Sannleikurinn um endurskoðun búvörusamninga
Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Nú er rúm vika síðan Alþingi samþykkti lög er varða framkvæmd búvörusamninga. Það hefur tekið sinn tíma að sigla málinu í höfn en nú geta bændur horft fram á veginn og gert áætlanir í sínum rekstri.
Fjölmörg jákvæð atriði er að finna í búvörusamningunum sem munu efla innlenda matvælaframleiðslu. Óhætt er að segja að afgreiðsla málsins á Alþingi hafi vakið mikla athygli og umtal í samfélaginu. Ýmis orð hafa fallið um umfang og eðli búvörusamninganna, bæði frá fylgismönnum þeirra og gagnrýnendum. Bændur fagna allri umræðu um landbúnað en er mikið í mun um að hún sé byggð á réttum upplýsingum en ekki órökstuddri gagnrýni. Eitt af því sem mikið er rætt um er tíu ára gildistími samninganna og endurskoðunarákvæði sem kveðið er á um árin 2019 og 2023.
Samningarnir verða endurskoðaðir 2019
Í nýsamþykktum lögum er kveðið á um að allir fjórir samningarnir skuli endurskoðaðir árið 2019. Endurskoðunarákvæði laganna byggir á endurskoðunarákvæðum sem eru til staðar í öllum samningunum fjórum og kveður á um að endurskoðun þeirra skuli fara fram árin 2019 og 2023. Þessa samninga hafa bændur samþykkt í atkvæðagreiðslu. Lögin kveða jafnframt á um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli fyrir 18. október næstkomandi skipa formlegan samráðshóp um endurskoðun búvörusamninganna þar sem aðkoma afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda skuli tryggð. Endanleg samningagerð verður þó áfram milli bænda og ríkisins eins og áður.
Því hefur ranglega verið haldið fram, meðal annars af Alþýðusambandi Íslands, að bændur geti með einhverjum hætti komið í veg fyrir endurskoðun og þannig sé ekki um virka endurskoðun að ræða. Hefur jafnvel verið ýjað að því að það sé hagur bænda að koma í veg fyrir þessa endurskoðun. Ekkert er fjær sanni.
Það er mjög mikilvægt fyrir bændur að endurskoðun samninganna fari fram. Bæði eru ákvæði í samningunum sem eðlilegt er að endurmeta og síðan eru það hreinir og klárir hagsmunir allra málsaðila að sátt náist um íslenskan landbúnað. Þess vegna fögnuðu Bændasamtök Íslands því víðtæka samráði sem meirihluti atvinnuveganefndar lagði til og ráðist verður í á næstu þremur árum. Bændur munu ganga til þeirrar vinnu með opnum hug og ríkan vilja til sáttar. Fyrir ASÍ og aðra þá sem vilja kynna sér markmiðin með endurskoðunarákvæðunum er hér rifjað upp hvað segir í samningunum um þau málefni.
Verður kvótakerfi í mjólk eftir 2021?
Við endurskoðun nautgriparæktarsamningsins árið 2019 þarf að taka ákvörðun um það hvort kvótakerfið verði afnumið 1. janúar 2021 eður ei. Kosið verður um málið á meðal kúabænda og mun niðurstaðan úr þeirri atkvæðagreiðslu ráða því hvernig trúnaðarmenn bænda verða nestaðir þegar gengið verður að samningaborðinu með ríkisvaldinu. Einnig þarf að leggja mat á það hvernig framleiðslan hefur þróast, bæði í mjólk og nautakjöti, hvaða árangur hefur náðst við útflutning mjólkurafurða og hvernig markmið samningsins hafi gengið eftir.
Hvernig þróast afurðatekjur sauðfjárbænda?
Við endurskoðun sauðfjársamnings verður fyrst og fremst horft til þess hvernig framleiðsla sauðfjárafurða og afkoma í greininni hefur þróast, hvaða árangur hefur náðst við útflutning og hvernig markmið samningsins hafi gengið eftir. Einnig skal skoða þróun í bústærð, fjölda búa eftir svæðum og fjárfjölda í landinu. Fram að fyrri endurskoðun er stefnt að því að auka útflutningstekjur af sauðfjárrækt sem leiði til þess að hlutur bænda í heildarverðmætasköpun greinarinnar aukist um 7,5% að lágmarki. Þetta miðast við óbreyttan fjárfjölda í landinu og fast verðlag. Takist það ekki skal niðurtröppun beingreiðslna endurskoðuð. Fjölgi fé í landinu yfir 10% frá gildistöku samningsins, fram til fyrri endurskoðunar árið 2019 skal endurskoða býlisstuðning, bæði fjárhæðir og þrep. Sérstaklega skal hafa í huga við þá endurskoðun að styðja við byggð alls staðar í landinu.
Hvernig mun garðyrkjunni reiða af?
Í endurskoðun á garðyrkjusamningi verður fyrst og fremst verði horft til þess hvernig framleiðsla garðyrkjuafurða hefur þróast og hvernig markmið samningsins hafa gengið eftir. Samningsaðilar munu á tímabilinu 2017–2019 greina hagkvæmni þess að taka upp uppskerutengdar greiðslur vegna útiræktaðra garðyrkjuafurða og kartaflna gegn mögulegri niðurfellingu og/eða lækkun tollverndar.
Skýr skilaboð frá atvinnuveganefnd
Til viðbótar því sem stendur í samningunum sjálfum ályktaði meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis sérstaklega um endurskoðunarákvæðin og tilgang þeirra. Nefndin telur nauðsynlegt að við endurskoðun búvörusamninga árið 2019 verði rýnt í markmið samninganna og laganna, metið hvernig til hafi tekist og eftir atvikum lagðar til breytingar með hliðsjón af því mati.
Meirihluti atvinnuveganefndar lagði til að við endurskoðun samninga 2019 lægi fyrir heildaráætlun um hlutverk landbúnaðarins í aðgerðum sem snerta loftslags- og umhverfismál. Nefndin vill skerpa á þeim atriðum í samningunum sem snúa að umhverfismálum og setja fram tölusett markmið og áfanga í þeim verkefnum. Meirihlutinn lagði áherslu á að við endurskoðunina 2019 lægju fyrir áætlanir um minni losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði, um endurheimt votlendis, um sjálfbærni beitilands og um eflingu skógræktar og uppgræðslu á vegum bænda.
Meirihluti atvinnuveganefndar lagði til að farið yrði vandlega yfir það hvernig samkeppnislög gilda um mjólkuriðnað. Einnig verði rýnt í fyrirkomulag á söfnun og dreifingu mjólkur og starfsumhverfi afurðastöðva með tilliti til staðsetningar og mikilvægis fyrir þau byggðalög sem þau starfa í. Meirihlutinn taldi nauðsynlegt að við endurskoðunina verði af hálfu ríkisins sérstaklega kannað hvernig landbúnaðarstefnan geti enn frekar ýtt undir framleiðslu afurða beint frá býli og vöruþróun sem byggist á uppruna eða landfræðilegri sérstöðu. Jafnframt taldi meirihlutinn rétt að örva og hvetja til frekari sóknar fjölbreyttari flóru fyrirtækja í frumvinnslu búvara og auk þess að huga að fyrirkomulagi og framtíð menntunar starfsmanna afurðastöðva í mjólkurfræði og kjötiðnaði.
Sérstaklega var tekið fram að við endurskoðun landbúnaðarstefnu þyrfti að huga að tengslum landbúnaðar við aðra atvinnuvegi. Vöxtur og viðgangur ferðaþjónustu hefði skapað sveitunum ný tækifæri víða um land og menningarlandslag og byggðamynstur væru mikilvægir þættir sem tengdust landbúnaði sterkum böndum.
Deilur um landbúnað engum að gagni
Að framansögðu er ljóst að næg verkefni eru fyrirliggjandi við að móta landbúnaðarstefnu til framtíðar. Sitt sýnist hverjum um það landbúnaðarkerfi sem við búum við og deilur um það hafa gert umhverfi greinarinnar mun erfiðara en ella. Það eru hreinir og klárir hagsmunir Bændasamtaka Íslands að sátt náist um íslenskan landbúnað. Þess vegna fagna þau því víðtæka samráði sem ráðist verður í á næstu þremur árum. Bændur munu ganga til þeirrar vinnu með opnum hug og ríkan vilja til sáttar.