Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vegurinn yfir Öxi 25. febrúar 2023 þegar hann var lokaður vegna G-reglunnar.
Vegurinn yfir Öxi 25. febrúar 2023 þegar hann var lokaður vegna G-reglunnar.
Mynd / Aðsend
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Höfundur: Guðný Lára Guðrúnardóttir, Ingi Ragnarsson og Oddný Anna Björnsdóttir, heimastjórn Djúpavogs, eins af byggðakjörnum Múlaþings.

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem kostnað en ekki fjárfestingu sem skilar sér jafnan margfalt til baka.

Múlaþing varð til þegar fjögur sveitarfélög á Austurlandi sameinuðust árið 2020. Úr varð eitt víðfeðmasta sveitarfélag landsins með fjórum aðskildum byggðakjörnum og því forgangsmál að helstu lífæðar milli kjarnanna séu greiðar, allt árið um kring.

Öxi, fjallvegurinn sem liggur frá botni Berufjarðar yfir í Skriðdal, styttir leiðina frá Suðurlandi yfir á Egilsstaði um tæpa 70 km og aksturstímann um tæpa klukkustund. Fyrir íbúa Djúpavogs sem sækja þjónustu á Egilsstaði sem dæmi, er tímasparnaðurinn í hverri ferð hátt í tvær klukkustundir. Umferð um Öxi hefur aukist ár frá ári, þrátt fyrir að veginum sé illa viðhaldið, oft illfær, öryggi ábótavant og fari ekki vel með ökutækin.

Guðný Lára Guðrúnardóttir.

Frá því að vegurinn var opnaður í apríl á þessu ári, þar til bera fór á lokunum í október, fóru tæp 80 þúsund ökutæki um veginn sem sparaði þeim 5.400.000 km akstur. Að meðaltali fóru 410 bílar um veginn á dag, þegar mest lét hátt í 700. Samkvæmt FÍB kostar ekinn km að meðaltali um 85 kr.

Fjárhagslegur sparnaður, aðeins

tengt bílnum sjálfum, var því um hálfur milljarður. Yrði vegurinn greiðfær allt árið myndi sú upphæð væntanlega tvöfaldast. Tímasparnaður ökumanna þessara 80 þúsund bíla var rúm 9 ár; 18 ef miðað er við tvo í bíl að jafnaði. Erfitt er að verðleggja það.

Ingi Ragnarsson.
Áratugabið en frestað til 2027

Nú þegar hafa íbúar og aðrir sem ferðast um svæðið beðið í rúm 20 ár eftir heilsársvegi yfir Öxi. Má þar nefna flutningsaðila sem þjónusta íbúa, verslun og aðra starfsemi í landshlutanum. Óþarflega hár flutningskostaður endar að sjálfsögðu í hærra verði fyrir vörur og þjónustu.

Hönnun vegarins verður lokið í byrjun næsta árs og gætu framkvæmdir því hafist strax á vormánuðum. En þrátt fyrir það og sameiningu sveitarfélaganna var vegagerðinni seinkað í samgönguáætlun til 2027. Áætlað er að framkvæmdin taki þrjú ár sem þýðir að ef vegurinn verður ekki færður enn aftar verður hann tilbúinn 2030.

Oddný Anna Björnsdóttir.

Áætlaður kostnaður við uppbyggðan heilsársveg voru þrír milljarðar árið 2021 þegar framkvæmdum var frestað. Því er augljóst að fjárfestingin yrði ekki lengi að borga sig og ekki þarf að nefna hve loftslagsvæn hún er.

Mikilvægi vetrarþjónustu

Þar sem heilsársvegurinn verður ekki tilbúinn á næstu árum skiptir vetrarþjónustan afar miklu máli. Öxi er á hinni svokölluðu G-reglu sem þýðir að vegurinn er ekki þjónustaður frá 1. nóvember til 20. mars. Á vorin og haustin er vegurinn aðeins þjónustaður tvisvar í viku og eingöngu ef snjólétt er. Gefin er heimild til að þjónusta til 5. janúar þegar snjólétt er og sveitarfélagið greiðir helminginn.

Þegar Vegagerðin ákveður að kanna með opnun á Öxi er maður sendur frá Höfn eða Djúpavogi upp á Öxi til að kanna aðstæður. Kostnaðaráætlun er gerð sem er send á Reyðarfjörð. Þar ráða menn ráðum sínum með veðurfræðingi Vegagerðarinnar og samþykkja hana ef niðurstaðan er jákvæð. Upplýsingarnar eru svo sendar „suður“ til að fá lokasamþykki. Þetta er tímafrekt ferli og glatast því oft góðir dagar til að þjónusta og opna. Ef spár breytast þarf að hefja ferlið upp á nýtt.

Þann 4. janúar síðastliðinn var heimild til að opna Öxi samkvæmt G-reglu. Lítill snjór var á henni en spáði úrkomu. Því var ákveðið að hinkra aðeins. Þann 6. janúar kom svo þvert nei, því komið var fram yfir 5. janúar og eftir það er ekki heimilt að þjónusta veginn samkvæmt G-reglunni.
Hefði ekki verið horft svona stíft í þá dagsetningu hefði verið einfalt og kostnaðarlítið að halda Öxi opinni fram að óveðrinu 27. mars. Í framhaldinu hefði verið mun ódýrara og fljótlegra að opna hana aftur, því ekki hefði þurft að berjast við mikinn klaka eins og jafnan eftir langar lokanir. Vegurinn hefði þornað fyrr og verið betur undirbúinn undir umferðina um vorið. Sama má segja um janúar 2022, enda oft og tíðum lítil úrkoma á Öxi fram í febrúar.

Heildarkostnaðurinn við vetrarþjónustu á Öxi síðastliðinn vetur var á bilinu 6-9 milljónir. Sparnaður af því að hafa hana opna miðað við fjölda bíla yfir vetrartímann er hins vegar hátt í milljón, Á DAG, miðað við útreikningana hér ofan! 

Biðlum til samgönguráðherra

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að Öxi er fjallvegur og að á meðan hann er ekki uppbyggður og lagður slitlagi er erfiðara að snjóhreinsa hann og geta komið tímabil þar sem veðurfar og snjóalög eru þannig að ekkert verði við ráðið. En að halda sig fast við ákveðna dagsetningu, algjörlega óháð veðri og snjóalögum, finnst okkur út í hött.

Við biðlum því til samgöngu­ráðherra að Öxi verði færð af G-reglunni yfir á tveggja daga opnun og til vara að dagsetningin 5. janúar verði aflögð og vegurinn þjónustaður þegar aðstæður leyfa. Eins að settir verði fastir fjármunir, til dæmis 8-10 milljónir, í vetrarþjónustu á Öxi sem þjónustumiðstöðin á Höfn hefði til ráðstöfunar, án aðkomu annarra. Og að sjálfsögðu biðlum við til hans að heimila framkvæmdir við heilsársveginn strax í vor.

Guðný Lára Guðrúnardóttir, Ingi Ragnarsson
og Oddný Anna Björnsdóttir,
heimastjórn Djúpavogs, eins af byggðakjörnum Múlaþings.

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...