Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hnúðmyndanir í blómum burnirótar.
Hnúðmyndanir í blómum burnirótar.
Mynd / Kristján Friðbertsson
Lesendarýni 14. september 2023

Brókarvatn og borusveppir

Höfundur: Kristján Friðbertsson

Eitthvað var það. Jafnvel eitthvað áhugavert. En um leið og ég settist niður til að skrifa gleymdi ég því auðvitað samstundis.

Þið sýnið mér vonandi smá þolinmæði meðan ég reyni að rifja þetta upp. Smá biðlund í Billund, ef þið eruð að lesa þetta þar.

Bensín: rokgjarnara en Stórhöfði?

Hvað gæti ég hafa lesið nýlega? Jú, gluggaði loks í hina frægu bók Kama Sutra um daginn. Aldeilis hvað ég brann fyrir efninu, nánast frá fyrstu málsgrein. Þetta var reyndar á sérlega sólríkum degi í Portúgal, svo kannski var það bara þess vegna sem ég brann. Gleymdi mér við lesturinn og sólvörnin mætti því afgangi. Engu að síður alveg funheitt efni. Líklega engin tilviljun að bálfarir og bólfarir tengist oft, svona séð yfir aldirnar. Oftar þó í öfugri stafrófsröð held ég.

Hvað annað var ég að gera nýlega? Fyrir skömmu notaði ég vaskaföt til að vaska föt. Föt sem við setjum í fatahengi, líkt og samlíkingar í samhengi. En það hafði ég ekki gert lengi, þó rétt samhengi sé auðvitað lykilatriði.

Keyrði líka framhjá Brókarvatni á Vesturlandi. Það man ég vel, enda leiddi það huga minn beint í þverfaglegar hugsanir. Sjálfsagt mætti nýta brókarvatn til að slökkva áðurnefnd bál, sé fyrir því vissa að manneskjan sem um ræðir verði ekki við það alveg bálreið.

Ekkert af þessu ætlaði ég þó að miðla til ykkar, en nú man ég loksins hvað það var.

Smásjármynd af Aceria rhodiolae.

Búsetumál

Nýlega komst ég að því að íbúafjöldi við mína reykvísku götu er margfalt meiri en ég hélt. Stór hluti þeirra reyndist ekki einu sinni skráður í Þjóðskrá. Heilu hóparnir virðast geta búið hér án þess að mikið beri á og komist algerlega hjá því að vera til í opinberum gögnum. Þetta kom mér á óvart.

Satt að segja hef ég enga hugmynd hvaðan þau komu né hve lengi þau eru búin að vera hér, en skv. mínum heimildum er þetta víst nokkuð algengt. Mikilvægt er að taka fram að sjálfsagt eru þau ekki viðriðin neitt ólöglegt eða gruggugt.

Þegar maður kemst að einhverju svona grunar mann þó auðvitað ýmislegt. Hvað með sameiginlegu sjóðina? Fyrst þau eru ekki til í opinberum gögnum, borga þau væntanlega enga skatta né gjöld til ríkis og sveitarfélaga, eða hvað?

Sjálfsagt var þetta lengi augljóst þeim sem vissu af, en ég hafði ekki tekið eftir neinu fyrr en mér var bent á þetta. Kona sem býr á Akureyri hafði vitneskju um málið og mér til lukku var hún svo almennileg að deila þessu með mér. Svo kom bruninn.

Bruni eða íkveikja?

Hundruð íbúa sáust inni í bruna! Sem betur fer var ekki um íkveikju að ræða. Það skýrðist fljótt þegar ljóst varð að þessi bruni var víst innsláttarvilla. Burnirót átti þarna að standa. Burnirót (Rhodiola/Sedum rosea) kannist þið örugglega flest við. Hún vex víða um land og er bæði falleg og gagnleg.

Oft búa hins vegar á henni heilu hóparnir af agnarsmáum langmítlum af tegundinni Aceria rhodiolae. Stundum kallaðir hnúðmaurar. Þótt orðið „agnarsmáir“ beri með sér að þeir séu svipaðir að stærð og Agnar, sjást þessir einungis með smásjá. Nærast á plöntusafanum og gera okkur ekkert mein. Eru meira að segja sérhæfðir á burnirót og hafa engan áhuga á öðrum tegundum. Enn eitt dæmið um „sérfræðinga að sunnan“?

Fyrir tæpum sextíu árum sungu bítlarnir „Ticket to Ride“, en til lengri ferðalaga húkka mítlarnir miðalaust far t.d. með flugum. Flugurnar leita í blómin og því setjast þeir oft að þar. Þeir láta svo plöntuna sjálfa um að byggja fyrir sig híbýli, með því að sprauta efni í plöntuvefinn sem orsakar hnúðmyndun. Plönturnar bíða sjaldnast nokkurn skaða af veru mítlanna. Þegar hnúðar myndast á sjálfum blómunum getur það þó dregið úr sjálfsáningarhæfni plöntunnar. Mennskir neytendur burnirótar mættu hafa í huga að magn annars af tveim virkum efnum í plöntunni (salidroside) getur helmingast, séu mítlarnir til staðar.

Ekki nógu frægir

Burnirótin er ekki ein um slíka ábúendur. Svipaða mítla má t.d. finna á grasvíði/smjörlaufi (Salix herbacea) og sjást ummerkin þar líka einna helst í kringum blóm eða nærliggjandi blöð. Hafið endilega augun opin í náttúrunni. Flestir taka eflaust ekki eftir neinu óvanalegu, en einhverjir hafa séð mun og velt þessu fyrir sér. Af því mítlarnir eru lítt þekktir meðal almennings hérlendis og sjást ekki utan smásjár, er ekki skrýtið að fólki detti í hug sveppasýking.

Það er einmitt þess vegna sem sýni rata til konunnar á Akureyri. Sveppafræðingsins Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hún sá fljótt að engin ummerki um sveppi voru til staðar. Í þröngu samhengi fannst ekkert, en af því hún hefur augun og hugann opin, sá hún hins vegar umrædda mítla.

Rétt samhengi

Hafi einhver gefist upp á miðri leið, heldur viðkomandi kannski að eitthvað vandræðafólk hafi komið sér fyrir við götuna mína. Þið sem lásuð áfram fenguð heildarmyndina. Alla söguna um burnirótina og íbúa hennar í réttu samhengi. Sveppafræðingar eru ekki eina fólkið sem þurfa að skoða hlutina nánar til að komast að hinu sanna. Við eigum jú til að lesa bara fyrirsagnir og jafnvel fyllast „réttlátri reiði“ án þess að kynna okkur málið betur. Í réttu samhengi. Fréttum kannski ekki af hinu rétta fyrr en miklu seinna. Jafnvel eftir að hafa sagt eða gert eitthvað sem við hefðum betur sleppt.

Borusveppir og rassblöðkur

Ekki er hægt að ljúka grein um mítlana án þess að minnast á rassblöðkurnar. Þeir eru með fjóra fætur á framenda og tvær blöðkur á afturenda, takk fyrir. Vafalítið notaðar til að losa sig sem hraðast við óvelkomna lykt.

En hvað var annars með þessa borusveppi? Hvað er borusveppur? Borusveppir brjóta niður dauðan við og mynda sumir seig, fjölær aldin með áberandi lykt, sem mynda árlega nýtt borulag. Við greiningu getur útlitið, ekki síður en borustærðin, hjálpað til. Greiningar og annar sveppafróðleikur er nokkuð sem áðurnefnd Guðríður Gyða er einmitt óþreytandi í að fræða landann um og á hún hinar mestu þakkir skildar fyrir. Fyrir alla sem vilja fræðast meira er því rétt að nefna í lokin Facebook­hópinn hennar, en hann heitir: Funga Íslands – sveppir ætir eður ei.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...