Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Sverrir Möller og Gutti LM SFÍ 2018.
Sverrir Möller og Gutti LM SFÍ 2018.
Mynd / Elísabet Gunnardóttir
Lesendarýni 21. mars 2023

Skráning, ræktun, fræðsla, þjálfun og keppni

Höfundur: Aðalsteinn Aðalsteinsson, formaður SFÍ Hrafnhildur Tíbrá Halldórsdóttir, ritari SFÍ Jens Þór Sigurðarson, gjaldkeri SFÍ Elísabet Gunnarsdóttir, umsjónarmaður skráninga í Snata

Smalahundafélag Íslands (SFÍ) er félag áhugamanna um ræktun, þjálfun og notkun Border collie fjárhunda en félagið var stofnað árið 1992 að fyrirmynd International Sheepdog Society (ISDS) í Bretlandi og er aðildarfélag í því.

Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Gunnar Einarsson frá Daðastöðum, frumkvöðull og driffjöður félagsins um árabil, Lísbeth Sæmundsson og Björn Ólafsson. Meginmarkið félagsins er að stuðla að skráningu og ræktun smalahunda, beita sér fyrir fræðslu, keppnum og efla samstöðu meðal ræktenda og eigenda. Innan SFÍ/ ISDS hefur ræktunarstefnan miðast að því að rækta fyrst og fremst hunda með tilliti til eiginleika óháð útliti og hafa þannig haldið utan um vinnulínur Border collie.

Gunnar Einarsson, stofnandi SFÍ og driffjöður félagsins í mörg ár, fær heiðursverðlaun félagsins.

Samofin sögu Border collie

ISDS var stofnað í Bretlandi 1906 og er saga þess samofin sögu Border collie tegundarinnar. Aðild SFÍ að ISDS þýðir að SFÍ skuldbindur sig til starfa eftir sömu meginviðmiðum og ISDS. Félagar í SFÍ geta sótt um aðild að ISDS í gegnum félagið og fá þannig rétt til að rækta hunda undir merkjum ISDS og skrá hunda í ættbók ISDS. Aðildin veitir SFÍ einnig rétt til að senda keppendur á heimsmeistaramót ISDS.

Derek, einn af fjölmörgum frábærum kennurum sem hafa komið til Íslands á vegum SFÍ.

Ættbók SFÍ, SNATI, er umfangsmikill gagnagrunnur sem félagið rekur í samstarfi við Bændasamtök Íslands. Félagar smalahundafélagsins hafa aðgang að grunninum og sjá tíkareigendur um að skrá sín got í Snata en þar koma meðal annars fram ættir, afkvæmi, árangur í keppnum auk þess sem eigendur hunda geta skráð eigendaskipti. Mikill ræktunaráhugi hefur verið þessi misserin og brýnum við fyrir félagsmönnum að skrá gotin í Snata til að halda áfram metnaðarfullri ræktun smalahunda hérlendis. Eins hvetjum við ræktendur til að sækja um aðild að ISDS, skrá got undan ISDS hundum þar og DNA prófa fyrir helstu sjúkdómum. Félagar í ISDS geta fengið afslátt af slíkum prófum. ISDS mælir með að ræktendur prufi fyrir a.m.k. CEA, IGS, SN og TNS (sbr. „ISDS bundle“ hjá Laboklin). Krafa er gerð um að allir ræktunarhundar séu prófaðir fyrir CEA (Collie Eye Anomaly). DNA próf sýnir fram á hvort viðkomandi hundur geti borið gen sem veldur ákveðnum sjúkdómi til afkvæma sinna. Ekki er heimilt að para saman tvo hunda ef þeir bera báðir slíkt gen. Nánari upplýsingar um þetta má m.a. nálgast inni á heimasíðunni: isds.org.uk.

Námskeiðahald hefur verið flest ár á vegum SFÍ, meðal annars í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands, og verið lagður metnaður í að fá til landsins erlenda þjálfara sem hafa getið sér gott orð í þjálfun og keppnum. Að því sögðu eru einnig margir innlendir aðilar sem hafa komið að fræðslu og kennslu og er óumdeilt að þeirra hlutverk er og verður áfram mikilvægt. Félagsmenn innan SFÍ hafa forgang á skráningu námskeiða sem haldin eru á vegum félagsins en undantekningarlaust hefur áhuginn verið mikill og færri komist að en vilja. Smalahundafélagið stóð einnig fyrir vel lukkaðri félagsferð til Bretlands árið 2017 sem gaman væri að endurtaka.

Íslensku keppendurnir á ISDS HM 2017 - hin hliðin.

Landskeppnir smalahunda

SFÍ hefur staðið fyrir Landskeppnum smalahunda frá 1994 auk þess sem landshlutadeildir innan félagsins hafa staðið fyrir minni keppnum. Markmið þessara keppna er ekki síst að hvetja menn til að temja hundana sína og hafa gaman af því að koma saman. Keppnir líkja eftir þeim verkefnum sem hundur og smali þurfa að leysa við búskapinn og gefa félögum kost á að sýna hæfni og eiginleika sinna hunda við tiltölulega jafnar aðstæður. Innan félagsins eru margir metnaðarfullir þjálfarar og hefur SFÍ rétt á að senda tvo hunda á heimsmeistaramót ISDS. Ísland tók fyrst þátt á heimsmeistaramóti 2017 en að þessu sinni verður mótið haldið á Írlandi dagana 13.- 16. september.

Íslensku keppendurnir á ISDS HM 2017.

Inni á heimasíðu félagsins má nálgast ýmsan fróðleik, fréttir og tilkynningar en einnig á Facebook-síðu félagsins, Smalahundafélag Íslands. Allir sem hafa áhuga geta haft samband við formann til að skrá sig í Smalahundafélag Íslands en einnig er hægt að skrá sig í gegnum SNATA.

Enginn vafi er á notagildi góðra fjárhunda og ekki síst í þeim veruleika sem blasir við bændastéttinni með fækkun sauðfjárbúa og dreifðari byggð. Við í stjórn SFÍ viljum hvetja félagsmenn okkar til að halda áfram því góða starfi sem félagið byggir á og einnig bjóðum við nýja aðila velkomna.

Aðalsteinn Aðalsteinsson, formaður SFÍ
Hrafnhildur Tíbrá Halldórsdóttir, ritari SFÍ
Jens Þór Sigurðarson, gjaldkeri SFÍ
Elísabet Gunnarsdóttir, umsjónarmaður skráninga í Snata

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...