Undrið Kirstenbosch
Kirstenbosch-grasagarðurinn í Suður-Afríku teygir sig upp eftir austurhlíðum Table-fjallsins í Höfðaborg. Ofan af fjallinu er útsýnið yfir Höfðaborg stórkostlegt á heiðskírum og lygnum degi. Þaðan má meðal annars sjá Robbeneyju, þar sem Nelson Mandela var í stofufangelsi í tæpa þrjá áratugi. Garðurinn er ótrúlega fallegur og hreint undur að skoða.
Heitið Kirstenbosch er dregið af nafni J.F. Kirsten sem var umsjónarmaður svæðisins á átjándu öld. Seinni hluti heitisins, bosch, er hollenska og þýðir skógur eða runni.
Ferðafélagar mínir í Suður-Afríku á vegum Farvel, Óskar Einarsson, Unnur Gunnarsdóttir, Jón Guðlaugsson, Lára Jónsdóttir og Guðjón Gústafsson, í Kirstenbosch-garðinum í Höfðaborg.
Markmiðið að varðveita innlenda flóru
Garðurinn er einn af tíu þjóðargrasagörðum í Suður-Afríku og þar er að finna gróður sem tilheyrir fimm af sex lífbeltum landsins. Allt frá stofnun garðsins árið 1913 hefur megináhersla hans verið að varðveita innlenda flóru landsins og var hann fyrsti garðurinn í heimi sem setti sér slíkt markmið.
Útisvæði garðsins er rétt rúmir 528 hektarar að stærð og liggur frá rótum Table-fjalls og hátt upp í klettóttar hlíðar þess. Garðinum er skipt í svæði eftir gróðri og í honum er að finna stórt gróðurhús þar sem vaxa eyðimerkurplöntur sem kjósa minni úrkomu en nýtur í Höfðaborg. Í garðinum er að finna yfir 7.000 plöntutegundir sem allar eru upprunnar í Suður-Afríku.
Gengið um garðinn
Frá aðalinngangi garðsins, þar sem er veitingaaðstaða, plöntusala og verslun með ágætu úrvali bóka um grasa- og náttúrufræði, liggur hann í aflíðandi hlíð þar til komið er að klettum Table-fjallsins.
Ég og ferðafélagar mínir heimsóttum garðinn á indælum góðviðrisdegi í byrjun nóvember síðastliðinn en þá er vor í Suður-Afríku. Hægt er að velja nokkrar mislangar gönguleiðir í garðinum en við völdum, að hætti Íslendinga, að ráfa frekar um garðinn og sjá það sem fyrir augu bar.
Köngulpálmar og annar gróður í Kirstenbosch-þjóðargrasagarðinum og Höfðaborg í baksýn.
Fyrst lá leiðin að brjóstmynd af Nelson Mandela. Fyrir aftan styttuna vex afbrigði af blómi paradísarfuglsins sem kennt er við forsetann fyrrverandi og kynbætt honum til heiðurs í Kirstenbosch og kallast Strelitzia reginae 'Mandela's Gold'. Kynbætur afbrigðisins hófust 1970 og tóku tuttugu ár en eins og nafnið gefur til kynna er afbrigðið með gulari blómum en aðrar plöntur innan ættkvíslarinnar.
Fljótlega eftir að komið er inn í garðinn blasir við hátt og krónumikið afrískt mahogany-tré, Khaya anthotheca. Tegundin var mikið nýtt til viðarframleiðslu fyrr á tímum en er sjaldgæft í náttúrunni og því friðuð. Sagan segir að grasafræðingurinn sem fyrstur greindi tréð hafi spurt innfæddan leiðsögumann sinn hvað tréð héti. Leiðsögumaðurinn svaraði khaya og skráði grasafræðingurinn heitið samviskusamlega niður. Ekki vitandi að á máli leiðsögumannsins þýddi khaya ég veit það ekki.
Næst var gengið meðfram fjölda innlendra fjölærra plantna og þykkblöðunga af þurrari svæðum landsins. Sumar af þessum plöntum voru í blóma og komu blóm þeirra og ættkvíslarnöfn kunnuglega fyrir sjónir þrátt fyrir að tegundirnar væru flestar framandi.
Í trjásafninu þekkti ég aftur á móti engar af þeim 450 tegundum sem þar eru en mikið var gaman að ganga fyrst um trjásafnið og síðan að skoða trjákrónurnar, lögun þeirra og litbrigði ofan frá og sjá hvernig trén uxu á mismunandi hátt til að ná að fanga sem mest af sólarljósinu. Brúin, sem kallast Boomslang eða trjáslanga á máli innfæddra, Afríkans, er 130 metra löng og 11,5 metrar þar sem hún er hæst.
Strelitzia reginae 'Mandela's Gold'.
Skammt frá brúnni var svo próteru-safn garðsins. Ættkvíslin virðist ekki hafa neitt nafn á íslensku en kónga Prótera, Protera cynarodides, er þjóðarblóm Suður-Afríku. Próterur eru sígrænir og uppréttir runnar sem geta náð sjö metra hæð og eru ólíkar tegundir algengar í landinu. Á Afríkans, tungumáli margra innfæddra, kallast plantan stundum fynbos og er það hún sem gefur því sérstæða gróðursvæði Suður-Afríku nafn sitt. Blóm ólíkra próteru-tegunda eru yfirleitt gul eða rauð eða þar á milli en öll eiga þau það sameiginlegt að vera eins og plastblóm viðkomu.
Eftir próterurnar var eriku-safnið skoðað en ríflega 600 tegundir af þeim finnast villtar í Suður-Afríku. Fæstar þeirra komu kunnuglega fyrir sjónir og gaman að sjá hversu ólíkar plöntur innan sömu ættkvíslar geta verið fjölbreyttar og ólíkar að hæð, lit og blaðlögun.
Hápunktur garðsins, bæði hvað varðar hversu langt inn í garðinn var gengið og hvað áhuga varðar að mínu mati, var safn Cycads, eða köngulpálma, sem eru plöntur sem hafa haldist óbreyttar frá tíma risaeðlnanna. Stofn og blöð eru ekki ólík venjulegum sólarstrandarpálmum en blómin alls ólík og líkjast stórum könglum barrtrjáa enda plantan einkynja berfrævingur.
Stráþök eins og þetta í Kirstenbosch-grasagarðinum eru algeng í Suður-Afríku og iðulega búin til úr grösum sem kallast restios og eru algengar á suðurhveli og geta náð þriggja metra hæð.
Í garðinum er að finna eintak af köngulpálma sem á latínu kallast Encephalartos woodii og ein af fáum plöntum sem eftir eru í heiminum af þeirri tegund. Reyndar er það svo að allar plöntur af þessari tegund í heiminum eru klónar af eintakinu í Kirstenbosch og allt karlplöntur og með sama erfðaefni. Talið er að plantan hafi dáið út í náttúrunni skömmu eftir þarsíðustu aldamót vegna mikillar ásóknar í börkinn á henni sem þótti góður til lækninga. Plöntunnar, sem hefur verið í garðinum frá 1916, er vel gætt og höfð innan girðingar til að hindra að þjófar steli hlutum af henni og selji söfnurum. Auk þess sem plantan er girt af eru í kringum hana hreyfiskynjarar sem setja af stað viðvörun sé farið of nálægt henni.
Ríflega 600 tegundir af erikum finnast villtar í Suður-Afríku og fæstar af erikunum í Kirstenbosch-garðinum komu kunnuglega fyrir sjónir.
Inni á milli köngulpálmanna er búið að koma fyrir eftirlíkingum af risaeðlum til að leggja áherslu á hversu gamlar lífverur plönturnar eru.
Á leiðinni niður eftir garðinum voru skoðuð svæði með ýmsum tegundum ilmjurta og nytjaplantna.
„Þetta er staðurinn“
Ógerlegt er að vita með vissu hvernig svæðið sem Kirstenbosch-grasagarðurinn er á leit út áður en Hollendingar settust að þar sem Höfðaborg er í dag snemma á sautjándu öld. Gera má ráð fyrir að innfæddir hafi nýtt svæðið til veiða og annarra nytja og þar hafa fundist tvö þúsund ára gömul verkfæri sem benda til fastrar búsetu.
Hollendingar hófu fljótlega mikið skógarhögg við rætur og í hlíðum Table-fjalls. Timbrið var notað til húsagerðar, í vagna, til skipasmíði og sem eldiviður. Eftir að búið var að fella nánast öll trén var landið nýtt til landbúnaðar og þar meðal annars ræktuð fura og eukalyptus-tré til viðarframleiðslu.
Árið 1913 var ákveðið að stofna grasagarð á svæðinu í kringum þau fáu innlendu tré sem eftir voru. Hafist var handa við að uppræta innfluttar plöntutegundir sem höfðu ýtt innlendum gróðri til hliðar. Það var ekki fyrr en milli 1960 og 1970 að hreinsunin bar árangur og innlendur gróður náði aftur fótfestu og innlendur skógur fór að vaxa aftur í hlíðum Table-fjalls og umhverfis garðinn.
Hugmyndin að stofnun garðsins átti grasafræðingurinn Henry Harold Pearson. Pearson var menntaður frá Cambridge og flutti til Höfðaborgar til að taka við stöðu forstöðumanns grasafræðideilda Háskólans í Suður-Afríku sem í dag kallast Háskólinn í Höfðaborg. Sagt er að Pearson hafi verið að leita að svæði fyrir grasagarð í tengslum við háskólann árið 1911 og strax litist vel á Kirstenbosch og umhverfi þess og hrópar við komuna þangað „Þetta er staðurinn“. Hann fékk lága fjárveitingu til að stofna garðinn tveimur árum síðar. Pearson tók að sér að vera umsjónarmaður garðsins, launalaust, og bjó lengi innan marka hans við fremur þröngan kost.
Fyrstu árin töldu margir að Pearson hefði tekið sér of mikið fyrir hendur og verkefnið óframkvæmanlegt. Svæðið var undirlagt af erlendum gróðri, skógrækt til viðarframleiðslu og villisvínum. Fyrstu árin voru einu tekjur garðsins af sölu trjáviðar og akarna. Pearson lést úr lungnabólgu árið 1916 og er hann jarðsettur í garðinum.
Fána Kirstenbosch
Auk gróðursins í garðinum er Kirstenbolsch-svæðið ríkt af dýralífi. Þar eru auk fjölda skordýrategunda, froskar og fuglar, fiðrildi, snákar, refir og einskaka mangar, eða mongús og skjaldbökur.
Dýrin sem mest ber fyrir augu eru fuglar enda margar tegundir sem lifa í garðinum og í nágrenni hans. Þrátt fyrir að nokkrar tegundir af slöngum finnist í garðinum fer lítið fyrir þeim og einna helst að leita þeirra í runnum og kjarri.
Köngulpálmar og annar gróður í Kirstenbosch þjóðargrasagarðinum og Höfðaborg í baksýn.