Aftur kemur vor í dal
Þessi árstími, vorið, er uppáhaldsárstíðin mín. Krafturinn og orkan í jörðinni, sólinni og umhverfinu eru ólýsanleg. Sauðburður og vorverk eru eitthvað svo nærandi fyrir sálina. Allt gengur þetta út á að koma nýju lífi af stað og hjálpa því fyrstu skrefin. Þegar farfuglarnir koma veit maður að vorið er á næsta leiti og vorinu fylgja ný tækifæri.
Þetta verður samt eitthvað svo flatt svona á blaði. Ég kem ekki til skila þessari tilfinningu sem mig langar svo að deila með ykkur! En þið þekkið þetta, bændurnir, og vitið alveg um hvað ég er að tala. Ekki að vorið sé endilega dans á rósum. Stundum er vorið kalt og jafnvel allt á kafi í snjó. Það getur reynt á bæði menn og skepnur. En núna byrjar þetta óvenju vel, jarðvinnsla er víða komin vel á veg og sumir farnir að sá korni.
En hvað er það þá sem mig langar að segja um vorið? Jú, það er nýtt upphaf. Við þurfum að huga vel að því sem við gerum, vanda okkur til að skila sem bestum árangri. Upphafið er dýrmætt og leggur grunninn að áframhaldinu. Núna í jarðvinnslunni skiptir ástand jarðvegs miklu máli. Það má ekki vera of súrt til að ræktun takist, annars erum við að ausa áburði til einskis og gætum alveg eins hent hluta hans. Sama gildir um flest annað. Því meiri natni sem sýnd er í upphafi, þeim meiri líkur eru á að vel takist til. Matvælaframleiðsla er vandaverk og stór hluti hennar byrjar í jarðræktinni. Fóðuröflunin leggur grunninn að því sem koma skal og getur haft úrslitaáhrif um afkomu búsins. Þau verðmæti sem bændur skapa með orkuríku heimafengnu gæðafóðri eru mikil.
Öruggur matur
Hópur um örugg matvæli, sem í eru samtök bænda og fyrirtæki í landbúnaði, hefur sett upp vefsíðuna oruggurmatur.is. Ásamt henni eru auglýsingar, myndbönd og annað kynningarefni sem varðar matvælaöryggi og gildi þess að eiga traustan landbúnað. Höfuðáhersla er lögð á að fræða alla sem láta sig málið varða og vilja kynna sér þær framleiðsluaðstæður sem íslensk matvælaframleiðsla býr við. Við bændur eigum að nýta hvert tækifæri til þess að ræða um heilnæmi matvæla, lýðheilsu og góða framleiðsluhætti. Þannig sáum við líka fræjum!
Okkur er umhugað um að efla vitund neytenda um uppruna matvara og að þeir kynni sér vel hvað felst í því að flytja matvæli um langan veg. Fólk þarf að taka meðvitaða ákvörðun um hvað það velur að setja ofan í innkaupakörfuna sína. Það að neytendur séu vel upplýstir er gott, enda eigum við öll rétt á því að vita uppruna þeirrar matvöru sem við erum að borða, hvort heldur sem hún er keypt úti í búð, beint frá bónda eða snædd í mötuneyti eða veitingahúsi. Það er fólki svo að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvað það velur sér. Meginatriðið er að upplýsingarnar liggi fyrir og séu skýrar.
Innkaupastefna hins opinbera jákvætt skref
Fyrir nokkrum vikum skiluðu Bændasamtökin og fleiri félög í landbúnaði umsögn um drög að innkaupastefnu fyrir opinbera aðila. Þau drög sem fyrir liggja eru afrakstur vandaðrar vinnu og víðtæks samráðs og virðast til mikillar fyrirmyndar. Vert er að minna á að nauðsynlegt er að samþætta sem best opinbera stefnumótun og því þarf innkaupastefna að ríma við aðra stefnumótun, s.s. matvælastefnu, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og fleira. Þá er ekki síður mikilvægt að tryggja fjármagn til innleiðingar stefnunnar, sem og viðeigandi fræðslu og leiðsögn til framleiðenda, neytenda og kaupenda, m.a. með skýrum verklagsreglum. Samstarf ríkis og sveitarfélaga er mikilvægt og ánægjulegt ef hægt er að samræma verklag við innkaup á matvörum.
Vænta má þess að innleiðing innkaupastefnu eins og kynnt er í drögunum geti falið í sér margvíslegan ávinning fyrir alla hagaðila, hvort sem litið er til umhverfislegra þátta, lýðheilsu eða þeirrar hvatningar sem drögin fela í sér fyrir innlenda framleiðendur. Þá er algjört meginatriði við innleiðingu stefnunnar að þeim sem annast opinber innkaup verði tryggð nauðsynleg verkfæri til að framfylgja henni svo hún nái fram að ganga. Gæðamatvæli kosta óhjákvæmilega meira og taka verður tillit til þess.
Alþingi sýni ábyrgð?
Allt útlit er fyrir að frumvarp landbúnaðar-ráðherra um innflutning á ófrosnu kjöti komi til kasta Alþingis á næstunni. Rök Bændasamtakanna gegn innflutningi á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk þarf vart að kynna fyrir lesendum. Þau hafa ítrekað bent á að vísindaleg rök stjórnvalda í málflutningi sínum fyrir dómstólum um áhættu vegna aukins innflutnings á framangreindum afurðum hafa ekki verið dregin í efa.
Aðstaða íslensks landbúnaðar til að keppa við erlenda framleiðslu getur ekki talist jöfn og greinin býr yfir ýmiss konar sérstöðu sem auðvelt er að glata. Sérfræðingar hafa bent á að afnám takmarkana á innflutningi, svo sem frystiskyldu, muni þýða verulega aukna áhættu á ýmsum sviðum fyrir heilsu manna og dýra. Matarsýkingum fjölgi og meiri hætta verði á að hingað berist bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Það er ekki allt í lagi að stefna því í hættu.
Aðgerðaáætlun ráðherra sem fylgir frumvarpinu er góðra gjalda verð. Það er ekki ástæða til að vera á móti neinni þeirra 15 aðgerða sem þar er að finna. Hins vegar er mikil vinna eftir við að fjármagna og útfæra aðgerðirnar. Þar vantar mikið upp á. Enginn sanngjarn maður getur haldið því fram að þær verði farnar að hafa áhrif þann 1. september þegar lögin eiga að taka gildi. Vilji Alþingi sýna ábyrgð gagnvart íslenskum landbúnaði og innlendri matvælaframleiðslu verður að fresta gildistöku málsins til að aðgerðirnar hafi í það minnsta möguleika á að hafa áhrif. Það er ekkert annað í boði.