Búvörusamningar í garðyrkju: Hafa aukið fjölbreytni og framboð á gæðavörum allt árið
Höfundur: Katrín María Andrésdóttir
Fyrsti búvörusamningurinn í garðyrkju var gerður árið 2002. Til að gæta nákvæmni hét samningurinn reyndar því óþjála nafni „Aðlögunarsamningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands / Sambands garðyrkjubænda“.
Búvörusamningar eru samstarfssamningar ríkis og bænda
Sennilega væri meira lýsandi að búvörusamningar hétu samstarfssamningar. Það eru þeir í raun þar sem allir aðilar hafa réttindi og skyldur er lúta að því að uppfylla sameiginleg markmið. Í samningagerðinni felst að aðilar koma sér saman um með hvaða hætti umgjörð framleiðslunnar verði í tiltekinn tíma. Slíkur rammi er mikilvægur til að auðvelda áætlanir um starfsgreinina, svo sem áform um fjárfestingar og mat á þáttum svo sem nauðsynlegu landrými, ræktunarþörf, eftirspurn, menntunarþörf í starfsgreininni, vinnuaflsþörf og fjölmörgu öðru. Þótt búvörusamningar séu mikilvægir bændum eru þeir ekki síður nauðsynlegt stjórntæki fyrir hið opinbera, sem mótar umgjörð landbúnaðarins í samræmi við aðra stefnumótun í landinu. Rétt eins og framleiðsluferlar í landbúnaði geta verið mjög langir, á það ekki síður við um verkefni hins opinbera, s.s. uppsetningu nýrra námsbrauta í takt við breytingu á menntunarþörfum, aðlögun laga og reglugerða að nýjum framleiðsluháttum í matvælaframleiðslu, þróun landbúnaðar og löggjafar erlendis o.fl. Það er því nauðsynlegt fyrir alla samningsaðila að hafa skýran ramma um samstarfið til lengri tíma. Endurskoðunarákvæði í samningum tryggja að samningsaðilar geti brugðist sameiginlega við ófyrirsjáanlegum aðstæðum sem upp kunna að koma.
Breytingar
Engum þarf að blandast hugur um að þróun í garðyrkju hefur verið ör síðustu ár og miklar breytingar hafa orðið frá því fyrsti samningurinn var gerður fyrir 14 árum. En af hverju – hvað gerðist?
Fyrst ber að nefna að fjölmargir áhrifaþættir í ytra umhverfi greinarinnar hafa tekið miklum stakkaskiptum, s.s. fjöldi ferðamanna, matarvenjur þjóðarinnar, tækni í garðyrkjustöðvum og samfélaginu öllu. Eftirspurn eftir innlendum garðyrkjuafurðum hefur vaxið mjög á þessu tímabili en það hefur framleiðslugetan líka gert. Líkt og í öðrum greinum landbúnaðar hefur framleiðendum fækkað en bú þeirra jafnframt stækkað. Fjölbreytni í ræktun hefur aukist og nú má einnig fá fleiri tegundir yfir lengra tímabil, þ. e. fleiri vikur á ári hverju.
Markmið með búvörusamningum í garðyrkju
Við gerð samningsins árið 2002 voru sett fram markmið og hafa þau í raun verið kjarni samstarfsins síðan.
Markmiðin hafa m.a. falist í því að:
• Lækka verð til neytenda á garðyrkjuafurðum.
• Auka hagkvæmni og samkeppnishæfni innlendrar grænmetisframleiðslu.
• Treysta tekjugrundvöll framleiðenda.
Til að ná fram markmiðum samningsins hafa m.a. verið farnar eftirfarandi leiðir:
• Ríkið hefur með samningi við orkufyrirtækin greitt niður hluta kostnaðar við flutning og dreifingu raforku til garðyrkjustöðva í ylrækt.
• Tollvernd hefur verið afnumin af tómötum, gúrkum og paprikum en beingreiðslur teknar upp í staðinn.
• Stutt hefur verið við bændur vegna úreldingar gróðurhúsa og uppsetningu lýsingarbúnaðar.
• Árlega hafa verið veitt framlög til verkefna á sviði kynningar, rannsókna, þróunar og endurmenntunar. Svipar þeim stuðningi mjög til ýmissa annarra atvinnulífssjóða sem styðja við vöruþróun, nýsköpun o.fl.
Hvað hefur tekist best?
Það er fróðlegt að velta því upp hvort þau markmið sem sett voru hafi náðst. Á því hafa verið gerðar samantektir og fyrir liggja ýmsar tölulegar upplýsingar sem ekki er svigrúm til að birta hér. Ekki er um það deilt að verð á grænmeti til neytenda, bæði innlendu og innfluttu, hefur lækkað. Þróun í lýsingu hefur orðið mjög veruleg, bæði hvað varðar aukinn ræktunarárangur en ekki síður þegar litið er til hagkvæmari nýtingar á þeirri orku sem til lýsingarinnar fer.
Framlög til kynningarstarfs, rannsókna og vöruþróunar hafa verið greininni afar mikilvæg og átt stóran þátt í að tekist hefur að auka fjölbreytni og framboð á gæðavörum árið um kring. Sífellt fjölgar einnig þeim vörum sem unnar eru úr innlendum garðyrkjuafurðum og rík áhersla er lögð á gæðastarf, bæði í höndum bænda og afurðastöðva þeirra.
Sú markvissa þekkingaryfirfærsla sem átt hefur sér stað með reglulegum komum erlendra ráðunauta hingað til lands er ánægjulegt dæmi um góðan og skilvirkan stuðning sem skilað hefur framúrskarandi árangri. Framlag í búvörusamningum hefur m.a. verið nýtt til að niðurgreiða kostnað við komu erlendu ráðgjafanna sem eðlilega er verulegur. Með endurteknum heimsóknum í garðyrkjustöðvar í fylgd innlendra ráðunauta hafa erlendu ráðunautarnir kynnst ræktunaraðstæðum hérlendis og geta nú í auknum mæli sniðið ráðgjöf sína og þjónustu að íslenskri garðyrkju. Innlendu ráðunautarnir fylgja eftir ráðgjöf og þjónustu þeirra erlendu og njóta góðs af þekkingu kollega sinna og eiga við þá samstarf um nýjungar í garðyrkju o.fl. Þeir garðyrkjubændur sem rætt var við vegna ritunar þessarar greinar voru allir á einu máli um að þessi aðstoð erlendu ráðunautanna og uppbygging þekkingar meðal bænda og ráðunauta innanlands væri annað af tveimur atriðum sem mestan árangur hefði borið frá því samstarf á vettvangi búvörusamninga í garðyrkju hófst. Hitt atriðið er sú jákvæða og mikla þróun í lýsingu í ylræktinni sem skilað hefur prýðilegum árangri.
Enn er verk að vinna
Þótt hér hafi verið rakin dæmi um þau markmið sem náðst hafa fram er björninn ekki unninn þegar kemur að afkomu bænda. Nauðsynlegt er að vinna áfram að því að styrkja þann þátt og gera þarf sérstakt átak til að auðvelda nýliðun í greininni. Slíkt verkefni þarf að vinna með langtímasjónarmið í huga, þróunin á Norðurlöndunum og víðar sýnir að nýliðun í landbúnaði er mikil og vaxandi áskorun.
Það er einnig viðvarandi verkefni hjá garðyrkjubændum að njóta ásættanlegra kjara vegna kaupa á raforku til ylræktar. Það er verkefni Íslendinga, sem þjóðar, að forgangsraða með hvaða hætti nýta eigi sameiginlegar auðlindir. Þar hlýtur garðyrkjan að njóta vaxandi skilnings og forgangs í framtíðinni. Kannanir sýna að innlendar garðyrkjuafurðir njóta mikils velvilja íslenskra neytenda og kolefnisfótspor íslenska grænmetisins er í öllum tilfellum mun minna en þess innflutta skv. þeim mælingum sem gerðar hafa verið.
Framangreindir þættir verða áfram til úrlausnar í þeim samstarfssamningum sem kallast í daglegu tali búvörusamningar. Framtíðin er björt – og græn.