Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Í Hundadal. Njóladalur vinstra megin og Eyðisdalur hægra megin við Tungufell. Þjóðlendukrafa hefst „þar sem Njóladalsá og Eyðisdalsá koma saman“ og nær allt suður að vatnaskilum við Mýrasýslu.
Í Hundadal. Njóladalur vinstra megin og Eyðisdalur hægra megin við Tungufell. Þjóðlendukrafa hefst „þar sem Njóladalsá og Eyðisdalsá koma saman“ og nær allt suður að vatnaskilum við Mýrasýslu.
Mynd / Björn Þorsteinsson.
Skoðun 20. júní 2016

Kröfur um þjóðlendur í Dölum

Höfundur: Einar G. Pétursson
Hundadalur (s. 89). Svæði sunnan Hundadals ásamt Hundadalsheiði. Í Neðri-Hundadal var bænhús og jörðin var frekar stór, 40 hundruð. 
 
Um Hundadalsheiðina er Hæstaréttardómur nr. 183/1997, þar sem rjúpnaskytta var sýknuð af veiðiþjófnaði. „Auður nam ekki landið“ var baksíðufrétt í Morgunblaðinu 26. sept. 1997. Þar er sama meinlokan og nefnd er hér að framan við Snóksdal, að dalur merki aðeins dalbotninn. Hér segir (s. 90): „ ...heimildir um landnám greina aðeins frá því að Hundadalur hafi verið numinn í öndverðu, ... en ekki hversu langt suður eða til fjalla landnámið náði. Þannig geta hvorki Landnáma né aðrar ritaðar heimildir þess að landnám til suðurs hafi náð til Eyðisdals eða Njóladals.“ Síðar segir (s. 93): „Er þá byggt á því að landnám á þessum slóðum hafi a.m.k. ekki náð lengra en að rótum Hundadalsheiðar.“ Er hér bergmál af því er lögmaður ríkisins sagði um þjóðlendukröfu um Skjaldbreið (Hrd. 67/2006)? Fyrir héraðsdómi Suðurlands 13. okt. 2005 var eftirfarandi rökstuðningur um það mál tilgreindur af hálfu lögmanns ríkisins: 
 
„Það liggi ljóst fyrir, að réttarþróun allt að núverandi stöðu mála sé á þá lund, að enginn hafi getað eignast grunnrétt að hálendissvæðum utan landnáma. Við athugun á því hvað felist í hugtökunum „almenningur“ og „afréttur“ séum við Íslendingar í þeirri einstæðu aðstöðu, að hafa skjallegar frásagnir um landnám Íslands, en þær frásagnir hafi verið taldar áreiðanlegar af sagnfræðingum. Samkvæmt þessum heimildum sé greint frá yfir 400 landnámum og sé hvergi getið um þau, nema þar sem um sé að ræða eignarlönd sem síðar hafi verið byggð.“
 
Þetta er mjög svo sérlegur texti. Enginn sagnfræðingur eða bókmenntafræðingur telur Landnámu „skjallega“ og „áreiðanlega“ heimild. Í tilvitnuðum orðum er enginn varnagli sleginn, og er af þeim að ráða að Landnáma hafi verið löggilt „fasteignamatsbók“ og samtímaheimild um landnám. Þessi rökstuðningur lögmanns ríkisins er hreinn skáldskapur og gjörsamlega óforsvaranlegt af hálfu ríkisins að láta hann sjást. Þó er svo að sjá, að um Hundadalsheiðina sé svipaður skilningur við hafður og lögmaður ríkisins hafði í fyrrgreindu máli, sé svæðisins ekki getið í Landnámu þá er það ekki undir beinum eignarrétti. – Hvenær var farið að láta Landnámu vera grundvallarheimild um eignarrétt á landi? – Hugmyndin um að land hafi aðeins verið numið að „rótum heiða“ er í algjörri mótsögn við allt sem er vitað um ástand landsins í upphafi byggðar, land viði vaxið, og því best að búa við efri skógarmörkin. Þess vegna var byggt lengra inn til landsins í upphafi. 
 
Lögbókin Jónsbók tók gildi 1281 þar stendur (útg. 1904, s. 125): „Eigi er skylt að ganga á merki þar er fjöll þau eru, er vatnföll deilast millum heraða, ok eigi er skylt að ganga úr búfjárgangi á fjöll upp, kveða skal þar á merki.“ Samhljóða texti er í báðum handritum þjóðveldislaganna, Grágásar. Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en vatnaskil skulu ráða. Ekki var talið skipta miklu máli hvar merki á fjöllum uppi eru nákvæmlega. Hvergi eru í fornum heimildum finnanleg dæmi um að einhverjir landspartar hafi verið skildir eftir ónumdir og verið einskis manns land. Ofangreind ákvæði Jónsbókar eru í fyllsta samræmi við hugmyndir manna um merki jarða á seinni öldum. Þessi lagaákvæði eru ekki nefnd í Kröfum, heldur vitnað óljóst í Landnámu. Síðast og ekki síst er hugmyndin um að land hafi ekki verið numið til fjalla gagnstæð heilbrigðri skynsemi; fénaður leitar til fjalla og því ómögulegt, að land sem fénaður sótti í hafi ekki verið undir beinum eignarrétti og eign viðkomandi jarðar. 
 
Jörfi (s. 98) 
 
Jörfaafréttur var eign hálfkirkjunnar á Jörfa. Svæðið er dæmi um að hálfkirkjur áttu land fjarri heimajörðinni. Upp úr 1520 (Íslenzkt fornbréfasafn. IX. s. 193) er getið um að kirkjan á Jörfa eigi hálfan Sléttadal og allan Haukadal. Um afréttarlandið sagði í Jarðabók Árna og Páls (VI. s. 50) „skiftast fjallatollar milli eigenda eftir proportion.“ Hvernig er hægt að innheimta tolla af landi sem enginn á? Rétt er að nefna að í lýsingu Skarðs í Haukadal í sömu Jarðabók (s. 54) segir: „Í afrjettinni þar hjá, í þeim parti, sem Jörfa hálfkirkju tilheyrir, er sagt verið skuli hafa í gamaldaga bær, kallaður Þorleifsstader.“ Þetta segir að landið hefur verið numið fullum eignarrétti samkvæmt „kenningum“ óbyggðanefndar. 
 
Segja má að mikið af kröfum um kirknaeignir hafi verið að geðþótta, en loks verður hér rætt um þjóðlendukröfur í lönd, sem ekki voru kirknaeignir. 
 
Skarð í Haukadal (s. 102)
 
Fjalllendi Skarðs. – Fyrst er að geta að í kaflanum um Skarð í Kröfum s. 59 og 104 eru klausur úr jarðamati 1849–50, sem í raun er vitlaust lesið hrafl á lýsingu Skarðs á Skarðsströnd úr sama jarðamati. Rugl þetta er torskilið þar sem í Kröfum er getið um kirkju á Skarði, en á Skarði í Haukadal var aldrei kirkja. Víða annars staðar er prófarkalestur og frágangur á Körfum aldeilis afleitur. –Um Skarð í Haukadal stendur í þessu jarðamati: „Svonefnd Skarðsafrétt tilheyrir jörðunni hálf.“ Hinn helmingurinn tilheyrir Stóra-Vatnshorni og Jörfa. Kröfur um að þeir hlutar verði gerðir að þjóðlendum byggjast m. a. á því að svæðin séu fráskilin öðru landi þeirra jarða. Um Skarð á slíkt ekki við. – Í Kröfum stendur (s. 103): „ …er ekki fallist á það af hálfu íslenska ríkisins að allt land jarðarinnar samkvæmt landamerkjabréfi hennar, sé undirorpið beinum eignarrétti. … merkjalýsing styðjist ekki við eldri heimildir ... Þá er á það bent að bréfið er ekki áritað um samþykki aðliggjandi svæðis til austurs, þ.e. Mela í Strandasýslu.“ Sérkennilegt er að búta land sömu jarðar niður í þjóðlendu og eignarland. Lög um landamerki voru til að fastsetja þau og þess vegna oft ekki að vænta að til séu eldri heimildir. Annars gætu víða leynst heimildir þar sem söfn eru ekki nægilega könnuð, dæmi um það er Fremri-Vífilsdalur hér á eftir. Landamerki milli Skarðs í Haukadals og Mela eru á vatnaskilum og þar var ekki lagaskylda að ganga á merki. Síðar stendur: „ …auk þess sem segir af Haukadalsafréttar fjárrétt fyrir sunnan Haukadalsá móts við bæinn Skarð, er gefur til kynna að þar hafi ekki verið eignarland.“ Ekki stenst að fjárréttir í landi einhverrar jarðar bendi til að þar sé ekki eignarland og eigi að heita þjóðlenda. Nú er við að bæta að í Jarðabók Árna og Páls stendur (VI. s. 53): „Tolla hálfa tekur ábúandi á móti hinum, sem afrjettinn eiga. Ekkert hefur landsdrottinn þar af“. Hvernig er hægt að tala um tolla af landi, sem ekki er undir beinum eignarrétti? 
 
Krafan um að fjalllendi Skarðs í Haukadals verði þjóðlenda, en ekki annað land jarðarinnar, er greinilega enn ein geðþóttaákvörðunin. Ef ætti að skipta landi jarða með slíkum hætti og hér er krafist, yrði með sama rétti að skipta löndum ansi margra jarða. 
 
Fremri-Vífilsdalur (s. 86)
 
Fjalllendi Fremri-Vífilsdals. Þar á við það sama og sagði við Jörfa og Skarð, að í Jarðabók Árna og Páls (VI. 20) sagði að goldnir hafi verið fjallatollar, þ. e. svæðið var eign Vífilsdals. Sagt er að „merkjalýsing landamerkjabréfsins ... styðst ekki við eldri heimildir“. Um þetta sjá hér að framan um Skarð í Haukadal. Á s. 88 í Kröfum stendur: „náði landnám aðeins til Vífilsdals, og að landamerkjabréf eitt og sér, þótt þinglýst sé, teljist ekki nægjanlegt til staðfestingar á beinum eignarrétti.“ Nú er það svo að „eldri heimildir“ eru til um landamerki Vífilsdalanna í samningi frá 1827 og varðveittur er í jarðaskjölum Dalasýslu í Þjóðskjalasafni. Sanngjarnt er að gera kröfu um að þau skjöl hefðu verið skoðuð í undirbúningi kröfugerðar. Um merkingu orðsins dalur er vitnað til þess sem áður sagði um Snóksdal og Hundadal. Gersamlega ótækt er, að þinglýst landamerkjabréf frá 19. öld skuli talið lakari eignarheimild en Landnáma. Léleg heimildarýni er að svona lagað skuli sjást í Kröfum. Fyrst gerð er krafa um Vífilsdal er torskilið hvers vegna ekki eru gerðar kröfur um þjóðlendur í fleiri dölum, en þetta segir að kröfur eru eftir geðþótta. 
 
Villingadalur (s. 97) 
 
Landsvæði sunnan og vestan Villinga­dalsdraga. Þetta er minnsta svæðið, sem krafa er gerð um að verði gert að þjóðlendu. Hér sýnist í hafa verið ónákvæmni í lýsingu landamerkjabréfs. Þar sem svo hagar til eins og þarna eru vatnaskil sögð ráða, en menn eru oft eðlilega ekki vissir um hvar þau nákvæmlega eru. 
 
 
NIÐURSTAÐA UM FJALLLENDI KIRKNA OG KRÖFUR UM ÞJÓÐLENDUR
 
Nú vaknar spurningin: Hvað ætlar ríkið að gera með þessi svæði og til hvers á að nota þau? Þetta eru lítil svæði og sundurslitin og þess vegna er eðlilegt að spyrja, svarar þetta kostnaði og á hvaða máta er þetta arðbært? 
 
Hvernig á að kosta fjallskil? Athygli hlýtur að vekja, að á yfirlitskorti yfir þjóðlendur á Íslandi eru þær margir smáblettir og fjallatoppar á Skaga, Tröllaskaga og á fjallgarðinum austan Eyjafjarðar. Þetta hljóta að vera mjög svo arðbærir og mikilvægir blettir, fyrst ríkið leggur í mikinn kostnað við að afla þeirra.
Það vekur athygli að lögð er mikil áhersla á að nauðsynlegt sé að heimildir séu í Landnámu um að land hafi verið numið í öndverðu. Hvaðan er sú hugmynd komin? Ný hugmynd er einnig tilbúningurinn „afnotanám“ og í framhaldi af því „afréttareign“. Engum datt í hug að afréttir væru undir annars konar eignarrétti en önnur lönd, fyrr en nýyrðið „afréttareign“ var búið til. Geðþóttaákvörðun hlýtur að ráða þegar sagt er um Hrafnabjörg, að þar sé „lýsing á svæði sem annars vegar er undirorpið beinum eignarrétti, og hins vegar óbeinum eignarrétti“. Sama er sagt um Snóksdal, Hundadal, Skarð í Haukadal og Fremri-Vífilsdal. Auðvelt væri og að finna fleiri jarðir þar sem svipuð landnýting var. „Utan eignarlanda“ er sagt um land jarðar sem fráskilið er öðru landi hennar. Torskilið er hvers vegna réttur til þess lands er minni en annars lands í eigu sömu jarðar. Hér má bæta við að Björn Lárusson sagði (The old Icelandic land registers. 30), að jörð væri ein framleiðslueining. Jarðir eins og t. d. Staðarfell og Snóksdalur voru ein framleiðslueining, þótt land þeirra væri tvískipt.
 
Í Kröfum er ljóslega mjög léleg sagnfræði, kemur það m. a. fram af notkun Landnámu, hve land var numið hátt; einnig það sem segir t. d. um Flekkudal, Svínadal í eigu Hvols og selland Sauðafells. Eins og áður sagði byrjuðu þjóðlendumálin án rannsókna og í framtíðinni verður sögulegur grundvöllur þjóðlendumálanna vel rannsakaður. Vart verða þá dómar um vinnubrögðin mildari en hér.
 
Selstaða var vanalegast í heimalandi og því rangt að tala um annars konar eignarrétt á landi þar sem sel var, sbr. það sem sagði um selland Sauðafells og Botn við Svínbjúg. Jörðin Seljaland var byggð úr landi Hrafnabjarga á 17. öld, mætti ekki segja að krefjast ætti að sú jörð yrði gerð að þjóðlendu? Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls (Birna Lárusdóttir. Mannvist. Rv. 2011. s. 240) voru í upphafi 18. aldar selstöður á „rúmlega helmingi bæja í Dalasýslu“. Allmörg dæmi eru á Íslandi um að sel hafi orðið sjálfstæðar jarðir; ætti þá ekki að gera kröfu um, að þær jarðir allar yrðu gerðar að þjóðlendum? Þarf að búa til orðið „sellandseign“, eða eitthvað álíka?
 
Það er mjög skrýtið viðhorf í Kröfum að ekki skuli vatnaskil ráða merkjum. Annars held ég engum hafi dottið í hug að tala um að land hafi aðeins verið numið upp í miðjar hlíðar fyrr en Hæstiréttur þurfti að fara að sýkna rjúpnaskyttur eða e.t.v. réttara sagt rjúpnaskyttu. Við slíkar aðstæður hljóta landamerki eins og á Hundadalsheiðinni að verða sett að geðþótta. Margar jarðir þarf að skoða til að úrskurða, sumt af landi þeirra er undir beinum eignarrétti en sumt ekki. 
 
Niðurstaðan er því tvímælalaust sú, að best yrði fyrir ríkið að draga Kröfur Fjármála- og efnahagsráðherra … á svæði 9A Dalasýslu til baka, því að kröfurnar byggjast að verulegu leyti á nýyrðum sem hvorki eiga sér neina lagalega né sögulega stoð í heimildum. Með öðrum orðum staðlausir stafir. Auk þess eru kröfur gerðar að geðþótta, mikil ósamkvæmni og augljós hlutdrægni. Í Morgunblaðinu 16. jan. 2016 var greinin: „Lítið hagræði að fjársvelta óbyggðanefnd.“ Þar fylgdi kort af þeim svæðum sem eftir er að taka til meðferðar, einkum Vestfirðir og Austfirðir. Augljóst er að svæðin sem ríkið krefðist að yrðu þar að þjóðlendu hljóta koma að verða enn þá minni en í Dölum. Myndi slíkt borga sig og væri ekki affarasælast að segja stopp? 
 
EFTIRSKRIFT
UM EIGENDUR AFRÉTTA
 
Í Grágás, lögum þjóðveldisins, í ákvæðum í landabrigðisþáttar um að telja fé í afrétt, er talað um eigendur afrétta sem landeigendur (Grágás Ib. = Grágás. Kbh. 1852. 114. og Grágás II. = Grágás. Kbh. 1879. 486–7.) Sjá einnig Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Rv. 1992. 335–337 Gunnar F. Guðmundsson rekur ákvæði um eigendur afrétta í bók sinni (Eignarhald á afréttum og almenningum. IV. kafla. Lögafréttir. 39-46.) Þetta er nokkru eldra en nýyrðin afnotanám og afréttareign. 
 
Dr. Einar G. Pétursson

4 myndir:

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...