Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Rauð viðvörun
Mynd / Bbl
Skoðun 27. janúar 2022

Rauð viðvörun

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Á síðustu mánuðum hafa orðið miklar hækkanir á hinum ýmsu aðföngum land­bún­aðarins. Tilbúinn áburður hefur hækk­að um nær 120–140% milli ára. Slík hækk­un á sér engin fordæmi. Það hafa líka orðið mikl­ar hækkanir á ýmsum öðrum rekstrar­vörum, svo sem byggingarvöru, rúllu­plasti, umbúðum, olíu og kjarnfóðri. Þessi þróun á sér varla hliðstæðu. Væri íslenskur land­búnaður skráð félag á markaði þá væri búið að flagga afkomuviðvörun fyrir nokkru.  Staðan er grafalvarleg.

Þessi vandi er þó ekki bundinn við Ísland. Um allan heim má lesa um gífurlegar hækkanir á aðföngum með tilheyrandi hækkun á matvælaverði. Matvöruverð á heimsvísu hækkaði um 23% frá því í desember 2020 til desember 2021, samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). 

Í Evrópusambandinu hækkaði matvælaverð um 13% síðasta ársfjórðung 2021. Þegar matvælaverð á heimsvísu hækkar fylgir því gjarnan aukning í framleiðslu sem slær á verðhækkun. Hækkun á rekstrarvörum til landbúnaðar, heimsfaraldur Covid-19 og auknir öfgar í veðurfari gefa hins vegar ekki tilefni til þess að ætla að matvælaverð muni lækka á næstu mánuðum.

Íslensk stjórnvöld hafa sýnt stöðunni skilning

Stjórnvöld víða í heiminum fóru að huga að aðgerðum seinni hluta síðasta árs og sum hver eru farin að huga að aðgerðum núna til að bregðast við stöðunni. Norsk stjórnvöld tilkynntu í haust að þau myndu auka stuðning við bændur vegna hækkunar á byggingarvörum og áburði. Í upphafi þessa árs ákváðu þau enn fremur að bregðast við gífurlegri hækkun á raforkuverði með auknum stuðningi við bændur. Íslensk stjórnvöld hafa líka sýnt þessari stöðu skilning og tryggt bændum 700 milljónir til að koma til móts við hækkun áburðarverðs. Unnið er að útfærslu á fyrirkomulagi við úthlutun þessa stuðnings. Þar leggja bæði stjórnvöld og Bændasamtök Íslands áherslu á að aðgerðin verði einföld og komi sem fyrst til framkvæmdar.

Hvað gerir fólk ef maturinn er búinn í ísskápnum?

Áskoranirnar eru víða í kjölfar heimsfaraldurs og margir sem sýna því furðulega lítinn skilning hvað skortur á áburði raunverulega þýðir. Ég ætla að leyfa mér að vísa í dæmi sem ég rakst á í skýrslu sem Teitur Gunnarsson efnaverkfræðingur vann fyrir Mannvit 2008 og fjallar um áburð og framleiðslu hans: Hvað gerir fólk ef maturinn er búinn í ísskápnum? Þá er farið út í búð og keypt meira til að fylla á ísskápinn, eða hvað? Þegar jurtirnar eru búnar með „matinn“ í jarðveginum þarf að fara út í búð og kaupa meiri „mat“ og fylla á jarðveginn. Það er það sem áburðargjöfin gerir. Hún endurnýjar matarbirgðir plantna í jarðveginum svo aftur megi vaxa ný uppskera úr moldinni. Ef við reyndum að brauðfæða þjóðir heimsins án áburðar þá myndu milljarðar manna svelta, en eins og Nóbelsverðlaunahafinn Normann Borlaug sagði: „Líf án áburðar er ekkert líf.“

Kostnaðarauki fyrir íslenskan landbúnað upp á 2.500–3.000 milljónir

Hækkun áburðar um nærri 120% milli ára þýðir kostnaðarauka fyrir íslenskan landbúnað upp á 2.500–3.000 milljónir. Áhrif hækkana á öðrum rekstrarvörum hafa ekki verið endanlega metin, en umfang þeirra er af svipaðri stærðargráðu. Ljóst er að stjórnvöld geta ekki haldið áfram að bregðast við stöðunni með auknum stuðningi. Bændur munu þurfa að leita leiða til að nýta áburð sem best ásamt sem bestri nýtingu búfjáráburðar og hagræða í sínum rekstri. Má hér til að mynda nefna bændurna í Suður-Þingeyjarsýslu sem létu ekki deigan síga og sameinuðust um kaup á 800 tonnum af áburði. En aftur að starfsskilyrðum bænda, þá hafa bændur eftir fremsta megni reynt að hagræða í sínum rekstri en nú er svo komið að ekki er hægt að hagræða meira og hefur afkoma í svínarækt, kjúklingaeldi, sauðfjárrækt og nautakjötsframleiðslu verið óviðunandi um langt skeið. Hvernig ætlum við að tryggja viðunandi afkomu þeirra sem starfa við frumframleiðslu matvæla í landbúnaði og tryggja fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar?

Á næstu vikum munu búgreinadeildir Bændasamtaka Íslands funda með sínum félagsmönnum. Þar þarf að ræða þessa stöðu sem nú er uppi og leita leiða til að bregðast við henni. Í því samtali er allt undir. Hvort sem um ræðir rekstur búanna, fyrirkomulag opinbers stuðnings eða hina frjálsu verðmyndun á markaði. Brýnt er að tryggja bændum eðlilega afkomu af sinni framleiðslu. Á Búnaðarþingi sem haldið verður 31. mars–1. apríl verða bændur að sameinast um raunhæfar aðgerðir sem taka á rekstrarvanda landbúnaðarins.

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...