Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Eintal eða samtal
Skoðun 25. ágúst 2016

Eintal eða samtal

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Veruleg umræða hefur farið fram í samfélaginu um búvörusamningana sem enn eru til umfjöllunar á Alþingi, þó vonandi sjái brátt fyrir endann á því. Margir hafa fjallað um málið með misjafnlega ítarlegum hætti og túlkað það út og suður. 
 
Atvinnuveganefnd þingsins hefur unnið heilmikið með málið og sett mark sitt á það. Bændur hafa rætt við nefndina ásamt mörgum öðrum. Afstaða bænda hefur mótast út frá því sjónarmiði að breytingar raski ekki þeim samningstexta sem undirritaður var í febrúar síðastliðnum. Breytingar sem færu yfir það strik þýddu í raun að ríkið væri hlaupið frá eigin samningi og byrja þyrfti að nýju. Þegar þetta skrifað er endanleg afgreiðsla nefndarinnar ekki ljós, en þær tillögur sem kynntar hafa verið bændum virðast uppfylla það skilyrði.
 
Samið var um endurskoðanir
 
Það er vissulega umdeilanlegt sjónarmið, einkum þegar sumir eru farnir að túlka sem svo að samningarnir hafi verið styttir úr tíu árum í þrjú. 
 
Alltaf lá fyrir að samið var um endurskoðanir, ekki eina heldur tvær, það er á árunum 2019 og 2023, en samningstíminn er í heild tíu ár.  Atvinnuveganefnd er nú að leggja fyrir framkvæmdavaldið að endurskoðunin 2019 verði unnin með ákveðnum hætti. 
 
Talin eru einstök atriði sem fara eigi yfir og draga saman gögn til að geta betur metið hvernig landbúnaðurinn er að þróast og hvernig markmið samninganna eru að nást. Slíkt er hægt að taka heils hugar undir. Jafnframt er líka ljóst að þróun í samfélaginu öllu er hraðari en áður og aðstæður kunna að þróast á einhvern þann hátt sem við sjáum ekki fyrir.  Það er skynsamlegt að hafa möguleika á að bregðast við því.  
 
Hugmyndir um að verulega aukið samráð
 
Allmikið hefur líka verið kvartað yfir ónógu samráði við gerð samninganna.  Atvinnuveganefnd leggur fram hugmyndir um að verulega aukið samráð verði í aðdraganda endurskoðunarinnar 2019. Það er eðlilegt að vinna þetta þannig, en um leið verður að gera þá kröfu að þeir sem gera kröfu um að koma að borðinu hafi það að markmiði að efla íslenskan landbúnað, en ekki vinna gegn honum. 
 
Samtök innflutningsfyrirtækja, sem kalla sig Félag atvinnurekenda, hafa fengið ótrúlega mikið pláss í umræðu um landbúnað. Það er skrítið því að þeirra hagsmunir felast ekki öðru en að búvöruframleiðsla og önnur framleiðsla sé sem minnst svo að þessi fyrirtæki hafi meira að gera við að flytja inn. Þeim er auðvitað frjálst að tjá sig eins og öðrum en menn verða að muna að þeir eru ekki óháðir álitsgjafar, heldur eru þeir að berjast fyrir ákveðnum hagsmunum. Nú síðast kallaði framkvæmdastjóri samtakanna kröfuna um heilbrigð og heilnæm matvæli viðskiptahindrun. Ætli allir neytendur séu sammála því? Það held ég ekki því að velvilji neytenda er sannarlega mikill gagnvart íslenskum landbúnaði og þeirri einstöku sérstöðu sem hann býr yfir í formi hreinleika, banni við notkun vaxtarhvetjandi efna, óverulegri notkun sýklalyfja og eiturefna. Þetta eru hlutir sem skipta sífellt meira máli.
 
Betra ef ríkið hefði mætt betur undirbúið
 
Vissulega hefði mátt kalla fleiri að borðinu við undirbúning samninganna. Landbúnaðurinn er ekki einkamál bænda, enda framleiðir hann mat sem allir þurfa á að halda. Spurningin er bara hvað var gert og hver átti að sinna því. 
 
Bændur voru tilbúnir með sínar áherslur snemma árs 2015, en ekki tókst að koma samningaviðræðum í gang fyrr en síðla sama árs.  Það hefði verið betra ef ríkið hefði mætt betur undirbúið. 
 
Það er alveg ljóst að það hleypti illu blóði í marga að þingmannanefnd um landbúnaðarmál sem skipuð var 2014 skyldi aldrei koma saman.  Eins er gagnrýnivert að nefnd um eflingu matvælaframleiðslu í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, skyldi ekki vera skipuð fyrr en seint og um síðir. Henni tókst síðan ekki að ljúka störfum fyrir samningsgerðina og hefur reyndar ekki lokið þeim enn. Þarna hefði ríkið getað staðið betur að málum og búið sér til veigameira veganesti fyrir viðræðurnar.  En með tillögum atvinnuveganefndar er komið til móts við þessa gagnrýni og vonandi verður sú vinna sem nefndin kallar „Þjóðarsamtal um landbúnað“ til þess að skapa góða sátt í málinu.  Það er sannarlega eftirsóknarvert.
 
Margs konar breytingar fyrirhugaðar
 
Eins og oft hefur komið fram í umræðum um þessi mál þá eru margs konar breytingar fyrirhugaðar með nýju samningunum. Þeir eru svo sannarlega ekki í samræmi við það sem oft er sagt um „landbúnaðarkerfið“ að þar vilji aldrei neinn breyta neinu. 
 
Mörg nýmæli er að finna í samningunum, m.a. aukna áherslu á jarðrækt, nýliðun, lífræna ræktun, geitfjárrækt og fleira. Þá er einnig nýtt og mikilvægt verkefni um mat á gróðurauðlindum. Það er því mikið undir og menn verða að muna þennan fjölbreytileika þegar að samningarnir eru ræddir. En um leið er landbúnaðurinn sannarlega þannig að framleiðsluferlar eru langir og breytingar þurfa langan aðdraganda.  Breytingar samninganna voru líka gagnrýndar af mörgum bændum enda voru samningsdrögin kynnt á opnum fundum í nóvember þegar viðræðum var ekki lokið.
 
Margir bændur hafa barist hart gegn samningunum alveg fram á þennan dag, þrátt fyrir að þeir hafi verið samþykktir með afgerandi meirihluta í atkvæðagreiðslu í mars sl. Það er auðvitað frjálst að gera það, en mikið hefði ég viljað sjá þann sama kraft í baráttu fyrir hærra afurðaverði. Það er barátta sem á og þarf að skipta meira máli en deilur um skiptingu ríkisstuðnings. 
Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...