Garður er granna sættir
Höfundur: Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar.
Um þessar mundir tekur Fjarðabyggð þátt í hvatningarátaki Náttúruverndarsamtaka Austurlands, NAUST, til fjarlægingar ónýtra girðinga, ásamt fleiri sveitarfélögum á Austurlandi. Tilgangur átaksins er fyrst og fremst að auka vitund fólks um þau lýti og hættur sem geta stafað af ónýtum girðingum í náttúrunni. En hver er ástæða þess að hér á landi eru svo víða gamlar ónýtar girðingar?
Til er gamalt spakmæli sem segir að garður sé granna sættir. Um aldir hefur það verið fært í lög að hver bóndi/landeigandi skyldi afmarka land sitt með skýrum hætti og t.d. má finna í Jónsbók (frá því 1281) kröfur þess efnis að bændur settu upp garða utan um ræktarland sitt. Einhver misbrestur var á þessu hjá bændum þess tíma og nokkrum öldum síðar, eða um 1776, var aftur kveðið á um það með Þúfnatilskipuninni að bændur ættu að girða af tún sín, hlaða um þau garða.
Talið er að um aldamótin 1900 hafi um helmingur íslenskra túna verið afmörkuð með hlöðnum görðum. Á þessum tíma voru vírgirðingar ekki komnar til sögunnar enda slíkur munaður nánast óþekktur hér á landi.
Breytt búskaparform
Á 20. öld átti sér stað mikil þróun búskapar og byggða hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Með tilkomu vélvæðingarinnar breyttist búskaparformið úr sjálfsþurftarbúskap yfir í framleiðslueiningar. Litlir túngarðar höfðu frá upphafi haft lítið vörslugildi fyrir búfénað heldur meira verið fyrir þær sakir að afmarka tún bóndans. Smalar höfðu því starfa af yfirsetu búfjár sem var til nytja á bæjum, ýmist í og við mjaltarkvíar, eða í úthögum allt árið um kring.
Fyrr á öldum tíðkaðist að beita skepnum úti að vetrum og var slíkt kallað vetrarbeit. Starf smala var að fara árla dags með búfénað á gjöful beitarsvæði og sitja yfir þeim (gæta þeirra) daglangt, eins og segir í söngtexta eftir Freystein Gunnarsson:
„Hann Tumi fer á fætur við fyrsta hanagal að sitja yfir ánum lengst inni í Fagradal“.
Með tilkomu girðinga varð þörf fyrir yfirsetu minni og á fyrri hluta 20. aldar lagðist af sá siður að smalar gættu búfjár.
Tilkoma gaddavírsins
Í 2. tbl. Búnaðarritsins árið 1900, fer Vilhjálmur Briem yfir kosti þess að nota gaddavírsgirðingar. Ári síðar ályktar stjórn Landbúnaðarfélagsins á aðalfundi sínum að mikilvægt væri að styrkja bændur til jarðræktar og samþykkti fundurinn að styrkja bændur til þess að nýta sér þá nýju tækni að girða af ræktarland með gaddavírsgirðingum. En eins og títt er með nýjungar var gaddavírsgirðingin af mörgum talin óæskileg, skaðræði sem slasað gæti búfénað. Þessi andstaða varði ekki lengi þegar í ljós kom notagildi girðinganna hvað varðar vörslugildi og að halda búfé utan ræktarlands. Það tók íslenska bændur einungis fimm ár að girða um 153 km lands með gaddavírsgirðingum. Árið 1903 voru Gaddavírslögin samþykkt á Alþingi.
Skylt að viðhalda girðingum
Í nýjustu lögum um girðingar nr. 135/2001, ásamt síðari breytingum og þar að lútandi reglugerðum, kemur fram hver beri að standa að viðhaldi og/eða fjarlægingu girðinga þegar jarðir falla úr ábúð eða þegar þær hafa ekki vörslugildi lengur. Í 11. gr. laganna segir:
„Skylt er að halda öllum girðingum svo vel við að búfé eða öðrum stafi ekki hætta af þeim“.
Jafnframt er bent á í 12. gr. sömu laga „að öllum umráðamönnum lands er skylt að hreinsa burtu af landi sínu ónothæfar girðingar og girðingarflækjur“.
Hreinsað á kostnað umráðamanns
Ef viðhald á girðingum og/eða hreinsun ónothæfra girðinga er vanrækt af umráðamanni lands kemur það í hlut sveitarstjórnar að framkvæma viðhaldið/hreinsunina á kostnað umráðamanns landsins. Það sama gildir um eyðijarðir.
Á síðustu árum hefur farið fram hreinsun gamalla girðinga í Fjarðabyggð, mest landamerkjagirðinga, sem hafa ekkert gildi lengur. Einnig er mikið af girðingum á eyðijörðum um allt sveitarfélagið. Girðingarnar eru að mestu lítil hólf girt af með gaddavír og/eða möskvagirðingu. Ýmist eru þetta girðingar á einkalandi eða á vegum hins opinbera.
Að sögn Ara Sigursteinssonar, bæjarverkstjóra Fjarðabyggðar á Eskifirði og Reyðarfirði, hefur borið á því að eigendur jarða leyfi ekki niðurtöku ónýtra girðinga og er það miður þar sem slíkar girðingar geta verið hættulegar búfé. Lögð hefur verið áhersla á að fjarlægja ónýtar girðingar í nærumhverfi þéttbýliskjarnanna fimm. Það eru bæjarverkstjórar Fjarðabyggðar sem hafa haft yfirumsjón með þessari vinnu.
Flestar ábendingar um ónýtar girðingar sem vert væri að fjarlægja, koma í gegnum stjórnsýsluna og oftast eftir ábendingum íbúa. Í búfjárbyggðinni utan við Eskifjörð á eyðijörðunum Símonartúni og Svínaskála var mikið magn lítilla beitarhólfa að mestu girt með gaddavír. Flestar af þessum girðingum hafa verið fjarlægðar enda voru þær ekki lengur gripheldar og því orðnar hættulegar skepnum.
Enn langt í land
Landsvæði Fjarðabyggðar er umfangsmikið og enn er langt í land að fjarlægja allar ónýtar girðingar. Mestur fjöldi þeirra girðinga sem vert væri að fjarlægja er úr alfaraleið og því erfitt að átta sig á umfangi þeirra, kortleggja hættur og komast að þeim. Allar þær girðingar sem eru í og við byggð og teljast hættulegar skepnum, hefur verið kappkostað að fjarlægja, en eins og máltakið segir „betur má ef duga skal“.
Vandaverk að hreinsa
Nálgun við að fjarlægja gamlar girðingar sem eru að hluta sokknar í sinu krefst handafls á viðkvæmum náttúrusvæðum okkar. Gamlar girðingar geta verið vandmeðfarnar þar sem þær eru oft bæði ryðgaðar og sundurslitnar. Okkur hefur reynst best að losa staura upp úr jörðinni þar sem því er við komið, leggja girðinguna á hliðina og rúlla henni upp. Á öðrum stöðum þarf að losa allt frá hvert öðru, t.d. leysa af girðingarlykkjur, losa staurana frá og klippa girðinguna niður í búta svo hægt sé að rífa þær upp úr þéttri sinunni. Höfum við m.a. notið liðsinnis sjálfboðaliða á vegum samtakanna Veraldavinir (World wide friends). Það er markmið okkar í Fjarðabyggð að þegar girðingarnar eru fjarlægðar verði sem minnst rask og því koma vinnuvélar né annar slíkur vélabúnaður sjaldnast að verkinu.
Óttinn við girðingarnar var ekki ástæðulaus
Ótti efasemdarmanna fyrir rúmri öld síðan, þegar girðingar voru fyrst teknar í notkun hér á landi, er orðin að staðreynd. Ónýtar og gamlar gaddavírsgirðingar, sem og aðrar síðari gerðir af girðingum, eru hættulegar skepnum.
Fjarðabyggð fagnar átaki Náttúruverndarsamtaka Austurlands og hyggst taka virkan þátt í því. Í vor var lögð áhersla á að fjarlægja allar þær girðingar sem eyðilögðust í óveðrinu mikla 28. desember 2015. Í haust verður litið til þess að fjarlægja girðingar á afskekktari stöðum í Fjarðabyggð.
Anna Berg Samúelsdóttir,
umhverfisstjóri Fjarðabyggðar.