Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Vestmannaeyjar safnar sandi í Landeyjatanga í tilhneigingu náttúrunnar til að tengja saman Vestmannaeyjar og fastalandið með granda.
Hér verður fjallað um hvernig strandstraumar vinna í sömu veru.
Hvort tveggja ferlið, það sem stafar af öldusveigjunni og strandstraumunum, veldur því að Landeyjatangi, þar sem Landeyjahöfn er, vex til hafs, setsöfnun er mest einmitt þar sem höfnin er. Setið sem er á ferðinni við Landeyjatanga er ekki á leiðinni fram hjá honum, heldur að honum úr báðum áttum. Þessi setsöfnun hefur á síðastliðnum 100 árum teygt Landeyjatanga fram um tæplega hálfan kílómetra, um 5 metra á ári að jafnaði. Það sést glögglega af restunum af dönsku stálskútunni Dragör sem strandaði á Bakkafjöru, eða nánar tiltekið á Landeyjatanga, árið 1920.
Þau hugtök strandjarðfræðinnar sem mestu máli skipta fyrir niðurstöðuna, auk þeirra sem rædd voru í fyrri greininni, eru útrif, landáll, áhlaðandi og strandstraumar, hlið og hliðstraumar. Ég ætla að byrja á því að skýra þessi hugtök hvert fyrir sig og útlista hvað þau gera.
Útrif eru grynningar úti fyrir strönd, gerðar úr seti, sandi og möl, þar sem sjór er grynnri en bæði utan og innan rifsins. Úthafsaldan brotnar því á rifinu. Stundum eru þessi útrif fleiri en eitt.
Landáll er áll sem teygir sig meðfram ströndinni innan við útrif. Í honum er dýpra en á útrifinu og sjór flæðir þar eftir að hafa brotnað á rifinu og er því hægari og orkuminni.
Áhlaðandi er það kallað þegar álandsvindur og úthafsalda stefna upp á ströndina og stundum lágur loftþrýstingur einnig og valda því að þar stendur sjór hærra en úti fyrir. Hann er því algjörlega háður veðurfari og sjólagi.
Strandstraumar er samheiti yfir þá strauma sem verða uppi við ströndina, í landálnum. Í þessu tilviki skipta þeir landálsstraumar mestu máli sem eru afleiðing af áhlaðanda. Þeir straumar eiga rót sína í veðráttunni. Einnig eru þar virkir sjávarfallastraumar sem eiga sér allt aðrar ástæður, togkrafta tungls og sólar og haga sér ólíkt.
Hlið og hliðstraumar. Hlið kallast sund sem myndast í útrifið og haldast opin fyrir áhrif strandstraumanna. Þar brotnar aldan ekki eða lítt og því er staðsetning þeirra vel þekkjanleg á óbrotinni öldu. Í hliðunum eru hliðstraumar þar sem sjór streymir til hafs út úr landálnum. Á fyrri öldum sáu menn setstrendur sem tvenns konar náttúrufyrirbæri, hlið og öræfi, setströndina á milli hliða.
Þegar áhlaðandi er mikill endar það með því að sjór fer að standa umtalsvert hærra í landálnum en úti fyrir útrifinu. Sjórinn á ekki greiða leið til hafs aftur á móti úthafsöldu og stormi sem stendur upp á ströndina. Sjórinn í landálnum leggst þá í straum meðfram ströndinni, svokallaðan landálsstraum. Svo fer að lokum að landálsstraumurinn brýst út úr þrengslunum í landálnum og myndar straum þvert í gegnum útrifið, myndar þar hlið og í því er sterkur hliðstraumur sem heldur hliðinu opnu. Þannig streymir umframsjórinn út úr landálnum. Hlið eru yfirleitt fremur stöðug og hreyfast lítt úr stað nema til komi meiri háttar breytingar á umhverfinu. Hlið er úti fyrir Landeyjahöfn og hefur verið lengi þekkt. Með tilkomu hafnarinnar og þeirra breytinga sem hún veldur á ströndinni og þeim umsvifum sem við höfnina eru tengd í formi dælinga og annarra framkvæmda má eiga von á því að stöðugleika hliðsins við Landeyjatanga sé ógnað og það muni flakka eitthvað til, en þó líklega ekki yfirgefa tangann alveg. Þá vex óróleiki sjávar við höfnina og siglingar verða erfiðari. Hin lága alda í hliðinu er ein aðalástæðan fyrir staðsetningu hafnarinnar.
Strandstraumar af völdum áhlaðandans í landálnum vestan við Landeyjahöfn eru að vestan og austur í áttina að höfninni. Austan hafnarinnar eru þeir í andstæða átt, til vesturs meðfram ströndinni. Þessar tvær strandstraumsálmur koma saman úti fyrir syðsta odda Landeyjatanga og Landeyjahöfn. Þar sveigja þeir til hafs og falla út um hliðið og hleypa þannig áhlaðandasjónum út aftur.
Með þessum straumi í landálnum meðfram ströndinni til austurs og vesturs í áttina að höfninni berst sandur og þegar þessi sandburður kemur að fremsta odda Landeyjatanga og hliðinu og straumurinn fellur út um hliðið sest hluti hans til í tanganum og byggir hann þannig út til sjávar.
Afleiðingin af því sem gerist í landálnum er sú sama og sú sem stafar af öldusveigjunni. Setsöfnun við Landeyjatanga og viðleitnin til myndunar á granda sem tengir Vestmannaeyjar og fastalandið er afleiðing af samspili öldusveigjunnar og landálstraumanna og þeim setflutningum sem því fylgja.
Hvað sem gert er í verklegum framkvæmdum við Landeyjatanga og í Landeyjahöfn mun ekki breyta þessu. Náttúran er að byggja granda sem smátt og smátt nær lengra og lengra til hafs. Síðustu 100 árin hefur hraði þessarar grandamyndunar verið um 5 metrar á ári að jafnaði. Þessi grandamyndun mun að endingu loka höfninni og skilja hana eftir sem mannvirki einangrað frá sjó, líkt og hún hefur gert við flakið af Dragör.