Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Um ræktun gegn riðu
Lesendarýni 30. ágúst 2022

Um ræktun gegn riðu

Höfundur: Eyþór Einarsson ráðunautur búfjárræktar- og þjónustusviðs

Í þessum pistli verður rætt um arfgerðargreiningar haustið 2022 ásamt fleiri atriðum sem tengjast því stóra verkefni sem fram undan er – að rækta upp riðuþolna stofna.

Ræktunaráherslur

Til lengri tíma verður markmiðið að gera stofninn ónæman fyrir riðuveiki með því að rækta upp fé með verndandi arfgerðir og útrýma áhættuarfgerðinni. Mikilvægt er að allir spili með í þessu stóra verkefni.

Þetta er hins vegar langhlaup. Uppspretturnar eru fáar af verndandi arfgerðum og því mikilvægt að fara ekki of geyst í að innleiða þær í stofninn í heild. Það er mikilvægt að passa vel upp á erfðafjölbreytileikann í stofninum – það er t.d. ekki æskilegt að hrúturinn Gimsteinn frá Þernunesi verði faðir, afi eða langafi allra ásettra hrúta í landinu á aðeins örfáum árum. Hins vegar eru þau bú sem eru á mestu áhættusvæðunum gagnvart riðuveiki hvött til þess að setja ræktun gegn riðu í fyrsta sæti þó það þýði mikla aukningu skyldleikaræktar í ákveðnum hjörðum og eftirgjöf í öðrum ræktunareiginleikum tímabundið.
Hin alþjóðlega viðurkennda verndandi arfgerð ARR hefur enn sem komið er bara fundist á Þernunesi. Arfgerðin T137, sem vonir eru bundnar við sem verndandi arfgerð, hefur þó sem betur fer fundist á 8 búum. Þar sem framboð þessara arfgerða er takmarkað er hvatt til þess að velja einnig markvisst fyrir lítið næmu arfgerðinni (AHQ), sem virðist veita mikla vernd og einnig að fjölga gripum með C151 og N138.

Rannsóknir eru nú í gangi þar sem m.a. verður prófað að bera saman næmni mismunandi arfgerða með svo kölluðu PMCA prófi. Þessi rannsókn, sem fer fram á tilraunastofu í Frakklandi, mun væntanlega skila fyrstu niðurstöðum fyrir fengitíma og verða áherslur á ákveðnar arfgerðir endurmetnar eftir því sem upplýsingar berast. Þá verður kynbótaskipulagið í heild endurskoðað á næstunni byggt á þeim rannsóknum sem eru í farvatninu. Má þar nefna bæði erfðarannsókn sem unnin verður við Háskólann í Gießen og rannsóknir RML þar sem beitt verður hermilíkunum til að skoða hvernig best sé staðið að framgangi ræktunarstarfsins á næstu árum m.t.t. innleiðingu verndandi arfgerða og áhrifa á aðra eiginleika.

Leyfi til hrútakaupa

MAST hefur nú gefið út tilkynningu (sjá frétt á heimasíðu MAST, 22. ágúst 2022 ) þar sem fram kemur að hægt er að sækja um flutning á gripum með arfgerðirnar ARR og T137 yfir varnarlínur.

Til að stuðla að því að bú sem eru í mestri áhættu gegn riðu geti byggt upp þolna stofna sem hraðast, hefur MAST skilgreint hvaða svæði teljast í mestri hættu og bú á þeim svæðum mun þá hafa mestan forgang að því að fá leyfi til kaupa á vernd- andi gripum.

Ljóst er að í haust er framboðið ákaflega takmarkað en engu að síður mikilvægt að allir gripir sem vitað er að beri þessar arfgerðir nýtist til framræktunar. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér málið t.d. á heimasíðu MAST og RML en ítarlegri upplýsingar eru væntanlegar um hvaða bú munu fá söluleyfi á þessa gripi. Umsóknir verða síðan afgreiddar 12. september.
Þá er rétt að geta þess í þessu samhengi, að sæðingastöðvarnar hafa fengið „grænt ljós“ á flutning hrúta inn á stöðvarnar og vilyrði fyrir kaupum á ARR og T137 hrútum sem bjóða á upp á í vetur.

Arfgerðargreiningar haustið 2022 – best að panta sem allra fyrst!

Grundvallaratriði í því er að vita hvaða arfgerðir væntanlegir ásetningsgripir bera er að sýnataka sé markviss og víðtæk. Því eru í raun allir sauðfjárbændur hvattir til þess að arfgerðargreina a.m.k. ásetningshrútana. Síðan er það val hvers og eins hvað menn taka stór skref í þessu, þ.e.a.s. hvort gimbrar og ær séu einnig greindar.

Sumir hafa þegar látið greina hluta af sínum fjárstofni og geta því útfrá þeim niðurstöðum áttað sig á því hvaða arfgerðir lömbin bera. Í þessu sambandi má benda á nýjan möguleika í Fjárvís (undir „yfirlit“ – ekki sjáanlegt hjá þeim sem hafa bara hjarðbókaraðgang) sem heitir „arfgerðarspá“ og ætti þetta verkfæri t.d. að hjálpa bændum að átta sig á hvaða lömb er hægt er að reikna út spá fyrir með 100% öryggi út frá niðurstöðum foreldra og hvaða lömb væri áhugavert að láta greina.

Í haust er hægt að panta arfgerðargreiningar á príongeninu í gegnum RML. Tveir greiningaraðilar eru í boði, Agrobiogen í Þýskalandi og Matís í Reykjavík, en með því móti er verið að stuðla að því að hægt verði að skila bændum niðurstöðum (í Fjárvís.is) áður en sláturtíð lýkur. Bæði fyrirtækin munu greina þau 6 sæti sem talin eru að hafi áhrif á næmi sauðfjár fyrir riðuveiki. Hver arfgerðargreining með efniskostnaði mun kosta í haust 3.000 krónur (+ vsk.) óháð greiningaraðila. Ef bændur vilja að sýnin séu tekin þá bætist við kostnaður samkvæmt gjaldskrá RML. Arfgerðargreiningar er nú hægt er að panta í gegnum heimasíðu RML og þeir sem panta fyrir 25. ágúst verða í forgangi með að komast að í greiningu og síðan verður horft til þess í hvaða röð menn hafa pantað ef þarf að forgangsraða.

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga
  • Þegar talað er um að gripur sé arfblendinn fyrir ákveðinni arfgerð t.d. fyrir áhættuarfgerð og hlutlausri arfgerð (VRQ/ARQ), eru helmings líkur að sá gripur gefi frá sér áhættuarfgerð og helmingslíkur að hann gefi hlutlausa arfgerð.
  • Þegar talað er um arfhreina gripi, þá hefur viðkomandi gripur fengið umrædda arfgerð frá báðum foreldrum sínum og mun í öllum tilfellum skila henni frá sér til sinna afkvæma. Til dæmis ef hrútur væri arfhreinn fyrir hinni verndandi arfgerð ARR (ARR/ ARR) fá öll afkvæmi hans ARR frá honum og verða því a.m.k. arfblendin fyrir verndandi arfgerð. Mjög praktískt er fyrir þá sem ætla að innleiða lítið næmar og verndandi arfgerðir af sem mestum hraða að koma sér upp arfhreinum hrútum með þær arfgerðir.
  • Þá er mikilvægt að vera með það á hreinu að arfgerðir hoppa ekki yfir kynslóðir. Ef hrútur hefur verið greindur hlutlaus mun hann ekki skila öðru en hlutlausu arfgerðinni til afkvæma sinna og þá skiptir engu þó á bakvið hann standi gripir með áhættuarfgerð, verndandi arfgerð eða lítið næma arfgerð.
Staða arfgerðargreininga úr átaksverkefninu frá í vetur

Nánast er búið að greina öll sýnin sem tekin voru í vetur í gegnum átaksverkefni RML og er megnið af niðurstöðunum aðgengilegar bændum inn í Fjárvís. Enn vantar þó niðurstöður fyrir þau sýni sem þurfti að endurgreina úr síðustu þremur pökkunum sem voru greindir en það náðist ekki fyrir sumarleyfi hjá greiningaraðilanum. Þetta eru sýni sem fóru út til Þýskalands seinnipartinn í maí og júní.

Þessar allra síðustu niðurstöður munu væntanlega skila sér á næstu dögum. Betur verður gerð grein fyrir uppgjöri á þessu verkefni þegar allar niðurstöður liggja fyrir. Eins er eftir að yfirfara allar villur í innlestri og koma þeim niðurstöðum inn í kerfið.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...