Dulin markmið
Það eru mörg baráttumálin hjá hagsmunasamtökum og pólitískum öflum á Íslandi. Nokkur þeirra virðast hafa það að höfuðmarkmiði að ganga af íslenskum landbúnaði dauðum. Þannig að hann sé ekki að þvælast fyrir kaupmönnum sem vilja óheft frelsi í innflutningi og álagningu á landbúnaðarvörur.
Í þessari baráttu skiptir engu máli hvaða rök íslenskir bændur bera fram né íslenskir og erlendir vísindamenn og virtir fræðimenn í þróun matvælaframleiðslu á heimsvísu. Hinn íslenski Mammon þarf aukið olnbogarými á markaðnum.
Fyrrverandi ritstjóri á Fréttablaðinu og núverandi framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda talaði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni 5. febrúar um nauðsyn á frelsi í innflutningi á kjötvörum og sagði m.a.:
„Okkar röksemdafærsla hjá Félagi atvinnurekenda hefur fyrst og fremst verið sú að neytendur eigi að geta valið. Það á að vera hægt að flytja inn kjöt á lágum eða helst engum tollum … og það þarf að vera umræða og upplýsing á meðal neytenda.“
Það er einmitt það. Er þá ekki rétt að ræða um aðvörunarorð lækna og tölur frá Evrópsku lyfjastofnuninni (EMA – European Medicine Agency) um lyfjanotkun í landbúnaði? Upplýst hefur verið að megnið af innflutta kjötinu komi frá Þýskalandi sem er mesti lyfjanotandi í landbúnaði í Evrópu!
Framkvæmdastjórinn sagði frá því að erlendir birgjar íslenskra kjötinnflytjenda uppfylltu strangar kröfur um innra og ytra eftirlit með heilbrigði og hollustu, vottuð gæðakerfi og rekjanleika vörunnar niður á einstakar skepnur.
Einmitt það. Í sjónvarpsþætti á RÚV fyrir skömmu var heimildamynd um kjötflutninga á milli landa sem sýndi vel fáránleika upprunamerkinga sem ESB gefur út. Þar var m.a. greint frá grísum sem aldir voru upp í Litháen, Finnlandi og í Danmörku og fluttir lifandi til Póllands. Eftir stutt áframeldi í Póllandi fóru þeir í pólsk sláturhús og var pakkað samkvæmt reglum ESB. Og viti menn, þá var upprunaland grísanna Pólland. Svipuð tilvik hafa komið upp varðandi kjúklinga-, hrossa- og nautakjöt. Menn vita lítið um raunverulegan uppruna.
Þessi skrípaleikur er farinn að ganga mjög nærri úrvinnsluiðnaði í Danmörku og finnskir bændur óttast að þegar búið verði að hrekja þá af heimamarkaði muni innflutt kjöt stórhækka í verði. − Getur verið að það sé líka undirliggjandi markmið með óheftum innflutningi á kjöti til Íslands?