Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Skemmtilegur dagur
Af vettvangi Bændasamtakana 10. október 2024

Skemmtilegur dagur

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Dagur landbúnaðarins er fram undan, nánar tiltekið á morgun 11. október, og ég er ekki í nokkrum vafa um að hann verður bæði áhugaverður og skemmtilegur.

Trausti Hjálmarsson

Það er nefnilega þannig að hvort heldur sem umræðan snýst um hlutverk íslenska landbúnaðarins eða tækifæri hans verður hún bæði framsækin og spennandi. Og þegar athyglin beinist að stöðu landbúnaðarins í dag og afkomu bænda, sem vissulega á enn þá í vök að verjast, skiptir sú staðreynd miklu máli að um þessar mundir þarf enginn að velkjast í vafa um þann vilja stjórnvalda og reyndar þjóðarinnar allrar að festa hann kirfilega í sessi til langrar framtíðar.

Í tilefni dagsins er blásið til málþings á Selfossi og kennir þar ýmissa grasa. Vonandi verður umræðan þess eðlis að eftir henni verði tekið og í þeim efnum horfi ég ekki síst til fjölmiðla sem sýnt hafa málefnum okkar mikinn og þakkarverðan áhuga síðustu misserin. Með því að leggja við hlustir á málþinginu geta þeir eflaust fundið sér áhugaverða vinkla til þess að fjalla um í framhaldinu. Á laugardeginum opna síðan nokkrir bændur á Suðurlandi hús sín og bjóða gestum og gangandi bæði að skoða búreksturinn og kaupa afurðir sínar beint frá býli.

Málþinginu er langt í frá ætlað að vera eintal um ágæti landbúnaðarins. Við munum t.d. heyra raddir Alþýðusambands Íslands og Samtaka verslunar og þjónustu sem væntanlega munu spegla kröfur neytenda um ásættanlegt vöruverð og heimtingu viðskiptalífsins á viðunandi samkeppnisumhverfi. Að mínu viti eru báðir hóparnir kærkomnir samherjar okkar og þar af leiðandi alls ekki andstæðingar. Bændur hafa að sjálfsögðu engin markmið önnur en að þjóna neytendum sem allra best. Til viðbótar við hagkvæma innanlandsframleiðslu er hluti af því einnig að heyja drengilega samkeppni við innflutning og stöðugt fjölbreyttara fæðuframboð á heilbrigðum grundvelli.

Íslensk þjóð þarf samt að vera sinn eigin herra að svo miklu leyti sem unnt er hvað varðar fæðuöryggi sitt. Í þeim efnum skiptir landbúnaðurinn miklu máli og fróðlegt verður að hlýða á nýráðinn framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, Margréti Ágústu Sigurðardóttur, fjalla um þann þátt á málþinginu. Erindi Arnars Más Elíassonar, forstjóra Byggðastofnunar, verður ábyggilega ekki síður athyglisvert. Stofnunin hefur með aðkomu Evrópska fjárfestingarbankans tryggt sér möguleika til þess að veita allt að 90% lán til kaupa á bújörðum sem auðvitað getur skipt nýliðun í bændastéttinni afar miklu máli.

Ég er viss um að lífleg umræða mun skapast um bæði þessi framangreindu mál á þinginu og sömuleiðis t.d. um gullhúðun EES-reglugerða sem Margrét Einarsdóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, mun fjalla um. Erindi Sveins Margeirssonar, framkvæmdastjóra nýsköpunar og loftslagsmála hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Brimi, um tækifærin í endurnýjanlegum auðlindum og upplýsingagjöf um sjálfbæra þróun, verður ábyggilega ekki síður athyglisvert.

Fjöldi góðra gesta, sem of langt mál er að telja upp hér, mun svo taka þátt í pallborðsumræðum sem eflaust verða líflegar. Fróðlegt verður svo að fylgjast með sófaspjallinu svokallaða við matvælaráðherra, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Í samskiptum okkar síðustu vikur og mánuði hefur hún bæði sýnt málefnum landbúnaðarins mikinn áhuga og skilning. Við höfum rætt um mikilvægi þess að nýir búvörusamningar muni í senn verða til þess að eggja íslenska bændur til dáða og tryggja neytendum óaðfinnanlegt aðgengi að fyrsta flokks matvælaframboði.

Markmiðin eru metnaðarfull og áskorandi og vonandi mun niðurstaða samningaviðræðnanna endurspegla þennan sameiginlega vilja.

Íslenskt samfélag er í bílstjórasætinu þegar umgjörð íslenska landbúnaðarins er annars vegar. Það er sem betur fer sinn eigin gæfu smiður. Við erum vissulega ekki óháð aðstæðum í alþjóðasamfélaginu, stríðsátökum, náttúruhamförum, hlýnun jarðar o.s.frv. Í aðalatriðum ráðum við samt för þegar nýting hinna íslensku náttúruauðlinda okkar, ræktun, framleiðsla matvæla og gæði þeirra er annars vegar. Andhverfa þess að hafa örlögin í sínum eigin höndum sést t.d. í þeim ógnunum sem felast í súrnun og mengun sjávar fyrir auðlindir hinna alþjóðlegu hafsvæða. Þar ráðum við auðvitað engu í stóra dæminu og heldur engu um ógnir í Atlantshafinu eða íslenskri landhelgi. Sjórinn hvorki þekkir né virðir nokkur landamæri.

Önnur mikilvæg útflutningsverðmæti okkar Íslendinga eru einnig háð ytri aðstæðum sem við höfum litla sem enga stjórn á sjálf. Tískustraumar ferðamennskunnar geta t.d. eflaust verið fallvaltir enda þótt hreinleiki og fegurð íslenskrar náttúru glati vonandi aldrei aðdráttarafli sínu. En það eru einmitt duttlungar þeirrar sömu móður jarðar, t.d. með eldsumbrotum sínum, sem geta nánast á einni nóttu orðið alvarleg hindrun fyrir móttöku milljóna ferðamanna á hverju ári eða dregið úr kjarki þeirra og áhuga á að sækja heim þessa óútreiknanlegu eyju elds og ísa. Á þessum þáttum höfum við enga stjórn frekar en t.d. hinum miklu sveiflum í heimsmarkaðsverði á áli sem ráða svo miklu um tekjur okkar af raforkuframleiðslunni.

Eitt breytist samt ekki og ávallt er hægt að ganga að því vísu: Fólk þarf að borða. Og væntanlega mun það heldur ekki breytast að landsmönnum haldi áfram að fjölga. Til viðbótar munu kröfurnar um gæði matvælanna og heilbrigðan uppruna þeirra verða stöðugt fyrirferðarmeiri. Þar getur íslenskur landbúnaður staðið hnarreistur í fylkingarbrjósti, jafnt hér á heimamarkaði sem annars staðar. Þess vegna verður umræðan á degi landbúnaðarins án efa bæði fróðleg og skemmtileg.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...