Kræklinga- og fiskeldistilraunir í Eyjafirði
Fyrir nokkrum misserum birtist grein í Bændablaðinu sem hét „Fiskeldi í Eyjafirði, af því bara“.
Þar er tæpt á rannsóknum varðandi sjávarhita, sjávarstrauma og annarra umhverfisþátta. Öll var þessi grein fróðleg og upplýsandi á margan hátt. Til dæmis hefur sjávarhiti bæði að sumri og vetri hækkað nokkuð sl. þrjátíu ár. Áður voru vetur algengir með lagís og jafnvel hafís. Í áðurnefndri grein var hins vegar lítið eða ekkert minnst á það tilraunaeldi sem hefur verið reynt í Eyjafirði á undanförnum þremur til fjórum áratugum. Laxeldi hefur verið reynt í kvíum þ. e. netpokum á Svalbarðsvík, Ystuvík og Rauðuvík og við Böggvistaðasand. Áframeldi á bolfiski, aðallega þorski, hefur verið reynt við Hrísey, Skjaldarvík, á Svalbarðsvík og við Þórsnes. Auk þessarar upptalningar voru úthlutuð leyfi fyrir fleiri eldisstaði, sem ekki voru notuð.
Þá var stunduð kræklingarækt í firðinum í allmörg ár. Hún var þannig að lagðar voru út línur með flotum til að halda uppi skelinni sem festir sig á þar til gerða tauma sem hanga niður úr línunum. Þessar línur geta verið nokkuð langar, hálfur til einn kílómetri, þannig að sjávarstraumar geta slitið þær þegar mikil skel og þari er komin á taumana. Þetta þarf því mikið eftirlit og umhirðu, ekki síður en sjókvíar, ef ekki á illa að fara. Kræklingalínur voru lagðar út á Reitisvík, við Hrísey, á Arnarnesvík, á Dagverðarvík, á Skjaldarvík og á Garðsvík. Þessi starfsemi, fiskeldi í opnum kvíum og kræklingarækt er nú fyrir allmörgum árum öll aflögð, ýmist orðið gjaldþrota eða hætt af öðrum orsökum. Kvíarnar með netpokunum voru fjarlægðar, en nánast allt annað skilið eftir í sjónum, belgir, færi og festingar við botn. Botnfestingar voru steyptir kubbar, stór akkeri eða toghlerar. Á kræklingalínurnar festist skel og þari sem dró þetta undir yfirborð. Þá kom brim sem sleit skelina af og allt flaut upp aftur og svo koll af kolli þangað til brimið sleit færin og línurnar. Þetta rusl endar svo venjulega uppi í fjöru.
Mörg óhöpp hafa orðið vegna þessara spotta og kaðla, skip og bátar hafa fengið þetta drasl í skrúfur og brotið gíra og drif og endalaust er verið að festa í þessu fiskilínur og handfæraslóða, því þetta lítur út eins og fiskitorfa á dýptarmæli. Mikil mildi er að ekki hefur orðið slys á fólki því alltaf skapast slysahætta þegar veiðarfæri festast og þarf að slíta þau upp. Öll þessi svæði sem tekin voru undir þessa starfsemi eru sérstaklega varasöm frístundasiglurum, en eru betur kunnug þeim sem róa að staðaldri í fjörðinn. Þessi svæði eru aðallega meðfram ströndum á 5 til 20 faðma dýpi á fyrrnefndum svæðum en ná mest út á 35 faðma, við þorskeldið sem var á Skjaldarvík.
Í mars 2015 þegar sjómönnum þótti í óefni komið, var ég er þetta ritar beðinn að fara með fréttamann og kvikmyndatökumann út á fjörð til að skoða ástandið. Var þetta gert landsmönnum kunnugt í sjónvarpi og útvarpi. Þá komst hreyfing á málið, Brim fiskeldi lýsti sig gjaldþrota nokkrum dögum seinna og Matvælastofnun veitti litla peningaupphæð til að taka upp kræklingalínur. Útgerð Árna Halldórssonar tók upp 11 tonn af kræklingalínum. Náðist þó ekki allt sem flaut ofansjávar, og mikið af þessu var þá slitið og sokkið vegna þess að eftirlit var löngu hætt.
Þessi umgengni um fjörðinn er með öllu óásættanleg og þeim til skammar sem þessa iðju hafa stundað. Eftirlit með þessari starfsemi hefur ekki komið í veg fyrir að svona fór og þessir hlutir eru enn í ólagi.
Þessar tilraunir allar eru ein sorgarsaga þegar litið er á viðskilnaðinn við eldissvæðin. Þetta sér enginn og þetta vita einungis sjómenn sem róa að staðaldri í fjörðinn og þeir sem fyrir þessari starfsemi stóðu á sínum tíma. Það er því sanngjörn krafa allra hugsandi náttúruunnenda að þetta verði hreinsað upp úr firðinum.
Smábátar róa mikið í fjörðinn og þegar ekki er fært út fyrir land vegna veðurs er fjörðurinn mikilvægt veiðisvæði smábáta. Mikil hvalaskoðun er í firðinum, 10 til 15 bátar róa með erlenda ferðamenn flesta daga, stóran hluta ársins. Sá er þetta ritar hefur róið í fjörðinn í 45 ár og séð þetta allt gerast.