Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Sigurhrúturinn 2023 í flokki latra hrúta. Rammasonur úr Úlfsbæ sem hefur fengið nafnið Skarkali. Með honum á myndinni er Eyþór Kári Ingólfsson, einnig ræktaður í Úlfsbæ.
Sigurhrúturinn 2023 í flokki latra hrúta. Rammasonur úr Úlfsbæ sem hefur fengið nafnið Skarkali. Með honum á myndinni er Eyþór Kári Ingólfsson, einnig ræktaður í Úlfsbæ.
Mynd / Ragnar Þorsteinsson
Lesendarýni 25. október 2023

Nýtt hlutverk Félags sauðfjárbænda í Suður-Þingeyjarsýslu

Höfundur: Aðalsteinn J. Halldórsson formaður Félags sauðfjárbænda í Suður-Þingeyjarsýslu.

Eftir að Búnaðarþing samþykkti í mars 2021 tillögu um nýtt félagskerfi bænda og þar með sameiningu Bændasamtakanna og búgreinafélaganna var óljóst hvaða og hvort hin gömlu búgreinafélög ættu nokkurt hlutverk lengur eða tilverurétt yfir höfuð.

Þessi félög höfðu verið til lengi með eigin kennitölu, félagatal og rekstur. Eina hlutverk þeirra eftir breytingu félagskerfisins var að vera notuð sem eins konar kjördæmi fyrir kjör inn á búgreinaþing, án þess þó að félögin sjálf hafi nokkuð með þá kosningu að gera. Það var því augljóst að taka þurfti þá umræðu hvort reka ætti félögin áfram og þá með hvaða tilgangi. Sömuleiðis ef niðurstaðan yrði að leggja þau niður þá þyrfti að slíta þeim með viðeigandi meðferð, ákvörðun um ráðstöfun eigna og þess háttar.

Félag Sauðfjárbænda í Suður- Þingeyjarsýslu er eitt þessara félaga. Eftir tilþrifalítil ár á meðan Covid-19 faraldrinum stóð var tekin ákvörðun um það á aðalfundi félagsins, sem haldinn var á Húsavík í apríl 2022, að breyta tilgangi félagsins. Eftir góðar umræður um framtíðina var það niðurstaða fundarins að enn þá væri þörf á félagslegum vettvangi sauðfjárbænda innan svæðisins en þó með breyttu sniði. Þannig er tilgangur félagsins samkvæmt nýjum lögum þess sem samþykkt voru á yfirstandandi ári eftirfarandi:

  • Vera félagslegur vettvangur sauðfjárbænda í sýslunni.
  • Stuðla að frekari fræðslu um sauðfjárbúskap.
  • Stuðla að góðu mannlífi í kringum sauðfjárbúskap í sýslunni.

Strax var hafist handa og fyrsta verk nýrrar stjórnar vorið 2022 var að skipuleggja fyrstu hrútasýningu alls starfssvæðis félagsins. Hrútasýningar höfðu stundum verið haldnar innan sumra sveita en lítil hefð er fyrir því þar sem Skjálfandahólf hafði lengi verið lokað vegna riðuvarna. Það var hins vegar opnað 1. janúar 2020. Halda þurfti sýninguna á tveimur stöðum þar sem um tvö varnarhólf er að ræða en hluti starfssvæðisins er í Eyjafjarðarhólfi, en sýnt var í Hriflu vestan Skjálfandafljóts og í Sýrnesi austan fljóts.

Alls 49 hrútar voru skráðir til leiks á þessari fyrstu sýningu sem tókst afar vel í alla staði.

Næsta verkefni félagsins var að halda fræðslufund um lungnakregðu í sauðfé. Dr. Björn Steinbjörnsson hélt erindi þess efnis á fundi sem haldinn var í samvinnu með deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Norður- Þingeyjarsýslu. Vel var látið af þeim fundi og var hann ágætlega sóttur.

Á aðalfundi félagsins á yfirstandandi ári voru í fyrsta skipti veitt verðlaun fyrir besta veturgamla hrútinn en gjaldgengir voru hrútar fæddir 2021 sem áttu nægan fjölda slátraðra afkvæma. Þessi verðlaun fengu nafnið „Skjálfandi“ og augljóst var á mætingu og stemningu fundarins að mikill áhugi var á þessari útnefningu.

Böðvar Baldursson tók við fyrsta „Skjálfandanum“ vorið 2023 fyrir hrút sinn, Dóm frá Yzta-Hvammi.
Mynd / Aðalsteinn J. Halldórsson

Eftir vel heppnaða hrútasýningu í fyrra var leikurinn endurtekinn í ár og fór sú sýning fram 7. október síðastliðinn. Alls var 61 hrútur skráður til leiks, þar af níu forystuhrútar, en í ár var boðið upp á þá nýjung að hafa sér keppnisflokk fyrir forystufé. Hafði Daníel Hansen, forstöðumaður Fræðaseturs um forystufé, veg og vanda af þessari nýjung eftir að hafa frétt af vel heppnaðri hrútasýningu í Suður-Þingeyjarsýslu 2022.

Fjórir efstu hrútar austan megin Skjálfandafljóts ásamt ábyrgðarmönnum og dómurum. Jónas Jónasson, Benedikt Hrólfur Jónsson, Guðrún Hildur Gunnarsdóttir (dómari), Eyþór Kári Ingólfsson, Sigurður Atlason og Gunnar Guðmundarson (dómari og faðir Guðrúnar Hildar).

Mætti hann á svæðið í ár og dæmdi í keppni forystuhrúta ásamt því að gefa sigurvegaranum bikar að launum. Dagurinn var afar vel heppnaður en eftir þessa miklu þátttöku voru um 100 manns í mat að Ýdölum þar sem sigurvegarar voru krýndir. Sigurvegarinn er sonur Ramma frá Hesti frá Úlfsbæ og hafði hvorki meira né minna en 44 mm þykkan bakvöðva og stigaðist upp á 91 stig.

Þónokkuð margir hrútar rufu 90 stiga múrinn á sýningunni. Tekið skal fram að styrktaraðilar hrútasýningarinnar 2023 voru Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Lífland, Kjarnafæði Norðlenska, Norðurþing og Tjörneshreppur og stjórn vill koma á framfæri þakklæti til þeirra. Auk þess vill stjórn F.S.S.Þ. koma á framfæri þökkum til dómara, kynnis, gestgjafanna, ljósmyndara og ritara sem tóku þátt í sýningunni í ár.

Fram undan hjá félaginu eru fleiri fræðsluviðburðir auk þess sem Skjálfandi verður veittur öðru sinni snemma á næsta ári. Almennt er óhætt að segja að almenn ánægja sé með þessa stefnubreytingu félagsins og ekki sé útlit fyrir annað en að ágætur gangur verði á starfsemi félagsins á næstu árum, félagsmönnum og velunnurum íslensku sauðkindarinnar öllum til gagns og gamans.

igurbjörn Árni Arngrímsson tók að sér að lýsa hrútasýningunni líkt og á fyrra ári og sýndi kunnugleg tilþrif.

Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...