Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Friðun og dugnaðarkvíði
Lesendarýni 31. ágúst 2023

Friðun og dugnaðarkvíði

Höfundur: Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur.

Flest áttum við okkur vel á því hvaða afleiðingar það hefur að friða land. Landsvæði, hagi eða tún sem er friðað gegn öllum ágangi eftir krefjandi tíma landnýtingar nær með tímanum vexti, sprettu og grósku.

Kristín Linda
Jónsdóttir.

Hafi álagið á landspilduna verið óhóflegt tekur tíma að ná fyrri landgæðum og styrk og auk friðunar getur verið þörf á utanaðkomandi hjálp, svo sem áburði og fræjum. Langflestir bændur haga sinni landnotkun þannig að þeir friða landið við og við, láta kýr, hross eða ær ekki ganga svo nærri landinu að sár myndist vegna álags og átroðnings, hvíla sem sagt spilduna reglulega og áður en skemmdir verða. En hvernig hugsum við um okkur sjálf?

Friðar þú sjálfan þig reglulega?

Getur verið að við, of mörg okkar, hugsum ekkert um að gefa okkur sjálfum frið, við og við, reglulega, heldur krefjumst þess af okkur sjálfum, og jafnvel fólkinu okkar, að áfram sé haldið út í rauðan dauðann? Það eru jú alltaf einhver verkefni sem bíða og svo bætist bara við listann! Já, það er alveg ljóst að það er nóg að gera, ekki spurning. Æðum við eins og hauslausar hænur sí og æ úr einu verki í annað, dag eftir dag, vikum og mánuðum saman? Krefjumst þess að vélin í okkur bara gangi og skili alltaf sínu án þess að taka markvisst og ákveðið hlé, hleðslustund, hvíldarstund, hirðum ekki um að leyfa vélinni að kólna reglulega og bæta á olíu? Horfðu í eigin barm, já, núna.

Sífelld streita er hættuleg!

Rannsóknir á heilsufari fólks, í sálfræði og taugavísindum, sýna að sífellt álag þar sem svonefnd drifkerfishormón, til að mynda kortisól, eru ríkjandi í okkur og drífa okkur áfram án hvíldar tímunum saman dag eftir dag er afar heilsuspillandi ástand. Það er sannarlega allt í góðu að taka á því, taka tarnir og njóta þess að koma miklu frá. En það er þetta sífellda álag sem er hættulegt. Afleiðingarnar geta verið margs konar, leiði, depurð, óyndi, gleðileysi, innri spenna, kvíði, ofuráhyggur, svefnvandi, orkuleysi og þrot. Líkamlegir kvillar svo sem vöðvabólgur og stoðkerfisvandi, meltingarkvillar, höfuðverkir og hjartsláttartruflanir svo dæmi séu tekin.

Þjáist þú af dugnaðarkvíða?

Ragnhildur Þórðardóttir, Ragga nagli, einkaþjálfari og heilsusálfræðingur kann að komast skemmtilega að orði og hún hittir naglann á höfuðið þegar hún lýsir þeirri viðvarandi streitu sem of margir upplifa í nútímanum sem dugnaðarkvíða. Kannast þú við að upplifa stöðugt vanlíðan yfir að gera ekki nóg, finnast eins og þú sért alltaf eftir á með allt? Vera stöðugt að hugsa um allt sem þarf að gera og finna fyrir eirðarleysi, pirringi og óánægju? Forðast samt og fresta verkefnum sem eru nauðsyn en þér finnast yfirþyrmandi enda gengur þú nær aldrei úthvíldur til verka? Ýta til hliðar aftur og aftur viðburðum og félagslífi og ganga á svefntímann þinn, vinnan gengur jú fyrir. Una þér ekki hvíldar eða ánægjustunda því að þá bítur sektarkenndin, þú gætir jú verið að gera eitthvað!

Hvaða stundir dagsins og vikunnar ætlar þú að hafa frið?

Eins og með landið okkar dýrmæta ert þú dýrmætur. Endilega láttu þessi orð verða að vendipunkti og settu þér núna, í dag, í þessari viku, reglu um friðun. Hvenær ætlar þú að hafa frið, hvíldarstundir, fastar stundir þar sem vinnan víkur fyrir hvíld, rósemd og notalegum uppbyggjandi samskiptum og iðju? Ég legg til að þú friðir ákveðna klukkutíma á dag, hvenær fer eðlilega eftir því hvernig þínu lífi og störfum er háttað. Eins er alveg heilsufarslegt og sálrænt lágmark að taka mest allan daginn frí frá vinnu einn dag í viku, lágmark, tveir dagar í viku er almennt viðmið. Það eru átta í mánuði en ekki fjórir, þar munar miklu. Ég segi mest allan daginn því að sjálf var ég kúabóndi án róbóts í 15 ár og þekki mjaltir. En það er sannarlega hægt að skella sér í sturtu eftir morgunmjaltir alltaf, annaðhvort laugardag eða sunnudag, ef ekki bæði, og vera í fríi fram að seinna málinu.

Friðun og fræ

Núna þegar sumri er tekið að halla og fram undan haustannir og vetrarverk er alveg kjörið að staldra aðeins við, með sjálfum sér og sínum. Leggja niður fyrir sig hvernig þú, og þínir, ætla að friða reglulega stundir í eigin dagatali núna næstu vikur og mánuði. Ef þitt eigið innra land er illa farið, af önnum, hvíldarleysi, álagi og átroðningi, hikaðu ekki við að leita þér utanaðkomandi hjálpar. Þú gætir þurft nokkur ný fræ og ögn af áburði til ná að spretta og blómstra á ný, það er þess virði. Munum svo að kirkjugarðar heimsins geyma ómissandi fólk, eins og segir í texta Magnúsar Eiríkssonar. Í dag er þinn dagur, þitt líf, þitt tækifæri.

Skylt efni: bændageð

Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...