Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt
Lesendarýni 16. febrúar 2024

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt

Höfundur: Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands.

Fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið 2016, kom ég að því verki ásamt öðrum að gera athugun á stuðningskerfum við mjólkurframleiðslu.

Ragnar Árnason.

Niðurstaða þeirrar athugunar var að greiðslumarkskerfið ásamt beingreiðslum væri þjóðhagslega skilvirk leið til að koma opinberum stuðningi til bænda og þeim hagfelld. [sjá nánar skýrslu Hagrannsókna sf. 2016. Stuðningskerfi við mjólkurframleiðslu: Áhrif og valkostir].

Tilefni þessara skrifa nú er að þann 25. janúar sl. gerði Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri Bændablaðsins, vissar hliðar á greiðslumarkskerfinu í kúabúskap að umtalsefni í ritstjórnargrein. Þessu framtaki ber að fagna. Greiðslumarkskerfið ásamt tilheyrandi beingreiðslum hefur um alllangt skeið verið þungamiðjan í opinberum stuðningi við mjólkurframleiðslu í landinu og afskaplega veigamikill þáttur í afkomu kúabænda. Því skiptir miklu máli að bændur geri sér sem skýrasta grein fyrir eiginleikum þess. Góð leið til þess arna eru rökstudd skoðanaskipti um meinta kosti þess og galla.

Greiðslumarkskerfið og hagkvæmni þess

Greiðslumarkskerfið í kúabúskap má rekja til búvörusamnings sem gerður var 1992 og fest í búvörulög árið 1993 (lög nr. 99/1993). Greiðslumark gefur rétt á greiðslum úr ríkissjóði, svonefndum beingreiðslum, fyrir mjólkurframleiðslu upp að greiðslumarkinu.

Í fyrrnefndri skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Hagrannsóknir sf. gerði árið 2016 er sýnt fram á að svo framarlega sem heildargreiðslumark sé ekki sett of hátt, séu beingreiðslur til bænda á grundvelli greiðslumarks skilvirk leið til að koma fjárstuðningi til bænda án þess að brengla framleiðsluhætti.

Síðan greiðslumarkskerfinu var komið á hefur orðið mjög mikil framleiðniaukning í mjólkurframleiðslu. Fyrirliggjandi athuganir benda til að sú aukning í framleiðni (tæknilega kölluð heildarþáttaframleiðni) hafi numið 2,5–4% á ári að jafnaði. Er það mikil breyting frá þeirri þróun sem áður var í mjólkurframleiðslu og langt umfram framleiðniaukningu flestra annarra atvinnuvega á Íslandi á sama tímabili. Bæði bændur og neytendur hafa notið ábatans af þessari framleiðniaukningu.

Fjárbinding í greiðslumarki og fjármagnskostnaður

Guðrúnu Huldu verður starsýnt á þá fjárbindingu sem felst í greiðslumarkinu og gerir mikið úr tilheyrandi fjármagnskostnaði. Ég fæ hins vegar ekki betur séð en að staðreyndir málsins séu talsvert öðruvísi en henni sýnist.

Það er fyrst að nefna að bændur fengu upphaflegt greiðslumark án þess að greiða fyrir það. Það er því ekki um það að ræða að þeir hafi þurft að fjármagna þá eign með lánsfé og greiða fyrir vexti. Þvert á móti bætti tilkoma greiðslumarksins (að því marki sem það var verðmætt) efnahag bænda og styrkti greiðslugetu þeirra. Tilkoma greiðslumarksins hefði því að öðru jöfnu átt að lækka þann fjármagnskostnað sem bændur voru krafðir um. Þannig standa rök til þess að greiðslumarkskerfið sem slíkt hafi lækkað fjármagnskostnað bænda en ekki hækkað hann.

Kaup á greiðslumarki krefjast hins vegar vissulega fjármögnunar. Sá fjármögnunarkostnaður fellur á kaupandinn sem telur sig væntanlega hagnast á viðskiptunum engu að síður. Seljandinn sem auðvitað er einnig bóndi breytir greiðslumarki sínu í handbært fé. Hans fjárbinding minnkar því um söluverðið og þar með hans fjármagnskostnaður. Augljóst er að engin ástæða er til að ætla að samanlagður fjármagnskostnaður viðskiptaaðila, sem væntanlega eru báðir kúabændur, vaxi þrátt fyrir viðskipti þeirra með greiðslumark.

Eina leiðin til að hafa áhyggjur af aukinni skuldsetningu og vaxtakostnaði vegna viðskipta með greiðslumark er að skoða aðeins eina hlið viðskiptanna, þ.e. kaupandann, en gleyma hinum aðilanum, sem einnig er kúabóndi a.m.k. þar til viðskiptin eru frágengin.

Er unnt að nota fjármagnskostnaðinn í annað?

Guðrún Hulda spyr með fyrirvörum um að hún sé e.t.v. að „ofureinfalda“ málið hvort ekki sé betra að nota það fé sem fer í að borga fjármagnskostnaðinn af greiðslumarkinu í eitthvað þarfara í búrekstrinum.

Stutta svarið er að það sé því miður ekki unnt. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Í fyrsta lagi er augljóst að til þess að þessi fjármagnskostnaður hverfi þarf að leggja niður greiðslumarkskerfið. Sé það enn til staðar mun ætíð liggja í því fjárbinding og tilsvarandi fjármagnskostnaður.

Í öðru lagi er fjármagnskostnaður af þeim hluta greiðslumarks sem fjármagnaður er með lánum samningsbundin skuld við lánveitanda. Sú skuld félli ekki niður og fjármagnskostnaður af henni yrði ugglaust innheimtur þótt greiðslumarkskerfið væri aflagt. Því til viðbótar þyrftu viðkomandi bændur að greiða niður höfuðstól lánsins án nokkurrar eignamyndunar í greiðslumarki. Þessir bændur myndu því alls ekki bæta hag sinn heldur verða fyrir tilfinnanlegu tjóni.

Í þriðja lagi er fjármagnskostnaður af þeim hluta greiðslumarks sem ekki er fjármagnaður með lánsfé einungis reiknistærð. Þeirri reiknistærð er ekki unnt að breyta í reiðufé með afnámi greiðslumarkskerfisins. Hún hverfur einfaldlega með greiðslumarkskerfinu. Á hinn bóginn myndi efnahagur viðkomandi bænda rýrna sem nemur fyrri eign þeirra í greiðslumarki. Lánstraust þeirra í fjármálakerfinu myndi þá ugglaust rýrna að sama skapi og fjármagnskostnaður hækka.

Lokaorð

Það eru hagsmunir bænda og þjóðhagslegt lykilatriði að stuðningskerfi við landbúnaðinn.

  1. nýtist sem allra best til að bæta hag bænda á líðandi stund,
  2. sé til þess fallið að auka framleiðni og styrkja þannig landbúnaðinn og afkomu bænda til framtíðar,
  3. sé til þess fallið að tryggja neytendum öruggt framboð á heilnæmum landbúnaðarvörum,
  4. sé skýrt og gagnsætt.

Greiðslumarkskerfið í kúabúskap nær þessum fjórum markmiðum. Því er miklu vænlegra fyrir bændur og raunar samfélagið í heild að styrkja það fremur en veikja.

Skylt efni: greiðslumarkskerfið

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...