Allt um grænmeti í opnu og aðgengilegu vefriti
Vefritið Grænmetisbókin er í vinnslu hjá Matís og verður þar fjallað um flest það sem snertir grænmeti, allt frá uppskeru til neytandans.
„Það eru mörg tækifæri í grænmetisrækt á Íslandi,“ segir Ólafur Reykdal, verkefnastjóri hjá Matís. Umtalsvert sé flutt inn af grænmeti og aukin íslensk framleiðsla myndi stuðla að bættu fæðuöryggi landsmanna.
Rannsóknir og upplýsingar í eina gátt
„Nýjar norrænar næringarráð- leggingar hvetja til aukinnar grænmetisneyslu og áhugi á vegan fæði fer vaxandi,“ heldur hann áfram. „Allmörg rannsókna- og þróunarverkefni um grænmeti hafa verið unnin hjá Matís og forverum þess á undanförnum árum en nokkuð hefur vantað upp á að hægt sé að finna aðgengilegt yfirlit um allar niðurstöðurnar. Því varð til sú hugmynd að búa til vefbók með góðu yfirliti og tengingum á ítarlegri skýringar og heimildir,“ segir hann.
Samstarfsaðilar um verkefnið eru Deild garðyrkjubænda í BÍ og Sölufélag garðyrkjumanna. Sótt var um styrk í Þróunarfé garðyrkju og fékkst hann. Viðfangsefni Matís eru matvælin frá uppskeru og alla leið á borð neytenda. Ræktunin sjálf er því undanskilin í vefbókinni.
Um það hver meginviðfangsefni vefbókarinnar verða segir Ólafur þau vera meðhöndlun grænmetis, aðgerðir til að hámarka gæði grænmetis í flutningum og við geymslu, rétt geymsluskilyrði á lager og í verslunum, hollustu íslensks grænmetis og hvernig hægt er að draga úr sóun á grænmeti.
Markmið að auka þekkingu og áhuga
„Markmið verkefnisins eru að auka þekkingu á bestu meðferð grænmetis og auka þannig gæði grænmetis á markaði og stuðla að minni sóun,“ útskýrir Ólafur. „Jafnframt er vonast til þess að áhugi neytenda aukist á íslensku grænmeti og hollustu þess.“
Samning vefbókarinnar stendur nú yfir og Ólafur segir allar ábendingar og tillögur vel þegnar en þær má senda á netfangið olafur. reykdal(hja)matis.is.
Reiknað er með að vefbókin verði aðgengileg á vefsíðu Matís í mars næstkomandi og ef til vill á fleiri vefsíðum. Vefbókin verður öllum opin.