Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Lesendarýni 25. nóvember 2020

Staða íslensks landbúnaðar vandinn og lausnin

Höfundur: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur lagt línurnar um stjórnmálaumræðu ársins 2020. Fyrir vikið hafa mörg stór úrlausnarefni, sem þó þoldu enga bið áður en faraldurinn hófst, fallið í skuggann. Ef þessi mál gleymast vegna tímabundins ástands er hættan sú að skaðinn verði mikill og varanlegur.

Síðustu misseri og um árabil hef ég nefnt stöðu landbúnaðarins í öllum þeim viðtölum þar sem tækifæri gefst. Áður en faraldurinn hófst var greinin þegar komin í verulega hættu. Framtíð undirstöðuatvinnugreinar Íslands frá landnámi hafði verið teflt í tvísýnu. Greinin hefur farið í gegnum miklar breytingar um aldir en aldrei hefur þó framtíð landbúnaðar á Íslandi verið sett í annað eins uppnám og nú. 

Fyrir rúmlega tveimur árum skrifaði ég grein um stöðu landbúnaðar undir fyrirsögninni „Ögurstund“ þar sem ég rakti þá ógn sem greinin stóð frammi fyrir og mikilvægi þess að bregðast við. Ári síðar hafði lítið sem ekkert gerst til að bregðast við ástandinu, raunar hafði starfsumhverfi greinarinnar verið gert erfiðara. Þá skrifaði ég um „hina vanvirtu undirstöðu“. Síðan þá hefur staðan orðið enn erfiðari. Svo bættist faraldurinn við. Hann hefur dregið verulega úr sölu innlendra matvæla en um leið fellur staða atvinnugreinarinnar í skuggann af öðrum málum.

Til að bregðast við áhrifum faraldursins hafa stjórnvöld varið hundruðum milljarða í að verja mikilvægar atvinnugreinar. Grein sem er undirstaða byggðar og mikillar verðmætasköpunar um allt land hefur þó verið vanrækt. Enn er sótt að landbúnaði nema nú gerist það í enn meiri kyrrþey en áður.

Sótt að greininni úr mörgum áttum 

1. Reglugerðir sem gera starfsumhverfi íslensks landbúnaðar erfiðara og dýrara halda áfram að streyma inn á færibandi, ekki hvað síst frá Evrópusambandinu þar sem aðstæður eru allt aðrar en hér. Í ofanálag eru þær svo gjarnan innleiddar á þann hátt að þær verða enn meira íþyngjandi en í öðrum löndum. Við þetta skekkist samkeppnisstaða þeirra sem í auknum mæli er ætlað að keppa við landbúnað sem uppfyllir ekki sömu skilyrði og þau sem lögð eru á íslenska bændur.

2.  Búvörusamningar hafa ekki tekið mið af þörfum og stöðu greinarinnar og birtast jafnvel sem leið til að draga saman innlenda matvælaframleiðslu fremur en að efla greinina. 

3.  Fjármálaáætlun og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar sýndu strax í upphafi viðhorf stjórnvalda til atvinnugreinarinnar. Þar birtist sú ískyggilega sérstaða að af öllum þeim starfsgreinum þar sem ríkið kaupir þjónustu fyrir samfélagið var aðeins í einu tilviki gert ráð fyrir viðvarandi lækkun framlaga, þ.e. í landbúnaði. Alls staðar annars staðar var gert ráð fyrir að framlög myndu aukast ár frá ári. Kaupmáttur hefur enda aukist mikið hjá flestöllum stéttum en bændur hafa verið skildir út undan.

4. Tollasamningur við Evrópusambandið frá 2015 hefur reynst greininni afar erfiður og ósanngjarn. Ég man enn hvar ég var þegar ég heyrði fyrst af undirritun samningsins. Ég var á akstri skammt frá Gauksmýri í Vestur Húnavatnssýslu þegar landbúnaðarráðherrann kom í beina útsendingu í fréttum Sjónvarps og tilkynnti að hann hefði verið að undirrita samninginn. Fram kom að þetta hefði gerst skyndilega en hvorki ég né aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar vissum af undirrituninni. Á undanförnum árum hef ég og Miðflokkurinn gagnrýnt þennan samning og sagt að nauðsynlegt væri að segja honum upp eða endursemja. Við bentum m.a. á að útganga Breta úr Evrópusambandinu gæfi tilefni til slíks. Þessu hefur jafnan verið illa tekið, ekki hvað síst af ráðherranum sem gerði samninginn. Nú hefur þó meira að segja sá ráðherra sagt að tilefni sé til endurskoðunar. En trúir því einhver að eitthvað sé að marka slíkar yfirlýsingar með óbreyttri ríkisstjórn?

5. Heimild til að flytja inn hrátt, ófrosið, kjöt og ógerilsneydd matvæli hefur enn skert samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Á meðan sala íslenskra afurða hefur dregist saman er greininni ætlað að takast á við enn meiri innflutning frá löndum sem uppfylla ekki sömu skilyrði og atvinnugreinin býr við á Íslandi.

Hvernig eiga íslensk fjölskyldubú að geta keppt við erlend verksmiðjubú sem nýta ódýrt vinnuafl þar sem aðstæður dýranna eru mun lakari en hér og notuð eru lyf og aðferðir sem við myndum aldrei sætta okkur við hér á landi? Í hvaða annarri atvinnugrein teldist það ásættanlegt að íslensk fyrirtæki og starfsmenn sem þurfa að uppfylla íslenskar reglur um kjör og aðstöðu þyrftu að keppa óheft við þá sem gera það ekki?

Þetta er ekki bara spurning um hagsmuni bænda heldur samfélagsins alls. Margir sérfræðingar bentu á hversu miklu máli það skipti að innleiða ekki óhóflega lyfjanotkun og ógerilsneydd matvæli á íslenskum markaði. Það kom fyrir lítið en heimsfaraldurinn hefur reynst áminning um mikilvægi þess að dreifa ekki sýklalyfjaónæmi með matvælum.

6. Afurðaverð til bænda hefur ítrekað lækkað á undanförnum árum án þess að það skili sér í lægra verði til neytenda og þar með meiri sölu. Á sama tíma er knúið á um aukinn innflutning. Þó sýna rannsóknir, m.a. frá Finnlandi, að aukinn innflutningur lækkar ekki vöruverð. Hann eykur aðeins álagningu stórverslana.

7.  Sala íslenskra matvæla hefur dregist verulega saman m.a. vegna heimsfaraldursins sem leitt hefur til hruns í ferðaþjónustu og lokunar veitingastaða. Þetta hefur þó ekki orðið til þess að bændur og aðrir matvælaframleiðendur fái stuðning stjórnvalda í samræmi við tilefnið. 

Áhrifin

Allt þetta og fleira hefur skapað þá stöðu að framtíð atvinnugreinar sem hefur haldið lífinu í Íslendingum frá landnámi, grein sem er undirstaða ótal margs annars og er samofin menningu þjóðarinnar, er í hættu. 

Við þessu þarf að bregðast með afgerandi hætti og þau viðbrögð þola enga bið. Ég efast ekki um að almenningur telji það verðugt verkefni. Á meðan undirstöðuatvinnugreininni blæðir út fer ríkisstjórnin létt með að lofa 50 milljörðum í verkefni á borð við Borgarlínu (til viðbótar við kostnað sveitarfélaga), einstaklega óhagkvæmt og óskynsamlegt verkefni sem mun kalla á viðvarandi útgjöld til framtíðar. Öðru eins er lofað í óljósa áætlun um aðgerðir í loftslagsmálum. Sumt í þeirri áætlun er til bóta en það besta sem við getum gert í umhverfismálum er að vernda og byggja upp hinn umhverfisvæna íslenska landbúnað.

Þegar ótaldir tugir milljarðar fjúka í óljós gæluverkefni hljótum við að geta sett fjármagn í að verja íslenskan landbúnað. Það fjármagn færi ekki til spillis heldur rynni til verðmætasköpunar sem stendur undir svo ótal mörgu öðru og sparar samfélaginu yfir 50 milljarða í gjaldeyri á hverju ári. Gleymum því ekki að sá sparnaður og fæðuöryggið sem greinin tryggir varði landið fyrir gjaldþroti fyrir rúmum áratug. 

Lausnin

Þegar tekist var á um efnahag Íslands til framtíðar gaf ég fyrirheit um að þegar árangur hefði náðst yrði samfélaginu leyft að njóta þess, ekki hvað síst hinum ómetanlega íslenska landbúnaði. Áætlunin gekk upp, hundruð milljarða streymdu inn í þjóðarbúið og aðstæður allar gjörbreyttust til hins betra. Eftir 2015 náði Ísland mesta og hraðasta efnahagslega viðsnúningi seinni tíma sögu. 

En margir þeirra sem þó áttu mestan rétt hafa ekki fengið að njóta þess. Framlög til landbúnaðar eru nú aðeins einn áttundi af því sem þau voru fyrir þrjátíu árum samkvæmt viðmiðinu sem stjórnvöld líta helst til, landsframleiðslu. Um leið virðast stjórnvöld leggja sífellt minni áherslu á greinina. Það má m.a. sjá af skipulagi atvinnuvegaráðuneytisins og athugasemdum um að atvinnugreinin sé stunduð sem áhugamál fremur en atvinna.

Það hvort við viljum viðhalda öflugum íslenskum landbúnaði er spurning um ákvörðum. 

Miðflokkurinn hefur nú lagt fram á Alþingi heildstæða stefnu til að vernda og efla íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu. Áætlunin er róttæk og henni fylgir talsverður kostnaður. En ef ekki verður brugðist við í tæka tíð og íslenskri matvælaframleiðslu þess í stað leyft að fjara út verður kostnaður samfélagsins margfalt meiri. Ef sú yrði niðurstaðan myndi þjóðin sjá eftir því til framtíðar en þá yrði of seint að bæta úr. Tíminn til að bregðast við er núna og við erum tilbúin.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,

formaður Miðflokksins

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...