Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hvers vegna bærinn Ísafjörður heitir Ísafjörður
Mynd / HKr.
Lesendarýni 3. janúar 2017

Hvers vegna bærinn Ísafjörður heitir Ísafjörður

Höfundur: Einar Jónsson, fiskfræðingur
Í Bændablaðinu 3. 11. 2016  er mynd af Ísafjarðarpolli undir fróðleiksmolaefni sem nefnt er „Ísland er land þitt“  og er þetta hið ágætasta innlegg í blaðið nema nokkuð vantar á þekkingu sem ef til vill er ekki hægt að lá höfundi þar sem hann staðhæfir að um efnið sé ekki vitað með neinni vissu. 
 
Málið snýst nefnilega um af hverju Ísafjörður, eins og bærinn hét lengi og heitir enn í munni manna, heitir þessu nafni standandi við Skutulsfjörð meðan sjálfur Ísafjörður er miklu innar og í raun innstur þeirra fjarða í því sem við í dag köllum Ísafjarðardjúp.
 
Hvergi hef ég sé á þessu „skýringu“ eða tilgátu, sem furðulegt má heita, en hana hef ég hins vegar sjálfur á reiðum höndum og það skothelda, hvort heldur fræðimenn eða aðrir kunna að hafa ráðið þessa gátu sem er tiltölulega einföld.
 
Ísafjarðardjúp er seinni tíma heiti
 
Málið er það að sá mikli flói eða fjörður sem nú er nefndur Ísafjarðardjúp hét alls ekki svo í upphafi heldur aðeins Ísafjörður og það er ekki fyrr en í byrjun átjándu aldar að annars skilnings fer að verða vart, þ.e. að orðið Ísafjarðardjúp  sé ekki bara  nafn á svæði utan eða í mynni hins forna Ísafjarðar heldur nái lengra inn og í kortasögu Íslands má síðan rekja hvernig þetta nafnabrengl eða nafnbreyting færist æ innar í Ísafjörðinn uns Borgarey er náð og er þá varla annað en innsti halinn eftir með nafninu Ísafjörður en hann hafði aldrei annað nafn en náði í upphafi allt út að Rit og ysta hluta Stigahlíða.
 
Danir sögðu sína starfsemi við Ísafjörð 
 
Danir voru hér einráðir um verslun á tímum einokunarverslunarinnar sem sögð er hafa staðið frá 1602 til 1787. Var sá háttur hafður á sem tíðkast hafði um aldir að kaupmenn komu að vori og fóru aftur að hausti. Síðar var farið að byggja einhver lagerhús sem stóðu mannlaus og lokuð yfir vetrartímann.
Elstu dönsku verslunarhúsin í Neðsta kaupstað á Ísafirði,  reyndar með elstu húsum á Íslandi sem enn standa, eru reyndar frá árunum 1781 (Tjöruhúsið) og 1784 (Turnhúsið) þannig að þau eru byggð rétt um þær mundir sem einokunarversluninni er að ljúka. Það breytir hins vegar ekki því að um nær 200 ár höfðu danskir haft hér aðstöðu þar sem best voru hafnarlægi og lá best við byggð eins og á Eyri við Skutulsfjörð. Þegar þeir komu sér fyrir á þessum stað hlaut staðurinn að sjálfsögðu nafnið Ísafjörður. Það var þekkt nafn bæði hjá heimamönnum sem og erlendum sæförum um þann mikla flóa sem við í dag köllum Ísafjarðardjúp. Skipti þá engu  þótt sjálfur verslunarstaðurinn væri í einhverjum afkima þessa flóa sem þar að auki var erfitt að bera fram (Skutulsfjörður). Nafnið Eyri fékk þó líka töluverðan sess, og mun hafa haft um aldir, og sést í allnokkrum sjókortum. 
Það hefur og ekki spillt fyrir framgöngu Ísafjarðarnafnsins að kaupmenn frá Kaupmannahöfn, eins og Hörmangarar eru sagðir hafa verið, þekktu vel nafnið Isefjord sem gengur inn í Sjáland V við Kaupmannahöfn og mun einna stærstur danskra fjarða (ef frá er talinn Limafjörður en sá er nú frekar sund, botnlaus með öllu) enda er hann 35 km langur og 305 ferkílómetrar eða nær helmingur Ísafjarðardjúps (650 ferkm).
 
Ísafjarðardjúp nefnt í Landnámu
 
Nafnið Ísafjarðardjúp kemur reyndar úr Landnámu þar sem segir um landnámskonuna Þuríði sundafyllir að hún nam Bolungarvík. Síðan segir:
 
„Hún setti og Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði.“ Hér í lýsingu Landnámu eru allir hlutir strax morgunljósir. Hún sló eign sinni á Kvíarmið sem voru á Ísafjarðardjúpi en þar mun átt við djúpið fyrir og í mynni Ísafjarðar enda Kvíarmið enn vel þekkt í dag rétt SV af Ritnum. Síðan tók hún toll af hverjum bónda (kollótta á) í Ísafirði. Þetta orðalag tekur af allan vafa um að Ísafjörður var þá allur hinn stóri flói sem við í dag köllum Djúpið. Þessi stórtæka landnámskona hefði ekki látið sér næga að taka bara toll af þeim fáu bændum sem þá kunna að hafa átt jarðir sínar innst inni í Ísafirði en sleppt öllum hinum sem utar bjuggu. Þá hefði hún vísast orðið af 90-95% af  þeirri eftirtekju sem hafa mátti af öllu þessu svæði.
 
Á korti frá 1539
 
Áður nefnda nafnabreytingu má og ljóslega lesa í „Kortasögu Íslands“. Elsta heimild um Ísafjörð á korti mun vera frá 1539 og kemur fram á pappír í svonefndu Carta Marina korti sem prentað var í Róm 1572. Kortið sýnir N-Atlantshaf allt frá Grænlandi (sem reyndar er bæði fyrir NV og NA Íslands á kortinu)  með Ísland nokkurn veginn fyrir miðju kortsins. Austast sýnir kortið hluta af Noregsströndum og nokkuð norðarlega því þar má lesa nafnið Andanes sem að sönnu er nokkuð norðan við Lofot. Landfræðileg lega Íslands er því allt of norðarlega miðað við raunveruleikann sem skipir þó ekki höfuð máli. Milli Noregs og Íslands og reyndar réttilega nokkuð sunnan og austan við Ísland eru Færeyjar (Fare) og síðan einhver dularfull eyju SV af Færeyjum sem nefnd er Tile og munu vera einhverjar leifar af  sögninni um Thule eyju Rómverja.
 
Nema hvað á kortinu er Ísland frekar ólöguleg miðað við nútíma þekkingu, eyja teygð nokkuð á langveginn. Vestfjarðakjálkinn , (og aðrir skagar) eru þó  varla til sem slíkir. Þau fáu nöfn eins og Vestmannaeyjar (Vespemo?), Hafnarfjörður (Hanafiord), Snæfellsjökull (Iokel) og sjálfur Ísafjörður (Isefiord) eru öll á þokkalega réttum stöðum og Ísafjarðarnafnið  í ólögulegri skoru sem gengur inn í NV hluta landsins sýnir að þetta er merkilegasta plássið á þessu svæði og það vita menn jafnvel alla leið suður í Róm á þessum tíma sem er að sönnu stórmerkilegt. Önnur þekkjanleg nöfn sem varla fylla tuginn eru sum hins vegar út og suður og enn önnur einhver tilbúinn misskilningur.
 
Djúpið allt var nefnt Ísafjörður
 
Íslandskort kennt við Guðbrand Þorláksson frá árinu 1590 sýnir ljóslega Ísafjarðarnafnið yfir allt Djúpið (Isfiord) og sama gera mörg ensk og frönsk sjókort fram undir miðja sautjándu öld. Kortagerðarmaður Danakonungs, J. Mejer  gefur út kort af Íslandi árið 1650 (að vísu mjög bjagað)  með nafninu Isefjord með stórum stöfum þar sem nafnið nær frá Djúpkjafti og inn fyrir Jökulfirði og ekki fer milli mála að Ísafjörður nær út til ystu nesja. Tæpum tuttugu árum síðar kemur Þórður Þorláksson biskup að kortagerð (1668 og 1670) þar sem sama er uppi á teningnum. Ísafjarðarnafnið  Isa fjordur og Isafjordur eru í Djúpkjafti og/eða utan Bjarnarnúps og eiga auðsæilega við um allan flóan inn af. Þessi skilningur styrkist þegar hugað er að því að í upptalningu á innfjörðum  eins og Mjóifjörður, Vatnsfjörður og Reykjafjörður (í réttri röð) er Ísafjarðarnafninu innst slepp af því að það hefur þegar verið nefnt utar. 
 
Ísafjarðardjúp teygir sig smám saman inn Ísafjörð
 
Áður nefnd  kort eru meira og minna bjöguð því raunverulegar landmælingar  á vegum Dana hófust hér ekki fyrr en upp úr 1700. Það var Daninn Hans Hoffgaard sem reið á vaðið og 1723 kemur frá honum einskonar hafnarkort yfir Ísland þar sem orðið Ísafjarðardjúp (Isa Fjördur Djup) kemur fram á korti að því er virðist í fyrsta sinn og nær þá vel inn fyrir Jökulfirði. Síðan  koma fram fyrstu sýslu og/eða landshlutakort sem studdust við slíkar mælingar og árið 1733 kemur fram kort af Ísafjarðar- og Strandasýslu  kennt við Danan T.H.H. Knoff. Hér kemur og fyrir nafnið Ísafjarðardjúp (ISAFJORDUR DJUP) sem segja má að nái langleiðina inn undir Æðey. Á fjórðungskort af stærra svæði eftir sama mann og líklega svipuðum tíma  nefnist Djúpið  ISE FJORDURS DJUP en á því korti nær nafngiftin ekki inn fyrir Jökulfirði.  
 
Næst skal gripið niður þar sem segir af Djúpinu í þýsku korti prentuðu í Nürnberg árið 1761 og sýnir allt  Ísland ((Insula Islandiae). Þar keyrir nokkuð úr hófi fram í nafngiftinni sem eins og Knoff hafði áður sýnt nær yfir allt Út-Djúp utan Æðeyjar undir nafninu ISA FJORD DJUPS DJUP en fátt segir þar um innfirði utan merktur er staðurinn Eyre þar sem sýnist vera Skutulsfjörður.  Nafnið Ísafjarðardjúp líkamnast svo í fullum skrúða 1780 á Íslandskorti  sem kennt er við þá Jón Eríksson og Ólaf Ólavius en enn á það klárlega aðeins við Út-Djúp utan Æðeyjar. 
 
Erlend kort (önnur en dönsk/íslensk) eru þó enn bara með Ísafjarðarnafnið svo seint sem 1789 svo sem frekar ónákvæmt þýskt Íslandskort  kennt við Þjóðverjan von Reylly. Sama er uppi á teningnum  í frönskum og enskum sjókortum af Íslandi allt til ársins 1812 að “djúp” myndin hefur ekki náð þar fótfestu og flóinn heitir enn Ísafjörður. 
 
Ekki er þó allt á eina bókina lært í þessum efnum og fer eftir þjóðum. Árið 1761 var gefið út í Amsterdam nokkurskonar strandkort af Íslandi. Ísafjarðardjúpið  er nafnlaust og hefur þar skrýtna lögun og suður úr því gengur einn fjörður og heitir sá Skutulsfjörður (Schottel ford) og Súgandafjörður ber hið þekkta nafn Pikkol eða Pickol sem mun vera komið frá Frökkum og merkja sá litli. Önundarfjörður ber nafn sem gæti merkt Norðurfjörður (Nood ford). Dýra-, Arnar- og Patreksfjörður skila sér þó nokkurn veginn með sínum réttu nöfnum.  Tálknafjörður nefnist hinsvegar Louis Bane en það nafn eða svipað kemur fyrir á fleiri erlendum siglingakortum og kann sá er þessar línur ritar ekki skýringuna eða söguna bak við það nafn.
 
Upp úr 1800 (ca 1810) hófu Danir að mæla strandsvæði landsins kerfisbundið með nákvæmum þríhyrningamælingum og urðu þá til kort yfir landið og landshluta þar sem strandlengjan  var nokkurn veginn komin með eðlilega lögun. Kort frá þessum tíma sem heitir Islanske  kyst Snæfells Jökel til Kap Nord (les Hornbjarg)  sýnir nafngiftina  ISEFJORD  sem nær yfir Út-Djúp inn að Bjarnarnúpi. Þar fyrir innan er (með minna letri) nafngiftin Isefjords dyp og nær nú inn fyrir Æðey að Kaldalóni. Þessari þróun í útbreiðslu nafnsins Ísafjarðardjúp má svo segja að ljúki í kortum Björns Gunnlaugssonar frá 1844 þar sem enginn vafi er á að það hefur algerlega tekið yfir.
 
Ísafjarðardjúp hvergi nefnt í skrifum Eggerts og Bjarna
 
En þetta var kortasagan sem mikils til gekk fram fyrir tilstuðlan erlendra manna. Það er því mikilvægt að skoða hvað samtíma heimildir innlendar segja um Djúp nafnið. Er þá handhægast að horfa til þeirra Eggerts (Ólafssonar) og Bjarna (Pálssonar) en þeir ferðuðust um allt Ísland á árunum 1752 til 1757 í konungs nafni og skráðu allar sínar ferðir vel og vandlega sem birst hefur á prenti og í bókum. Þeir fóru og vítt og breitt um Vestfirði sem þeir kalla Vestfjarðaskagann því orðið Vestfjarðakjálki mun þá ekki hafa verið orðið til enda fá kort í umferð til að sína lögun hans. Skemmst er frá því að segja að orðið Ísafjarðardjúp kemur hvergi fram í skrifum þeirra. Hins vegar kemur orðið Ísafjörður fyrir og a.m.k. á tveimur stöðum þar sem  engum blöðum er um það að fletta að verið er að tala um Djúpið allt en ekki innsta fjörðinn.
 
Hafís var landnámsmönnum sem komu  frá Noregi að sönnu nánast óþekkt fyrirbæri. En þeir sem settust að við vestanvert landið, norður um og austur um til Eystra Horns hafa fljótlega kynnst þessu fyrirbæri þó mörg ár hafi líklegast getað liðið án þess að hafís gerði vart við sig og hann stundum fljótur að fara aftur ef hann kom eða öfugt. Ísafjörðurinn sem Flóki á að hafa séð í könnunarleiðangri sínum þegar hann gekk á fjöll og sá norður yfir Vestfirði hefur sjálfsagt  getað verið Ísafjarðardjúp, fullt af hafís að vori, og hefur komið Flóka spánskt fyrir sjónir. 
 
Vísindavefur Háskóla Íslands telur þó líklegra að þetta hafi verið Arnarfjörður sem kann líka að vera rétt ef karlinn hefur verið sporlatur og ekki nennt alla leið upp á Glámu eða Sjónfríð úr Vatnsfjarðardalsbotni. Það má einu gilda. Menn verða að hafa í huga að ekki eru nema nokkrir áratugir síðan Dýrafjörður fylltist af hafís svo jakarnir börðu á brúnni sem þverar fjörðinn á svo nefndum Lambadalsodda. Ísinn stoppaði hins vegar ekki lengi við en hvernig sem flett er í annálum finnast engin dæmi um að þetta hafi gerst áður, (þ.e. hafís alveg inn í botn fjarðarins) þó lagnaðarís hafi að sönnu lagst á fjörðinn allt út fyrir Þingeyri eins og skeði frostaveturinn 1918. Ísafjörður er enn opnari og nær þeim mótum þar sem mætast norðlægir straumar og hinn hlýi Golfstraumur. Það að hann hafi hlotið sitt nafn af þeim forna fjanda þarf því ekki að vera ráðgáta heldur er borðleggjandi hlutur.
 
Einar Jónsson,
fiskfræðingur
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...