Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Minn innri maður
Af vettvangi Bændasamtakana 29. nóvember 2023

Minn innri maður

Höfundur: Halla Eiríksdóttir, stjórnarmaður BÍ, hjúkrunarfræðingur og sauðfjárbóndi.

Við þekkjum vonandi öll okkar innri mann, þennan sem eintalið á við um. Hugsanir og orð sem við látum engan vita af, höldum í þær innra með okkur af ólíkum ástæðum.

Margir þekkja sinn innri mann sem orð og hugsanir full efasemda þar sem við felum okkur á bak við grímu, felum stoltið, syndina, veikleikann og þegar okkar „innri maður“ brýst fram, getur ekki meira, þá æpum við og spangólum. Við sýnum manneskjulegu hliðina.

Fyrir margt löngu lærði ég einfalda kenningu um það hvernig við kjósum að deila hugsunum okkar með öðrum. En hún var einhvern veginn svona: Ímyndaðu þér þriggja laga hring. Á þeim ysta eru þeir aðilar sem við erum málkunnug, kunningjar, fólk sem við þekkjum lítið sem ekkert og að sama skapi vita þessir aðilar lítið um þig. Á miðjum hringnum eru fjölskylda og vinir, allt fólk sem þú þekkir nokkuð vel og þau vita jafnframt ýmislegt um þig. Í kjarna hringsins ert bara þú og þinn innri maður. Þar fyrirfinnast hugsanir sem eru einungis fyrir okkur sjálf, góðar og slæmar. Ef þú heldur áfram að ímynda þér hringinn máttu gjarnan teikna hann upp og hafa miðjuna í samræmi við þá stærð sem þú metur sjálfan þig og hina hringina tvo með tilheyrandi bili eftir því sem þú metur hversu opinskár þú ert með eigin líðan. Að deila hugsunum og líðan á samfélagsmiðlum fellur undir það að vera á ysta hringum sem dæmi. Erfiðar tilfinningar eða óvissa um eigið ágæti er dæmi um það sem við höldum gjarnan út af fyrir okkur, eitthvað sem við opnum á fyrir þeim sem eru í næsta hring, það er að segja vinir og fjölskylda, en ekki í þeim ysta þar sem ókunnugir eiga sinn stað.

Okkar innri maður hefur margt að segja og getur á stundum látið heldur ófriðlega. Þá eigum við það til að freistast, hugsanlega þegar við stöndum frammi fyrir mótlæti eða erfiðleikum. „Þetta reddast“ er til að mynda ótrúlega góð aðferð til að forðast það að horfast í augu við staðreyndir. Þannig höfum við mörg okkar getað fleytt okkur áfram í búskaparbaslinu fram til þessa. Hvað ef þetta reddast ekki? Hvenær verðum við að taka þetta samtal við innri manninn, horfast í augu við staðreyndir sem geta leitt til þess að við verðum að taka erfiðar eða sársaukafullar ákvarðanir? Eintalið við okkur sjálf getur orðið mjög villugjarnt þar sem við stjórnum því alfarið og sjáum gjarnan lítið ljós við enda ganganna þegar á móti blæs. Og þá komum við að kjarna málsins. Við þurfum ekki að vera ein á þessu eintali við innri manninn, því það kemur að þeim tíma að við þurfum að ræða við aðra um vandann sem við er að etja. Þetta á bæði við smá og stór mál. Þá reynir á hvort við veljum hringinn þar sem vinir og ættingjar eru eða leitum í ysta hringinn, en þá þurfum við að hafa í huga að við séum að leita til þeirra aðila sem við getum treyst fyrir okkar leyndustu hugsunum.

Þarna stendur hnífurinn í kúnni í bókstaflegir merkingu, því bændur virðast síður leita sér aðstoðar þegar eitthvað bjátar á, samanborið við aðrar starfsstéttir. Við erum meðvituð um það að margir bændur eiga erfitt þessa dagana, þar sem reynir bæði á þrautseigju og geðslag sem aldrei fyrr. Fjárhagsáhyggjur eru vel þekktur streituvaldur sem reynist mörgum erfiður og reynir verulega oft á sambýlinga þegar slíkt ástand ríkir á heimilinu. Á Íslandi er landbúnaðarfyrirtækið eða bóndabýlið og heimilið eitt og hið sama í flestum tilfellum og hefur þess vegna áhrif á alla í fjölskyldunni. Þegar koma upp aðstæður sem þrengja verulega að fólki getur það verið farsælla að ræða slíkar áhyggjur við aðra fremur en að eiga í sálarstríði við sinn innri mann.

Skylt efni: bændageð

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...