Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni.

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og samkeppnismál í skoðanadálk visir.is og uppskar viðbrögð forstjóra Samkeppnis- eftirlitsins í tvígang.

Erna Bjarnadóttir.

Mikið vatn hefur síðan runnið til sjávar en margt stendur þó enn óhaggað af því sem okkur fór á milli.Meðal þess er að þrjátíu ár eru liðin frá því EES-samningurinn öðlaðist gildi - var þeim áfanga fagnað í upphafi þessa árs. Þótt samningurinn kalli á innleiðingu regluverks frá Brussel í stríðum straumi breytir það engu um samninginn sjálfan og er gildissvið hans nær óbreytt frá gildistöku hans 1993.

Hvers vegna er þetta rifjað upp hér? Jú, í fyrrnefndum orðaskiptum greinarhöfundar og forstjóra Samkeppniseftirlitsins var tekist á um hvort og hvernig mætti innleiða undanþágur fyrir íslenskar kjötafurðastöðvar frá samkeppnislögum hér á landi. Þar var mest horft til þess að slíkar undanþágur væru þegar til staðar í Evrópusambandinu sjálfu og reyndar var einnig vísað til Noregs í þessu sambandi.

EES-samningurinn er hin augljósa réttarheimild

En þarna leitaði greinarhöfundur heldur betur langt yfir skammt, ef svo má segja, því vitaskuld eru það ekki undanþágur ESB frá eigin regluverki sem setja Íslandi takmörk í þessu efni heldur er nærtækara að leita beint í EES-samninginn sem setur í raun báðum aðilum lagaramma að þessu leyti. Undanþágur ESB verða að rúmast innan samningsins rétt eins og undanþágur Noregs og Íslands. Að EES-samningnum sjálfum frágengnum eru dómar EFTA- dómstólsins síðan réttarheimildir sem leita má fanga í.

Þetta var rannsakað allítarlega af atvinnuveganefnd við meðferð frumvarps til laga um breytingu á búvörulögum nr. 99/1993 (framleiðendafélög). Í áliti nefndarinnar með breytingatillögum hennar segir m.a.: „EES- samningurinn tekur þannig ekki til lifandi dýra og framleiðslu kjöts af lifandi dýrum nema annað sé sérstaklega tekið fram. Ákvæði samningsins ná því að litlu leyti til framleiðslukerfis landbúnaðar hér á landi. Svigrúm til að móta stefnu í málaflokknum er því umtalsvert.“

Óþarft er að rekja þær deilur sem um þetta sköpuðust og spruttu upp úr þeim nýtt þríeyki ásamt ýmsum furðuyfirlýsingum og bréfasendingu sem vægast sagt orkaði tvímælis, þ.e. þegar matvælaráðuneytið, undir stjórn fyrrverandi matvælaráðherra, setti sig í þá stöðu að segja löggjafanum fyrir verkum.

Álit fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins

Í fréttum hefur komið fram að Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) hafi eftir samþykkt hinna nýju laga frá Alþingi leitað til dr. iur. dr. rer. pol. h.c. Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, um að semja álit þar sem greint er frá meginreglum EES-samningsins um búvöruframleiðslu og -vinnslu og að hvaða marki EES-samningurinn tekur til þessarar starfsemi.

Í stuttu máli tekur álit dr. Baudenbacher í einu og öllu undir fyrrnefnda niðurstöðu atvinnuveganefndar og segir hann m.a. í niðurstöðukafla sínum: „Það er munur á innri markaði ESB og útvíkkun hans til EES. Sameiginleg stefna ESB er í grundvallaratriðum undanskilin EES-lögum. EES/EFTA-ríkin hafa haldið fullveldi sínu á þessum sviðum. Ein undantekningin varðar hina sameiginlegu landbúnaðarstefnu.“ Þetta sé einnig samhljóða því sem finna má í umfjöllun annarra fræðimanna.

Lokaorð álits dr. Baudenbacher eru síðan eftirfarandi:

„Ísland hefur því rétt til að marka stefnu sína í framleiðslu og vinnslu landbúnaðarvara óháð ákvæðum EES-samningsins, þar með talið að því er varðar undanþágur frá samkeppnisreglum. Þetta hefur í för með sér að Ísland er ekki bundið af undanþágum frá samkeppnisreglum sem nú gilda í Evrópusambandinu við mótun eigin undantekningar frá samkeppnisreglum um landbúnaðarvörur sem falla utan 3. mgr. 8. gr. EES.“

Þessi lokaorð þessa fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins eru í fullu samræmi við tilvitnuð orð í nefndaráliti atvinnuveganefndar og þau sjónarmið sem fram komu í greinum mínum og svarað var af hálfu forstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Afstaða Samkeppniseftirlitsins

Í orðaskiptum mínum og forstjóra Samkeppniseftirlitsins snemma árs 2021 kom fram af minni hálfu að EES-samningurinn stæði því ekki í vegi að innleiddar væru undanþágur frá samkeppnislögum hér á landi. Þessu svaraði forstjóri Samkeppniseftirlitsins svo: „Samkeppniseftirlitið telur vel koma til greina að innleiða í íslenskan rétt undanþágur frá samkeppnislögum áþekkar þeim sem gilda í Noregi og ESB.“ Forstjórinn hefur síðan í skjóli embættis síns heldur streist við að standa við þessi orð sín.

Nú þegar fyrrverandi forseti EFTA- dómstólsins hefur kveðið skýrt úr með að; „Ísland er ekki bundið af undanþágum frá samkeppnisreglum sem nú gilda í Evrópusambandinu við mótun eigin undantekningar frá samkeppnisreglum um land- búnaðarvörur“, má ljóst vera að eitthvað hefur farið verulega úrskeiðis af hálfu forstjórans og þeirri stofnun sem hann veitir forstöðu. Í þessu sambandi má spyrja hvort forstjórinn hafi ekki verið kominn langt út fyrir hlutverk sitt sem forstjóri eftirlits stjórnvalds samkeppnismála þegar hann lagðist gegn breytingum sem lög nr. 40/2024 (framleiðendafélög) gerðu á búvörulögum nr. 99/1993 með framlagningu rúmlega 50 blaðsíðna umsagnar og greinargerðar.

Í raun þarf að kanna hvort forstjórinn og Samkeppniseftirlitið hafi ekki verið komið inn á svið stjórnmála og löggjafarvaldsins með yfirlýsingum sínum sem enga stoð eiga í samkeppnislögum eða EES- samningnum.

Niðurlag

Handhöfn ríkisvalds, hvort heldur löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds, fylgir mikil ábyrgð. Það er skoðun greinarhöfundar – og hefur verið skoðun um allnokkurn tíma – að forstjóri Samkeppniseftirlitsins hafi gengið fast fram í málefnum landbúnaðarins. Álit dr. Carls Baudenbachers staðfestir, að mínu mati, að eitthvað vantar upp á greiningu Samkeppniseftirlitsins á sambandi EES-samningsins og landbúnaðar og svigrúmi íslenska ríkisins til að setja reglur í landbúnaðarstarfsemi almennt.

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...