Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Garðyrkjubændurnir Sigrún Pálsdóttir og Þröstur Jónsson að taka upp hvítkál á góðum sumardegi.
Garðyrkjubændurnir Sigrún Pálsdóttir og Þröstur Jónsson að taka upp hvítkál á góðum sumardegi.
Á faglegum nótum 24. apríl 2020

„ÞÚ VEIST hvaðan það kemur“

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hinn 13. janúar árið 1940 komu nokkrir garðyrkjumenn saman til hádegisverðarfundar á Hótel Borg. Tilgangur fundarins var að ræða sölu- og markaðsmál garðyrkjunnar. Sölufélag garðyrkjumanna tók formlega til starfa 1. maí sama ár og fagnar 80 ára afmæli sínu á þessu ári.

Sölufélag garðyrkjumanna eru fyrstu samtökin sem garðyrkjumenn stofna hér á landi og var tilgangurinn með stofnun þeirra að annast sölu og dreifingu grænmetis og ávaxta sem félagsmenn framleiða og um leið að efla gæði framleiðslunnar. Félagið varð fljótlega og er enn sterkur málsvari garðyrkjustéttarinnar þegar kemur að hagsmunum hennar og auknum gæðum íslenskrar matvælaframleiðslu. Saga Sölufélags garðyrkjumanna er samofin sögu garðyrkjunnar á Íslandi og vöxtur þess í takt við þróun matjurtaræktunar í landinu.

Kaupakonurnar í Hvammi búnta gulrætur. 

Öflugt félag í sókn

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmda­stjóri Sölufélags garðyrkjumanna, segir að þrátt fyrir að starfsemi félagsins hafi breyst talsvert frá stofnun felist hún enn í grunninn í því að félagsmenn leggja inn uppskeru sína og félagið sjái um að koma vörunni ferskri og á sem bestan og ódýrastan hátt til neytenda og skila sem mestu af heildsöluverði hennar til framleiðenda. „Líkt og í upphafi er SFG öflugt og framsækið fyrirtæki sem hefur að markmiði að fullnýta allar afurðir og starfa í anda sjálfbærni og umhverfisverndar.“

Stofnendur Sölufélags garðyrkjumanna voru fjórtán talsins og í fyrstu stjórn félagsins voru Jón Hannesson, Deildartungu, formaður, L. Bo Eskov, Blómvangi, Ólafur Gunnlaugsson, Laugabóli, Kjartan Gíslason, Mosfelli og Unnsteinn Ólafsson, Reykjum, og fyrsti framkvæmdastjóri þess Ólafur G. Einarsson.

Auglýsing í Alþýðublaðiðinu 1942.

Miklar vonir bundnar við SFG

Framleiðsla á grænmeti var ung starfsgrein á Íslandi árið 1940 og enn í mótun. Þegar Sölufélag garðyrkjumanna tók til starfs þótti flokkun á grænmeti í talsverðum ólestri og kom fram í fjölmiðlum að úrbóta væri þörf. Einnig kom fram að miklar vonir væru bundnar við stofnun félagsins og úrbætur í meðferð grænmetis samfara því.

Háleit markmið

Markmið stofnanda Sölufélagsins voru háleit og í viðtali við Kjartan Gíslason varaformann í október 1940 kemur fram að félagið verði í framtíðinni sölumiðstöð ávaxta, sem í gróðurhúsum eru ræktaðir, grænmetis og fleira. Í sömu grein segir: „Tilgangurinn með félagsstofnuninni er meðal annars sá, að draga úr milliliðakostnaði þeim, sem lagst hefur á þessa markaðsvörur, og verða báðum aðilum til hagsbóta, Neytendum og framleiðendum. Vekur það fyrir félagsmönnum, að afgreiðsla mála verði svo góð, að allir framleiðendur sameinist um félagsskapinn áður en langt um líður.“

Kjartan segir einnig; „Verða vörurnar því aðeins látnar af hendi stranglega flokkaðar og kaupmönnum og neytendum því óhætt að treysta, að gæði þeirra séu þau, sem sögð eru.“

Verslun SFG í nýju húsnæði í Skógarhlíðinni.

Skikkan á flokkun

Framan af gekk misvel að fá grænmetisræktendur innan vébanda SFG til að virða og fara eftir reglum sem samþykktar voru á fundi félagsins í apríl 1940.

Árið 1957 var samþykkt að flokkun afurðanna yrði á höndum Sölufélags garðyrkjumanna en ekki framleiðanda og komið á fót flokkunarstöð fyrir grænmeti og flokkun á grænmeti komast í fastar skorður.

Í dag sjá framleiðendur sjálfir um flokkun og pökkun afurðanna og leggja metnað sinn í að tryggja gæðin.

Fjölgun félagsmanna

Eitt fyrsta verk félagsmanna eftir stofnun SFG var að auka fjölda félagsmanna sinna og flytja inn rekstrarvörur fyrir sína félagsmenn. Fyrstu árin fjölgaði félagsmönnum hratt. Árið 1942 bættust 18 framleiðendur við og árið 1944 eru þeir 54.

Fyrstu árin var markaðssetning á vegum SFG mest á Stór-Reykjavíkursvæðinu og orsakaðist það helst af því að erfitt var að flytja ferskt grænmeti á marga staði á landinu. Markaðshlutdeild SFG jókst jafnt og þétt og á sjötta áratug síðustu aldar er félagið orðið allsráðandi á grænmetismarkaði hér á landi.

Félagsmenn Sölufélags garðyrkjumanna í dag eru 51 en innleggjendur milli 60 og 70 og framboð grænmetis og krydds mjög fjölbreytt. Auk þess sem félagið rekur dótturfyrirtækin Í einum grænum, sem framleiðir tilbúna rétti úr íslensku grænmeti og Matartíminn sen er veitingasvið SFG.

Salatræktun.

Tilraunir með að frysta grænmeti

Sölufélagið gerði tilraunir með að frysta grænmeti, aðallega gúrkur, hvít- og blómkál, á árunum 1949 til 1952. Frystingin tókst vel en erfiðlegar gekk að koma vörunni til neytenda þar sem fæstar verslanir voru með frysti. Einnig var erfitt að fá neytendapakkningar á þeim tíma vegna innflutningshafta og varð félagið að notast við úreltar fiskumbúðir sem fengust hjá hraðfrystihúsum. Önnur fyrirstaða var að hraðfrystihúsin neituðu að taka við grænmeti til frystingar lægi fyrir að frysta ætti síld eða annan fisk.

Um miðja síðustu öld reyndi Sölufélagið einnig fyrir sér með framleiðslu á tómatsúpu í dósum. Sagan segir að sala á þeirri vöru hafi misheppnast gersamlega og að framleiðendur tómatanna hafi að lokum fengið greitt fyrir með nokkurra ára birgðum af tómatsúpu í dós fyrir fjölskylduna

Húsbygging SFG við Skógarhlíð var formlega tekin í notkun 1956.

Kynntist mörgu góðu fólki

Bárður M. Níelsson, innkaupa­stjóri hjá Bönunum ehf., þekkir vel til starfsemi SFG. Faðir hans, Níels Marteinsson, var sölustjóri grænmetis hjá félaginu. „Ég man hvað mér þótti gaman að fara með pabba í vinnuna sem krakki og fá að vera með í atinu og fylgjast með. Seinna starfaði ég hjá félaginu á sumrin og í skólafríum og að lokum á grænmetislagernum.“

Á þeim árum var SFG til húsa að Reykjanesbraut 6 sem síðar kallaðist Skógarhlíð 6 í húsnæði sem félagið byggði á árunum 1954 til 1956 og við það breyttist öll starfsaðstaða félagsins. Auk lagers rak félagið verslun í húsinu með garðyrkjuvörur í mörg ár. Í dag er Sölufélag garðyrkjumanna með aðsetur að Brúarvogi 2 í Reykjavík.

Ég fékk fyrst greitt fyrir vinnu hjá Sölufélaginu 1967 og ég starfaði þar til 1992. Á þeim tíma sem ég starfaði hjá SFG voru allir tómatar og gúrkur flokkaðar og þeim pakkað í Skógarhlíðinni en í dag gera bændurnir það sjálfir. Það starfaði því töluvert af sumarfólki á staðnum yfir uppskerutímann og ég kynntist mörgu góðu og skemmtilegu fólki,“ segir Bárður

Öskjuhlíðarmálið

Í febrúar 1990 sameinast Sölufélag garðyrkjumanna og Bananasalan og er fyrirtækið rekið undir heiti beggja fyrirtækjanna. Í tilkynningu sem fyrirtækin sendu frá sér vegna sameiningarinnar segir að mikil hagræðing muni fylgja sameiningunni.

Á níunda áratug síðustu aldar átti Fengur hf., sem áður var Bananasalan, um tíma ríkjandi hlut í Sölufélagi garðyrkjumanna og tók félagið þá að mati Samkeppnisráðs þátt í víðtæku ólögmætu verðsamráði, markaðsskiptingu og framleiðslustýringu. Í frétt frá þeim tíma segir að Samkeppnisráð telji hafið yfir allan vafa að á árinu 1995 hafi SFG og tengd fyrirtæki, Ágæti og Mata, tekið upp víðtækt ólögmætt verðsamráð og markaðsskiptingu varðandi viðskipti með grænmeti, kartöflur og ávexti. Samkvæmt áliti Samkeppnisráðs mynduðu fyrirtækin með sé einokunarhring með það að markmiði að eyða samkeppni og hækka verð á þessum vörum. Fyrirtækin voru dæmd til að greiða tugi milljóna til ríkissjóðs í sekt vegna málsins.

Málið, sem var litið alvarlegum augum á sínum tíma, kallaðist allmennt Öskjuhlíðarmálið þar sem sagt var að aðilar þess hafi iðulega hist í Öskjuhlíðinni til að ráða ráðum sínum.

Útplöntun í káli í Hvammi í Hrunamannahreppi árið 1991.

Ferskleiki, hollusta og bragð

Gunnlaugur Karlsson, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri SFG frá 2002, segir að í framhaldi af samráðsmálinu hafi eignarhald félagsins breyst, samvinnuformið var lagt niður og stofnað ehf. sem tók til starfa 2003 eftir að bændur komu inn og endurfjármögnuðu fyrirtækið. Við breytinguna rofnuðu öll tengsl við fyrri eigendur.

„Árið 2002 hefst tollfrjáls innflutningur á helstu grænmetis­tegundunum, gúrkum, tómötum og papriku og samtímis var gerður aðlögunarsamningur milli bænda og ríkisins við ríkið. Samkomulagið fólst í því að fella niður alla tolla á innflutt grænmeti en í staðinn fengu garðyrkjubændur eingreiðslusamning sem tengdur var ákveðinni upphæð. Samningurinn var að evrópskri fyrirmynd og framsækin og ákveðin vítamínsprauta fyrir greinina. Bændum var gert kleift að sækja um styrki, til dæmis til að auka lýsingu eða til úreldingar.

Á móti kom að bændur voru að keppa við frjálsan innflutning á ódýru grænmeti og blasti við frá upphafi að þeir væru ekki samkeppnishæfir um verð. Okkur varð fljótlega ljóst að það sem við höfum fram að færa voru meiri gæði og að við yrðum að koma því til skila á einhvern hátt og aðgreina okkar vöru frá þeirri innfluttu.

Sölufélagið lagði því áherslu á að upplýsa neytandann um vöruna með því að hanna merkingar og að leggja áherslu á að hún sé innlend. Félagið leggur einnig ríka áherslu á gæði vörunnar með því að velja tegundir sem eru bragðgóðar og beita lífrænum vörnum þannig að heilbrigði uppskerunnar sé sem mest.
Enda kjörorð okkar síðustu 20 ár; ferskleiki, hollusta og bragð.“

Aukið framboð tegunda

Þrátt fyrir niðurfellingu tolla á innflutt grænmeti hefur starfsemi SFG aukist jafnt og þétt frá árinu 2002. Fjöldi vörutegunda hefur aukist úr 20 í 50 frá því um síðustu aldamót enda garðyrkjubændur bæði viljugir og duglegir að koma til móts við væntingar og þarfir neytenda með auknu og spennandi vöruframboði.

Fjölbreytni tegunda er sífellt að aukast og í dag eru í boði ellefu tegundir af tómötum, margs konar salat og ferskar kryddjurtir sem fáir hefðu trúað að yrðu í boði fyrir tuttugu árum. Auk þess sem nú eru í boði gult og fjólublátt blómkál sem neytendur kunna að meta.

Ræktun á sveppum hefur aukist mikið og fjöldi tegunda í boði bæði heilir og sneyddir.

Kartöflur teknar upp í Birtingarholti 1991.

Í einum greinum

Árið 2004 stofnaði SFG dóttur­félagið Í einum grænum með það að leiðarljósi að fullnýta uppskeru grænmetisbænda og koma í veg fyrir matarsóun. Markmið Í einum grænum er að koma nýjum vörum á framfæri og bjóða neytendum upp á fullunna voru úr íslensku grænmeti.

Mikil vöruþróun hefur átt sér stað innan fyrirtækisins gegnum árin og býður það upp á fjölbreytta og breiða vörulínu. Í einum grænum selur jafnframt og dreifir vörum frá Örnu ehf. í Bolungarvík og hefur samstarfið verið farsælt og gott frá 2014.

Matartíminn

Matartíminn, veitingasvið SFG, var stofnað árið 2017. Fyrirtækið sérhæfir sig í skólamat fyrir leik- og grunnskóla og leggur metnað sinn í að auka hlut íslenskra afurða, ferskt íslenskt grænmeti, kjöt og fisk, á borðum skólabarna. 

Orkuverð hækkar

Tækniframfarir í gróðurhúsaræktun er sífellt að aukast og með aukinni lýsingu hefur verið hægt að lengja ræktunartímabilið og auka uppskeru og framleiðni.

Gunnlaugur segir að hátt orku­verð sé það sem standi íslenskri garðyrkju helst fyrir þrifum í dag og komi í veg fyrir að hægt sé að auka hana og efla.

„Forsendur þess að greinin nái að þroskast og dafna eru stöðugt efnahagsástand og að orkuverð lækki. Samþykkt orkupakka eitt fól í sér aðskilnað orkuframleiðslu og orkudreifingar og orkuverð til garðyrkju bænda hækkaði um 40% á nánast einni nóttu. Hækkunin á flutningi á orku var algerlega á skjön við þróunina sem var í gangi og kippti víða grundvellinum undan því að nýta rafmagn og lýsingu til að auka innlenda framleiðslu.

Eins og ástandið er í heiminum í dag ætti það að vera deginum ljósara að öflug innlend framleiðsla á mat er öllum þjóðum nauðsynleg og skiptir þá engu hvort við erum að tala um kjöt eða grænmeti.“

Rófur grisjaðar.

 

Grunngildin halda

Að sögn Gunnlaugs er ótrúlegt hvað grunngildi Sölufélags garðyrkjumanna hafa haldið í þau 80 ár sem félagið hefur verið starfandi.

„Verkefnin í dag eru nánast þau sömu og þau voru við stofnun félagsins, þrátt fyrir að umsvifin hafi aukist. Gildin eru enn að stuðla að auknum vörugæðum og vöruvöndun og að koma vörunni á markað á sem bestan hátt. Stefnan er því sú sama, sem er að halda áfram að byggja greinina upp og tryggja framtíð hennar.

Í tilefni af þessum tímamótum langar okkur að fara í vinnu við að kortleggja garðyrkjuna í landinu og taka myndir af býlum og fólki. Ég er að tala um eins konar úttekt á garðyrkju á Íslandi árið 2020 sem eins konar söguspegil fyrir framtíðina.“

Ein af fyrstu auglýsingum Sölufélags garðyrkjumanna.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...