Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ekki benda á mig
Af vettvangi Bændasamtakana 5. október 2023

Ekki benda á mig

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands

Undanfarna mánuði hefur verið talsverð umræða um afkomu bænda við hefðbundinn landbúnað. Þar hefur komið fram gríðarlegur vandi bænda að ná endum saman við rekstur búa hvert sem litið er, hvort sem er við kjötframleiðslu eða mjólkurframleiðslu og ekki síður frumframleiðslu almennt.

Þar eru hækkanir á aðföngum mest afgerandi og ekki síður launahækkanir sem er kostnaðarauki í rekstri. Á síðastliðnu ári voru greiddar út „sprettgreiðslur“ til að bregðast við grafalvarlegri stöðu sem hótaði að knésetja íslenskan landbúnað. Staðan var þó ekki afmörkuð við Ísland þar sem margar aðrar þjóðir í kringum okkur sáu einnig ástæðu til að leggja landbúnaðinum heima fyrir lið, vegna hækkandi aðfanga á heimsmarkaði í kjölfar heimsfaraldurs. Að rúmu ári liðnu hefur staðan því miður ekki breyst til hins betra nema að litlu leyti. Áburður hefur lækkað lítillega í verði en á móti hefur fóðurkostnaður hækkað. Fyrir sauðfjárbýli hefur þetta haft ögn jákvæð áhrif en fyrir mjólkurbýli hefur hækkun fóðurkostnaðar meira að segja og hefur rekstrarkostnaður því hækkað enn meira en í fyrra. Bændur um allt land í öllum búgreinum hafa verið að gera hvaðeina sem í þeirra valdi stendur til að hagræða í sínum rekstri en það hefur ekki dugað til þannig að fleiri og fleiri eru að sjá á eftir launum. Það er ekki staða sem getur gengið áfram og engin sanngirni í því.

Við lestur fjárlagafrumvarpsins er engin vísbending um aukin framlög til landbúnaðar, að undanskildu auknu fjármagni til eflingar kornræktar en engin teikn á lofti um hvernig stjórnvöld hafa í hyggju að koma til móts við afkomuvanda í greininni. Í síðustu viku lögðu fulltrúar bænda fram kröfugerð vegna endurskoðunar á búvörusamningum og er hægt að glöggva sig á kröfugerðinni á vefsíðu Bændasamtakanna, www.bondi.is. Nú er beðið eftir viðbrögðum frá matvælaráðherra og fjármálaráðherra en þrátt fyrir lítið skyggni er það eftir sem áður von okkar að samningsaðilar komi til móts við þann gríðarlega vanda sem landbúnaður stendur frammi fyrir í gegnum búvörusamninga því það er raunverulega besta leiðin fyrir heimilin og almenning í landinu til að halda aftur af verðbólgunni, að öðrum kosti verðum við alltaf á hringekjunni og menn sjá sér þá einn kost nauðugan að velta hækkunum út í verðlag. Þá tapa allir.

Vaxtahækkanir hafa bitið fast í íslenskan landbúnað sem hefur gengið í gegnum mikla hagræðingu undanfarin ár með tilheyrandi fjárfestingu í starfsaðstöðu og tækjum.

Nautgripa-, svína- og alifuglabú hafa komið sérstaklega illa undan þessari þróun þar sem þau hafa bæði hagrætt mikið og fjárfest til að gera aðbúnað búdýra sinna sem bestan. Nú er þessum býlum að refsast að hafa lagt af stað í þessa vegferð. Gagnrýnin liggur einnig í dýrulánsfé, markaðurinn í dag eru óverðtryggð lán með 12–13% breytilegum vöxtum. Öll lán til fyrirtækja eru á breytilegum vöxtum sem þýðir að allar stýrivaxtahækkanir hafa bein áhrif strax. Möguleikar fyrir nýliða til að koma inn í greinina eru því vandasamir.

Ábyrgðinni er samt alltaf velt á bændur. Þeir eiga að hagræða í sínum rekstri, framleiða gæðavörur með lágu kolefnisspori, undirgangast auknari kröfur en viðgengst með innflutt matvæli en tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Á Búnaðarþingi 2009 ályktuðu bændur um fæðuöryggi þjóðarinnar þar sem kallað var eftir heildstæðri greiningu á fæðuöryggi þjóðarinnar, að farið yrði yfir stöðuna á framleiðslunni hér á landi, lágmarksbirgðir yrðu skilgreindar og nauðsynleg aðföng til innlendrar framleiðslu og að metið yrði hvar þyrfti að efla innlenda matvæla- og fóðurframleiðslu.

Svo hafa árin liðið, með næstum jafnmörgum skýrslum, en enginn er reiðubúinn að gangast við ábyrgðinni en allir reiðubúnir að benda í aðrar áttir og á meðan starfa bændur við letjandi starfsskilyrði.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...