Hin hliðin á peningnum
Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi. Hvorki fleiri né færri. Í hita umræðuátaka er reyndar stundum skautað fram hjá þessu ófrávíkjanlega lögmáli og sum okkar setja þá gjarnan kíkinn fyrir blinda augað og fyrirgefa yfirsjónina vegna þess að tilgangurinn helgi meðalið.
Það er hins vegar útilokað að fyrirgefa sjálfu Viðskiptaráði Íslands, sem að eigin sögn á vef sínum [„...] vinnur að því að efla íslenskt atvinnulíf og skapa þannig forsendur til framfara og bættra lífskjara.“ setur fram villukenningu sem jafnvel mætti kalla falsfrétt um sparnað í heimilisbuddu landsmanna með því að afleggja tolla á innflutt matvæli.
Viðskiptaráð Íslands er frjáls félagasamtök sem segjast hafa unnið samkvæmt framangreindu leiðarljósi allar götur síðan 1917. Nokkuð augljóst virðist vera að á þeim bæ teljist íslenskur landbúnaður ekki lengur til atvinnulífsins og þrátt fyrir fagurgala um bætt lífskjör almennings virðast þröngir sérhagsmunir ráða alfarið för þegar slengt er fram staðhæfingum um búhnykk heimilanna með ótolluðum matvælainnflutningi. Hjá hagfræðingunum, sem í þessu tilfelli mætti kannski frekar kalla spunameistara, er hinni hliðinni á peningnum algjörlega sleppt og hlýtur hún þó að vera hverjum manni augljós.
Okkur þótti öllum vænt um að heyra á sínum tíma þau fleygu orð falla frá fyrrverandi forsetafrú okkar í hrifningarvímu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 að „Ísland er ekki lítið land – það er stórasta land í heimi“. Það er hins vegar grafalvarlegt ef því er í alvörunni trúað innan veggja Viðskiptaráðs Íslands að samfélagið okkar sé af þeirri stærðargráðu að við getum ein allra þjóða heims sagt okkur úr lögum við heimsmarkaðinn hvað tollvernd varðar. Samningar allra þjóða um tollvernd eru nefnilega gagnkvæmir. Okkar matvæli bera mismunandi mikla tolla inn í viðkomandi lönd og samningsstaða okkar í þeim efnum myndi veikjast til mikilla muna ef hér væri einfaldlega „ókeypis aðgangur og allir velkomnir“. Tollvernd þjóða heims byggist á gríðarlega stóru og flóknu alþjóðakerfi marghliða samninga sem allir lúta að því að jafna aðstöðumun og tryggja rekstrargrundvöll landbúnaðar hverrar þjóðar.
Það er auðvitað einfalt reikningsdæmi að finna út mögulega verðlækkun ef engir væru tollar eða aðflutningsgjöld á matvæli. Það væri eflaust líka hægt að lækka skatta á heimilin með því að leggja t.d. niður löggæslu í landinu og jafnvel dómstólana líka. En hverjar yrðu afleiðingarnar? Hvernig yrði hin hliðin á peningnum? Og hvað myndi það þýða þegar upp er staðið ef t.d. bæði íslenskum landbúnaði og væntanlega um leið langstærsta hluta ferðaþjónustunnar myndi blæða út? Ég er þá ekki eingöngu að hugsa um atvinnumissi bænda og landbúnaðartengdra starfa. Og ég er heldur ekki að hugsa eingöngu um tekjur þjóðarbúsins af hinum blómlega ferðamannaiðnaði. Ég hef líka í huga þann landbúnaðartengda menningararf sem íslenskri þjóð er í blóð borinn í gegnum árhundruðin frá landnámi Íslands. En ekkert af þessu kemst inn í reikningsformúlur sérfræðinga Viðskiptaráðs.
Þeir hafa reiknað út umtalsverðar lækkanir á innfluttum matvælum ef tollar yrðu aflagðir. Væntanlega yrði matvaran um leið langt undir verði í viðmiðunarlöndum okkar. Kannski er það reyndar eitt og sér of gott til að geta verið satt. En hvernig skyldu þessir sömu reiknimeistarar íslenskra innflytjenda útskýra íslenskt útsöluverð á t.d. húsgögnum, fötum og skóm? Allt eru þetta vörur sem fluttar eru til landsins án nokkurra tolla eða aðflutningsgjalda. Samt er verðið langt fyrir ofan það sem býðst utan landsteinanna og Íslendingar flykkjast enn tugþúsundum saman í innkaupaferðir til útlanda eða kaupa varninginn af alþjóðlegum netverslunum.
Þetta útspil Viðskiptaráðs Íslands er að mínu viti langt í frá málefnalegt innlegg í umræðu um heildarmyndina þegar efling íslensks atvinnulífs og hagur heimilanna er annars vegar. Og auðvitað veldur það vonbrigðum líka, enda þótt það komi e.t.v. ekki á óvart, að framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, eða ætti ég í þessu tilfelli að tala frekar um „félag innflytjenda“ stökkvi á vagninn og taki undir heilshugar. Það er hins vegar vonandi að fólkið í landinu gjaldi varhug við málflutningi af þessu tagi og hafi það í huga að á þessum peningi eru klárlega tvær hliðar – og önnur þeirra er vægast sagt ófrýnileg. Þess vegna var gott að sjá þau afdráttarlausu viðbrögð fjármálaráðherra fyrr í vikunni að honum þætti þetta fráleit hugmynd enda þótt hann orðaði það eilítið kurteislegar.