða megi landbúnaðarmálin í víðara samhengi. Orðrétt segir:
„Við endurskoðun búvörusamninga mætti skoða tækifæri til að draga úr greiðslum tengdum búvöruframleiðslu þar sem neysla er að dragast saman og færa þær í staðinn til hvers kyns starfsemi á bújörðum sem stuðlar að minni losun og/eða aukinni upptöku kolefnis úr andrúmslofti.“
Þetta rímar við það sem Skógræktin hefur löngum boðað að nytjaskógrækt á bújörðum sé góð leið til að efla íslenskan landbúnað og byggð í sveitum landsins, setja nýjar stoðir undir rekstur bænda, efla alla náttúrlega ferla á bújörðunum, auka skjól fyrir menn, skepnur og ræktarlönd, auka frjósemi og afrakstur í akuryrkju og búfjárrækt og þar fram eftir götum. Ef bændur fengju vinnu við að rækta skóg og græða upp land mætti ná miklum árangri.
Vonin hlýtur að vera sú að eftir margra ára samdráttarskeið í skógrækt á Íslandi séu nú bjartari tímar fram undan og framlög til skógræktar verði aukin að mun á næstu fjárlögum. Ef loforð fengist frá stjórnvöldum á næstu vikum um slíka aukningu mætti jafnvel ráðast í aukna plöntuframleiðslu strax í vor. Þá mætti fjölga gróðursettum trjáplöntum að einhverju marki sumarið 2018 en stórfelld aukning yrði vart möguleg fyrr en sumarið 2019.
Pétur Halldórsson,
kynningarstjóri Skógræktarinnar