Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Stjórnvöld standa með bændum
Lesendarýni 27. desember 2023

Stjórnvöld standa með bændum

Höfundur: Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra

Yfirstandandi ár hefur verið krefjandi fyrir landbúnað á margan hátt.

Til viðbótar við þær miklu aðfangaverðshækkanir sem urðu í kjölfar heimsfaraldurs og innrásar Rússa í Úkraínu hafa bæst við miklar stýrivaxtahækkanir vegna dýrtíðar. Þetta leiddi til þess að stjórnvöld settu á fót hóp ráðuneytisstjóra þriggja ráðuneyta til að greina stöðuna í landbúnaði og leggja til aðgerðir. Þessi vinna hefur borið ávöxt og í vikunni birtist álit fjárlaganefndar Alþingis um þær ráðstafanir sem ráðuneytin lögðu til. Þá tók fjárlaganefnd á grundvelli þeirra greininga sem ráðuneytin unnu ákvörðun um að leggja til aukastuðning við mjólkurframleiðendur vegna framleiðslu þessa árs, að upphæð 500 milljóna. Heildargreiðslur sem greiddar verða núna á næstu vikum nema því 2,1 milljarði króna. Í tillögunum er lagt til að ungir bændur sem tekið hafa við búum eða staðið í framkvæmdum á síðustu árum, frá árinu 2017, fái sérstakan stuðning en einnig að almennur stuðningur komi til allra framleiðenda mjólkur, til sérhæfðra búa í nautakjötsrækt og til fjölskyldubúa þar sem að ætla má að fjölskyldur hafi stærstan hluta sinna tekna úr sauðfjárrækt.

Greiningar leiða í ljós veikleika

Í greiningum hópsins kemur í ljós að áskoranirnar eru einkum tvíþættar, annars vegar bráðavandi vegna mikilla sviptinga á rekstrarumhverfi vegna aðfangaverðshækkana og hækkandi fjármagnskostnaðar, og hins vegar langtímaáskorun sem hefur þá birtingarmynd að raunlaun bænda hafa lækkað eða staðið í stað á gildistíma búvörusamnings. Það er þróun sem við getum ekki og eigum ekki að samþykkja sem samfélag. Nýta þarf tímann vel á næstu misserum til þess að hefja undirbúning að nýju stuðningskerfi landbúnaðar sem tekur við þegar gildandi búvörusamningar renna sitt skeið. Sú vinna mun hefjast á nýju ári og með hækkandi sól. Ljóst er að ef að okkur á að takast að snúa þessari þróun við, þannig að bændur á Íslandi geti lifað í sama efnahagslega raunveruleika og aðrir íbúar, þurfum við að vera óhrædd að spyrja spurninga. Ég hef nefnt það áður að skoða þurfi að hvaða marki mismunandi stuðningsform hafa aukið fjármagnskostnað án þess að tilsvarandi framleiðniaukning verði. Slík form stuðnings hafa mikinn fórnarkostnað. Markviss stuðningur sem styður við atvinnugreinina með skilvirkum hætti þarf að vera markmiðið,endaerþáframtíðarsýn að finna í landbúnaðarstefnu sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor.

Jákvæð teikn á lofti

Þrátt fyrir að áskoranir hafi verið á árinu voru ýmis jákvæð teikn á lofti. Landbúnaðarstefna fyrir Ísland var samþykkt á vordögum ásamt því að í fjármálaáætlun er nú gert ráð fyrir því að veita tveimur milljörðum í stuðning við kornrækt á tímabili áætlunarinnar. Mikil tækifæri eru í kornrækt og strax á næsta ári byrja að berast ný yrki hingað til lands til tilrauna, sem eru afurðir þeirra fjármuna sem stjórnvöld hafa ákveðið að veita til plöntukynbóta. Þau verkefni munu skila miklum árangri og í haust var í fyrsta skipti reiknuð kynbótaspá fyrir bygg á grundvelli erfðamengisúrvals líkt og tekið var í notkun í ræktun mjólkurkúa nýverið. Þá mun fjárfestingarstuðningur aukast á næstu árum til að byggja upp þá innviði sem þörf er á til þess að kornrækt geti dafnað og íslenskir bændur geti á þessari öld brauðfætt þjóðina, til viðbótar við að leggja henni til mjólk, grænmeti og kjöt.

Lokasigur gegn riðu

Þá samþykkti ég nýverið tillögu yfirdýralæknis um að breyta um stefnu í baráttunni gegn riðu. Nú er gerlegt að rækta þessa óværu burt og hafa stjórnvöld komið til móts við kostnað sem því fylgir, bæði á þessu ári og á næsta ári. Okkar færasta vísindafólk í þessum málum hefur skrifað skýrslu um aðgerðir sem unnt er að ráðast í til að hraða innleiðingu þessara verndandi arfgerða og unnið er að þeim í mínu ráðuneyti. Ljóst er, miðað við mikinn áhuga bænda á notkun sæðis frá hrútum sem bera verndandi
og mögulega verndandi arfgerðir, að mikill árangur mun nást hratt á næstu árum. Matvælaráðuneytið mun styrkja þá notkun þannig að við náum meiri árangri. Þannig fara líkur á nýjum riðutilfellum hratt minnkandi sem er sameiginlegt markmið okkar allra, enda hefur fjárhagslegur og samfélagslegur kostnaður þessa sjúkdóms verið gríðarlegur síðustu áratugi.

Dýrtíð verður að linna

Ljóst er að rekstrarumhverfi landbúnaðar, líkt og annarra atvinnugreina, er afar háð gengi efnahagslífsins. Mikilvægt er að okkur sem samfélagi takist að vinna niður verðbólgu og þar með skapa skilyrði fyrir lægra vaxtastigi. Það verkefni taka stjórnvöld alvarlega. Fyrir landbúnað, þar sem fjármagnskostnaður er hár miðað við veltu, er þetta einkar mikilvægt en einnig vegna þess að bændur, ólíkt því sem er raunin hjá flestum öðrum atvinnurekendum, stjórna ekki verðlagningu afurða, heldur eru þeir frumframleiðendur. Því eru tækifæri þeirra til þess að dreifa byrðunum af hækkandi aðfangakostnaði takmarkaðri en flestra annarra. Til þess að rétta stöðu bænda mælti ég fyrir máli í þinginu sem gerir félögum frumframleiðenda búvara heimilt að stunda samstarf og samvinnu. Þau skilyrði byggja á hinni svokölluðu finnsku leið og frumvarpið færir umhverfið á Íslandi í sama horf og í nágrannalöndum okkar verði það að lögum. Það er bæði sanngjarnt og eðlilegt að tækifæri íslenskra bænda til samvinnu og samstarfs séu ekki síðri en annarra. Málið er í meðförum þingsins og ég hef mikla trú á því að niðurstaða fáist í því á næstu mánuðum.

Samandregið tel ég þrátt fyrir áskoranir að framtíð íslensks landbúnaðar sé björt. Við eigum jarðnæði, frjósaman jarðveg, vatn og það sem mestu máli skiptir, metnaðarfullt og vel menntað ungt fólk sem er tilbúið að framleiða matvæli fyrir landsmenn. Öll grundvallarskilyrði til búskapar eru hér góð ef okkur lánast að breyta því umhverfi sem greinin býr við til betri vegar.

Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...