Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Páll Briem.
Páll Briem.
Lesendarýni 18. október 2023

„Hver maður á gróður á sinni jörðu ...“

Höfundur: Kristin Magnúsdóttir, lögfræðingur ML

Páll Briem (1856–1904) var mikilsvirtur lögfræðingur. Hann starfaði sem málflutningsmaður við Landsyfirrétt, var þingmaður Snæfellinga, sýslumaður í Dalasýslu og Rangárvallasýslu og amtmaður í norður- og austuramti með aðsetur á Akureyri.

Kristín Magnúsdóttir.

Árin 1897 til 1901 gaf Páll út timaritið „Lögfræðing“ sem var fyrsta timarið á Íslandi helgað lögfræði. Páll ritaði m.a. greinar um ágang og birti í timaritinu.

Eignarréttur

Um eignarrétt og heimildarlausa beit segir í grein Páls:

„Í hverju því landi þar sem eignarréttur lands er löghelgaður, þar hljóta að vera lagaákvæði um heimildarlausa beit eða ágang búfjár, og svo er í lögum vorum. Þannig segir í Jónsbók: „Hver maður á gróður á sinni jörðu“ og er þetta tekið upp úr fornlögum vorum í Grágás.“

Stærstu samtök landeigenda á Íslandi, Bændasamtök Íslands, sendu bréf til sveitarstjórna í sumar til að tjá þeim þá skoðun sína að ef land væri ekki girt dýrheldri girðingu þá ætti landeigandinn ekki gróður þess, þ.e. ef eignin væri ekki varin gegn þjófnaði – mætti stela henni. Ef það viðhorf til eignarréttarins yrði almennt hér á landi yrðu kindur á flækingi eign þeirra sem næðu þeim og ólæst hús yrðu ókeypis hótel.

Umboðsmaður Alþingis

Árið 2002 var lúmsk tilraun gerð á Alþingi til að skerða verulega eignarrétt landeigenda og kollvarpa með því aldagömlu réttarástandi varðandi ágang. Eins furðulegt og það virtist í fyrstu, þá kemur það ekki lengur á óvart að Bændasamtök Íslands samþykktu tilraunina fyrir sitt leyti. Í áliti umboðsmanns Alþingis sl. haust, í máli 11167/2021, var kveðið upp úr með að tilraunin bryti á stjórnarskrárvörðum eignarrétti landeigenda og fengi því ekki staðist. Þá væru ágangsákvæði afréttalaganna nr. 6/1986 í fullu gildi, en stjórnvöld höfðu áður úrskurðað þau hliðarsett. Í álitinu sagði umboðsmaður m.a.:

  • „Af framangreindu er ljóst að reglur laga nr. 6/1986 sem fjalla um ágang búfjár úr einu heimalandi í annað eru byggðar á þeim grunnrökum að umráðamaður lands þurfi ekki að heimila öðrum þau afnot af landinu sem felast í umgangi og beit búfjár í annarra eigu.“
  • „Jafnframt mæla þær fyrir um verndarrétt hans við ákveðnar aðstæður, þ.e. annars vegar rétt hans til að leita til handhafa opinbers valds, sveitarstjórnar og eftir atvikum lögreglustjóra, og fara fram á að þessir aðilar beiti þeim valdheimildum sem þeim eru fengnar með lögum nr. 6/1986, og hins vegar bótarétt vegna tjóns af völdum ágangsfjár eins og nánar er kveðið á um í lögunum.“
  • „Hafi ætlunin verið að gera breytingar á þessari réttarstöðu umráðamanns lands með yngri lögum, s.s. með þeirri takmörkun á eignarrétti hans að hann verði að þola ágang búfjár annarra á eign sína eða njóti ekki fyrrgreinds verndarréttar sem mælt er fyrir um í lögum nr. 6/1986, verður að gera kröfu um að það verði skýrlega ráðið af orðalagi og efni þeirra lagaákvæða sem til álita koma. Er þá höfð í huga sú krafa um lagaáskilnað sem leiðir af stjórnskipulegri vernd eignarréttinda og áður hefur verið gerð grein fyrir.“

Grundvallarákvæði ágangs­kaflans, sem umboðsmaður fjallar um, má segja að sé 3. málsliður 33.
greinar, sem hljóðar þannig:

„Stafi ágangur hins vegar af búfé, sem heimilt er að hafa í heimahögum, ber sveitarstjórn að láta smala ágangsfénaði og reka þangað, sem hann á að vera, á kostnað eiganda, nema annað sé ákveðið í fjallskilasamþykkt.“

Ákvæðið er afar einfalt og skýrt. Þrátt fyrir það ná Bændasamtökin að lesa um girðingar í ákvæðinu og sumir sveitarstjórnarmenn finna í því alls konar vandamál. Þar á meðal að enginn viti hvað „ágangur“ þýði.

„Ágangur“

Um orðið segir Páll í grein sinni:

„Orðið ágangur er eigi haft í hinu forna lagamáli, í þess stað er þar haft orðið beit, en orðið beit er bæði að fornu og nýju víðtækara en orðið ágangur. Ágangur búfjár er heimildarlaus beit búfjár, og fyrir því er orðið notað hér.“

Þannig er ágangur stakt lamb sem bítur gras í landi sem eigandi þess hefur ekki leyfi til að beita.

Réttarbót Eiríks konungs Magnúsonar árið 1294

Þá rekur Páll þróun laga frá Grágás þjóðveldisaldar yfir í Jónsbók og svo íbætur Réttarbótar Eiríks konungs Magnússonar. Með þeim voru lögin færð aftur til samræmis við ákvæði Grágásar um að ágangur í tún, akra og engi varðaði við lög, hvort heldur um þau væru garðar eða ekki og hvort sem ágangurinn var með vilja eða óvilja eigenda dýranna. Það ákvæði er nú fyrsti málsliður 34. gr. afréttalaga nr. 6/1986.

Lögfesting

Í greininni er fjallað um ágang í haga. Ef landeigandi vildi ekki að hagi hans yrði fyrir ágangi annarra manna búfjár, gat hann „lögfest“ hann. Hugtakið að „lögfesta land“ er úr norskum lögum en hún skyldi fara fram í töluðu máli á þingi eða í kirkju. Slík lögfesting gilti í 12 mánuði hverju sinni. Þeir sem áttu land er lá að lögfestum haga skyldu hafa gæslumann um búfé sitt á daginn en reka það í það horn á landsins sem fjærst væri hinum lögfesta haga að kveldi.

Ágangur úr afrétti

Eigendur búfjár á afrétti báru ekki ábyrgð á ágangi sem það kunni að valda utan afréttarins, enda var nýting afrétta, utan byggða, viðurkenndur búháttur. Þannig eru lögin enn, því ef sveitarstjórn þarf að smala ágangsfé að ósk landeigenda, sem kemur úr afrétti, gera afréttalögin ráð fyrir að fjallskilasjóður eða sveitasjóður greiði kostnaðinn við smölunina, en ekki eigendur fjárins, sbr. 31. gr laganna. Aftur á móti ef ágangurinn er úr heimahaga gera lögin ráð fyrir að eigandinn greiði kostnaðinn, sbr. 33. gr. laganna.

Afréttur girtur

Skv. Jónsbók áttu þeir sem bjuggu við afrétt það úrræði að geta krafist að garður yrði gerður á milli heimalands og afréttarins. Það ákvæði er enn í lögum sbr. 32. gr. afréttalaganna. Í lögum um girðingar nr. 135/2001 segir í 6. grein að notendur afréttar skuli í slíkum tilfellum greiða 80% af kostnaði girðingarinnar en landeigendur 20%.

Refsingar fyrir ágang

Þá er rakið í greininni að í Grágás hafi ágangur varðað bæði skaðabótum og refsingum eftir alvarleika. Refsingin gat verið þriggja marka sekt, fjörbaugsgarður (þriggja ára útlegð) og jafnvel skóggangur (ævilöng útlegð). Ef menn fóru ekki í útlegðina innan ákveðins tíma, voru þeir réttdræpir. Í Jónsbók voru útlegðardómar aflagðir en til viðbótar skaðabótum þurfti ágangseigandinn að greiða sekt til þess sem átti gróðurinn. Í núgildandi afréttalögunum er gert ráð fyrir bótum og uslagjöldum sbr. 35. gr. laganna.

Samfella í lögum landsins

Þannig má rekja mörg lagaákvæði frá Grágás, yfir í Jónsbók, og með ílagi Réttarbótar Eiríks konungs yfir í lög um afréttamálefni nr. 42/1969, nú lög nr. 6/1986. Eins og umboðsmaður segir í áliti sínu þá er ágangur ólöglegur. Eins og lesa má um í grein Páls Briem, þá hefur það réttarástand varað frá þjóðveldisöld.

Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...