Ár umbreytinga og innsæis
Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði þess kynngikrafts sem komandi ár ber í skauti sér. Þetta ár felur í sér trú á sjálfan sig, aðlögunarhæfni og skref áfram á nýjar slóðir. Þó við förum stundum aftur á bak eða í hring skal förinni heitið áfram. Samkvæmt kínverskum merkjum hefur nú braut sína ár Snáksins.
Snákurinn, sem táknar visku, glæsileika og dulúð er oft talinn tákn umbreytingar, innsæis og aðlögunarhæfni. Hann skiptir um ham, skilur hinn gamla eftir sem þjónar honum ekki lengur. Árið 2025 skulum við Íslendingar taka hann til fyrirmyndar og losa okkur við allt það sem er okkur ekki til góðs og taka í gagnið það sem hentar okkur heldur.
Vatnsberi
Komandi ár auðveldar vatnsberanum að glæða hugsjónir sínar eldi og hrinda þeim í framkvæmd. Mikil áhersla er lögð á að hann sé opinn fyrir nýjum uppgötvunum og sé óhræddur við að kafa djúpt innra með sér. Nýsköpun og hugrekki haldast í hendur hérna og innri styrkur nauðsynlegur til að ná langþráðum markmiðum. Andleg upplifun kemur vatnsberanum á óvart og færir honum nýja sýn á lífið. Hann ætti að nýta þessa reynslu til þess að koma jafnvægi á andlega velferð sína. Árið 2025 mun veita vatnsberanum ný tækifæri á vinnumarkaði, þar sem hæfileikar hans verða taldir ómissandi við framkvæmd stórrar ákvörðunar. Þetta er grunnur að framtíðarárangri enda árið í heild jákvætt þegar kemur að framgangi vatnsberans í starfi. Fjármálin munu styrkjast í kjölfarið og leiðin einungis upp á við ef teknar eru ábyrgar ákvarðanir. Ástarmálin verða bæði spennandi og yfirveguð, hversu sérkennilega sem það kann að hljóma. Þeir vatnsberar sem eru í sambandi sjá nýja fleti á sínum heittelskaða sem kveikir í þeim og finna enn fremur fyrir trausti og ró. Einhleypir vatnsberar hins vegar þurfa að opna hjarta sitt ef þeim á að verða eitthvað ágengt en vera viss um að framhaldið sé í samræmi við eigin þarfir.
Fiskur
Fiskurinn ætti að nýta fyrstu mánuði ársins til að skoða nýja fjárfestingarmöguleika og hvernig verkefni utan vinnu geta orðið stærri hluti lífs hans. Ný tækifæri, ábyrgð og þekking eru lykilorðin hérna auk þess sem fiskurinn er hvattur til þess að halda ró sinni ef vel á að fara. Stórar ákvarðanir tengdar tilfinningalegri reynslu koma upp á yfirborðið og þarfnast lausnar. Þetta verður ár þar sem fiskurinn tekur á nýjum verkefnum og veldur meiri ábyrgð. Hann þarf að hafa í huga að þó nú sé tími til að treysta á innsæið er traust á aðra einnig mikilvægur þáttur. Þetta ár krefst þess nefnilega að fiskurinn skipuleggi nánustu framtíð með mun meiri skýrleika en áður og nú er bara að rífa upp blað og penna og hugsa stíft. Andlega heilsubót þarf að hafa í forgrunni og þarf fiskurinn að þróa dýpri skilning á sjálfum sér. Kafa djúpt og vinna úr sársaukafullum málefnum. Fyrirgefa sjálfum sér og fyrirgefa öðrum. Biðjast fyrirgefningar á þeim málum sem hafa plagað hann og hann þarfnast lausnar á. Það mun losa um heilmargt. Þegar kemur að málum hjartans er fiskurinn að ganga inn í tímabil sem snertir hann djúpt. Þeir sem eru í sambandi munu dýpka tengslin og sameiginlegar ákvarðanir verða afdrifaríkar. Einhleypir fiskar munu svo kynnast ást sem byggir á djúpum tilfinningum og tengslum sem aldrei fyrr. Einhverjir kynnast manneskju sem kemur þeim virkilega á óvart en kenna fisknum ýmislegt um sjálfan sig.
Hrútur
Árið 2025 verður fyrir hrútana ár þróunar, sérstaklega í tengslum við vinnu og persónulegan vöxt. Ný tækifæri eru á hverju strái sem hann er hvattur til að grípa eftir bestu getu, óhræddur við útkomuna. Heilt yfir verður hrúturinn bæði sjálfstæðari og öruggari á nýju ári en nokkurn tíma áður. Gott er að nýta orkuna til að hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem hafa legið ofan í skúffu, en hrútnum er mikilvægt að hafa í huga að hann verður að vera á góðum stað innra með sér áður en hann hefst handa. Það er nokkuð áhugavert hversu mikill andlegur vöxtur verður hjá hrútum á komandi ári, sérstaklega þegar kemur að sjálfinu og hvernig hann tæklar átök og nýjar áskoranir. Þetta er ár dýpri skilningar á eigin þörfum, en sú þekking mun koma sér vel þegar það kemur að því að bæta tengslin við aðra. Rétt er að bæta fyrir gömul brot. Þegar kemur að atvinnumálunum mun hrúturinn hljóta aukna ábyrgð og í framhaldinu tekur hann stór skref fram á við, mögulega ákvörðun um einhvers konar breytingu á starfsferlinum. Ástin er svolítið upp og niður, enda eru hæðir og lægðir alls staðar í lífinu. Hrútar í sambandi geta átt von á því að fara í gegnum einhvers konar þolraun og þá er mikilvægt að traust og skilningur sé hafður í fyrirrúmi. Einhleypir hrútar eiga það til að vera svolítið áhrifagjarnir og verða að muna að hægja aðeins á sér. Ástin gæti birst þar sem þeir eiga síst á von ...
Naut
Nú er komið að því að nautið taki ábyrgð á eigin vexti og velferð. Of margir í nautsmerkinu eru sérhlífnir að eðlisfari en nú er virkilega kominn tími til að standa á lappir. Stöðugleiki, skýr stefna og ákvarðanir eru allt möguleikar sem hanga í loftinu og nautinu munu bjóðast alls kyns ný tækifæri ef það heldur rétt á spöðunum, hvort sem er í vinnu eða einkalífi. Nautið er einnig hvatt til þess, enn eina ferðina, að hreyfa sig og huga að eigin heilsu ... svona í alvörunni. Komandi ár kallar á það að skoða hvernig það getur orðið betri útgáfa af sjálfu sér. Með það í huga getur nautið þurft að takast á við alls kyns tilfinningar og áskoranir, en með sjálfstrausti og þrautseigju má nýta þær til að öðlast meiri andlegan styrk. Fjárhagslegur stöðugleiki verður í fyrirrúmi og peningarnir streyma inn jafnt og þétt. Ný verkefni eða atvinna geta skotið upp kollinum og rétt að grípa það sem þykir ákjósanlegt. Nautið þarf þó að gæta jafnvægis á öllum vígstöðvum svo undirstöðurnar haldist. Þegar kemur að ástarsamböndum þarf nautið að muna að það megi stundum setja í fimmta gír svona til gamans. Sambönd munu styrkjast og fá nýja dýpt á árinu, markmiðasetning er pörum góð og gefur aukinn stöðugleika. Einhleyp naut ættu að vera opin fyrir nýjum möguleikum sem munu koma á óvart og veita þeim varanleg tengsl.
Tvíburi
Nú er að ganga í garð ár sem krefst þess að tvíburinn nýti innsæi sitt og er því hvattur til að skoða nýjar leiðir í lífinu. Honum getur fundist hann vera að stíga inn í óvissu, en þarf að hafa í huga að þetta ár mun styrkja persónulegan þroska hans og kynna honum ný sjónarmið. Þetta er ár sem býður upp á miklar breytingar fyrir tvíburann ef hann er opinn fyrir því. Þegar kemur að atvinnumálunum opnast tækifæri til að nýta hæfileika tvíburans á annan hátt en áður – ef hann er tilbúinn til að aðlagast breytingum og fara út fyrir þægindarammann. Innri vöxtur er öllum hollur, ekki síst tvíburanum sem ætti að æfa sig á því að líta inn á við aðeins oftar og stilla hugann. Hann má þó ekki glata þeirri ástríðu sem býr innra með honum en þarf þó að kunna að beina þeim tilfinningum í réttar áttir. Tvíburinn getur tekið gleði sína því ýmsar dyr munu opnast honum á komandi ári auk þess sem hann fær viðurkenningu á því að hann sé á réttri leið. Ástarmálin ganga í gegnum breytingar sem valda bæði spennu og stressi en það er lítið hægt að gera í þeim málum nema að sleppa tökunum. Þarna er lykilatriðið að finna jafnvægi milli tveggja aðila og með góðum og rólegum samræðum mun það ganga eftir. Einhleypir tvíburar geta átt von á því að ástvinur úr fortíðinni leiti þá uppi en þeir ættu þá að einbeita sér að kynnast manneskjunni á nýjan hátt.
Krabbi
Árið 2025 er árið sem krabbinn ætti að að staldra við og kanna tilfinningar sínar á öllum vígstöðvum. Nú er að hefjast tímabil þar sem hann verður að hugsa meira um sjálfan sig og innri líðan – en einnig hvernig hann getur tengst öðrum betur með því að sleppa tökunum. Þetta ár krefst þess að krabbinn taki ábyrgð á þeim þáttum sem hann hefur stjórn á, viti hvað hann vill sjálfur vinna með í sínu lífi og gæti þess að leyfa fjölskyldu og ástvinum að vera enn mikilvægari í sínu lífi. Krabbar ættu að einbeita sér að persónulegri heilsubót og fara í gegnum andleg ferðalög sem tengjast fortíðinni. Þetta ár er gott til að vinna úr gömlum og erfiðum sársauka sem hefur áður hamlað honum. Krabbar munu þurfa að taka ákvörðun hvert þeir virkilega vilja stefna í lífinu. Hver eru næstu skref og hvort þeir séu á réttri hillu. Atvinnumálin eru á góðu róli og getur krabbinn nýtt hæfileika sína til þess að takast á við meiri ábyrgð. En hann þarf líka að spyrja sjálfan sig hvort hvort hann vilji meiri ábyrgð eða aftur – hvert hann stefnir í lífinu. Ástin mun krefjast þess af krabbanum að hann taki afdrifaríkar ákvarðanir í samböndum. Opni sig meira og leyfi tilfinningum að flæða með það fyrir augum að heiðarleiki og traust sé algert. Einhleypir krabbar munu eiga von á góðu síðla árs í óvæntum kringumstæðum og eru beðnir að hafa í huga láta ekki ótta við breytingar stoppa sig. Frjósemi er í kortunum.
Ljón
Komandi ár leyfir ljóninu að láta ljós sitt skína sem aldrei fyrr, en það mun hafa veruleg áhrif til góðs, sér örlítið að óvörum. Þetta verður ár þar sem ljónið getur náð mikilvægum áföngum í bæði atvinnu og persónulegu lífi, sérstaklega þegar það nýtir styrkleika sína við að leiða aðra. Að sama skapi er þetta ár þar sem ljónið tekur á
móti nýjum verkefnum og ábyrgð, en nýtir einnig tækifærin sem eru við hendi. Árið 2025 mun krefjast mikils vinnuframlags, sem leyfir ljóninu að opna nýjar dyr, auka tekjur sínar eða bæta stöðu sína í atvinnulífinu. Árið er því mjög í hag, spennandi og fullt af möguleikum. Árið 2025 verður einnig ár sjálfsþekkingar og verður ljónið að viðurkenna fyrir sjálfum sér hversu mikil áhrif það hefur á umhverfi sitt, bæði til góðs og miður góðs. Ljónið verður að taka í sátt bæði sína eigin styrkleika og veikleika og nýta þá á jákvæðan hátt auk þess að sýna ýtrasta heiðarleika við sína nánustu. Hreinskilni og fyrirgefning ættu að vera ljóninu ofarlega í huga yfir næstu mánuði enda öllum gott að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ástarmálin koma sterk til leiks með óvæntar tilfinningar og breytingar í kjölfarið. Styrking tengsla er í forgrunni og einhleyp ljón ættu að hafa heppnina með sér þegar fer að vora – svona ef þau eru í makaleit. Ljónið er þó sátt með sjálfu sér, sáttara en oft áður og ætti að nota tímann til að hlúa að sjálfu sér.
Meyja
Meyjan þarf nú í byrjun árs að leggja sjálfri sér línurnar því við tekur árangurstengd vinna, bæði á vinnustað og í einkalífi. Mikilvægt verður að hafa þolinmæði og útsjónarsemi að sjónarmiði ef vel á að takast til því þetta verður ár endurskipulagningar og aðlögunar í mörgum þáttum lífsins. Á árinu 2025 mun meyjunni gefast ný tækifæri á vinnumarkaðnum, sem krefjast þess að hún sé tilbúin að leggja hart að sér. Þetta verður í kjölfarið einnig ár bættrar fjárhagsstöðu og upphaf ýmissa nýrra verkefna sem henta betur styrkleikum hennar. Fyrir þær meyjur sem eru við nám verður 2025 þeim mjög árangursríkt. Eitthvað þarf meyjan að stíga út fyrir þægindarammann yfir árið og þarf að gæta þess að innri ró ríki við þær aðstæður. Hvíld er meyjunni alltaf kostur og ætti hún að reyna til hins ýtrasta að hvílast meira en hún gerir nú. Ástarmálin verða eitthvað rokkandi og krefjast þess að meyjan geri sitt til þess að jafnvægi verði að minnsta kosti innra með henni. Það er mikilvægt að hún sé opin fyrir breytingum og festist ekki í smáatriðunum. Þetta á við bæði þær meyjur sem eru í samböndum og þær einhleypu. Óvæntur snúningur verður hjá mörgum meyjum í lok árs sem kemur skemmtilega á óvart.
Vog
Nú gengur í garð mikilvægur tími í lífi vogarinnar þegar kemur að samskiptum og þeim tengslum sem er verið að byggja upp. Þetta er eitt stærsta tímabil í lífi vogarinnar hvað varðar sambönd til framtíðar og því mikilvægt að vanda valið vel á sínum samferðamönnum. Jafnvægi eykst á milli vinnu og félagslífs og ætti vogin að velta fyrir sér þeim möguleika að vera tilbúnari að hlusta á aðra og nýta þá sinn dýpri skilning til eigin þarfa. Hæfileikar sem tengjast samvinnu og samspili við aðra er í forgrunni á nýju ári. Öll tengsl sem viðkoma nýjum verkefnum eða vinnusamböndum, styrkjast og ýta undir áframhaldandi árangur. Betra jafnvægi verður í fjármálum en oft áður, þar sem aukinn stöðugleiki er í kortunum. Ástin spilar einnig stórt hlutverk hjá voginni árið 2025. Hún ætti að leggja áherslu á að efla sambönd, bæði ástar og vináttu, en eins og fram hefur komið er þetta ár, ár tengsla hjá voginni. Aukin tengslamyndum getur leitt til ástarsambanda í einhverjum tilvikum og munu þau sambönd byggjast upp á sterkum grunni. Þær vogir sem eru nú þegar í sambandi gætu þurft að ganga í gegnum ákveðna endurskoðun, sem mun veita meiri dýpt og innri samhljóm. 2025 er ár þar sem vogin ætti að nýta innsæi sitt og andlega getu til að sjá hvaða þarfir eru henni mikilvægar í lífinu. Nú er tíminn til að losa sig við allt yfirborðslegt og skoða raunverulegar tilfinningar og tengsl. Vogin verður að hlusta betur á innri rödd sína og tryggja að hún sé á réttri braut til að finna innri frið.
Sporðdreki
Árið 2025 er sérstaklega spennandi fyrir sporðdrekann, þar sem mikil breyting og nýjar áherslur munu lita næstu mánuði. Hann mun þurfa að takast á við mikilvægar ákvarðanir sem tengjast bæði persónulegum og fjárhagslegum málefnum, stíga út úr þægindarammanum og næra sjálfan sig á annan hátt en áður. Þetta er ár nýrra tækifæra hjá sporðdrekanum og því þarf hann að vera tilbúinn til að breyta því sem ekki hefur virkað hingað til. Sporðdrekanum þykir oft of mikils krafist af sér í vinnunni en þeir sporðdrekar sem kjósa að standa undir meiri ábyrgð hljóta mikinn ávinning. Þetta er árið sem verður þeim til láns á framabrautinni. Fjármálin verða heldur óljós í byrjun árs en fjárhagslegur vöxtur helst í hendur við stöðugleika og framsækni. Ástarmálin munu krefjast mikils hugrekkis. Fyrir þá sporðdreka sem eru í sambandi, þá er árið 2025 árið til að vinna með djúpar tilfinningar sem hafa verið bældar niður og byggja í kjölfarið upp meira traust. Lítið verður um að vera hjá einhleypum sporðdrekum sem ættu að nota næstu mánuði til þess að vinna í sjálfum sér. Eitthvað verður þó um að örvar Amors skjóti þá í rassinn og neyði þá til að opna hjarta sitt – jafnvel þótt það sé óþægilegt. Þetta verður ár sem kallar á miklar breytingar. Sporðdrekinn þarf að skoða fortíðina, læra af henni og nýta sér til framdráttar. Þróa nýjan skilning á eigin tilfinningum og hvernig þær móta líf hans.
Bogmaður
Komandi ár verður bogmanninum aðeins erfiðara en það sem er að ljúka en mun þó verða honum til góðs. Árið veitir honum mikilvæga innsýn í persónulegan vöxt og skilning á hvers hann er megnugur. Miklar breytingar eru í kortunum og þótt þær séu örlítið ógnvekjandi opna þær þó dyr tækifæra, ástríðu og nýrra hugmynda. Mikilvægt er að bogmaðurinn fylgi hjarta sínu en hafi einnig þolinmæði til að takast á við þau verkefni sem eru í vændum. Árið 2025 kallar á nýjar hugmyndir og framþróun á vinnustað. Ef bogmanninum þykir vinnuumhverfi sitt ekki lengur nægilega gefandi, getur hann þurft að taka róttæka ákvörðun til breytinga, helst ekki síðar en á fjórða mánuði ársins. Þetta getur valdið honum óstöðugleika í fjármálum sem má halda í skefjum með varkárni og góðri ráðgjöf. Bogmaðurinn ætti heilt yfir að einbeita sér að persónulegri velferð sinni og innri vexti. Rýna í það sem hefur ekki fengið að komast upp á yfirborðið og þróa með sér nýja hugsun og skilning. Þetta mun verða honum til góðs bæði í einkalífi og almennum samskiptum. Lítil lognmolla verður í ástarmálum bogmannsins þó að það sé á jákvæðari nótum en margt annað á árinu. Heitar tilfinningar verða allsráðandi og þeir bogmenn sem eru í sambandi munu þurfa að endurskoða ásamt maka sínum hvað framtíðin ætlar þeim. Einhleypir bogmenn verða að vera opnir fyrir nýjum tækifærum, en ekki er mælt með því að stofna of geyst til nýrra sambanda. Mikil frjósemi er í loftinu og því vert að gæta þess að sýna ábyrgð.
Steingeit
Árið 2025 krefst þess að steingeitin skoði styrk sinn og hvernig hún getur lagt meira af mörkum til að styrkja sinn innri kjarna í stað þess að hjakka í hjólfari vonleysis. Þetta er ár til að byggja upp sjálfsmyndina, vinna með gamlan sársauka og reyna að rífa ofan af öllum sárum. Þau gróa. Í kjölfarið verður framtíðin bjartari og aukin áhersla á sjálfsvitund og sjálfstæði munu verða steingeitinni til góðs. Stórar ákvarðanir þarf að taka á árinu hvað varða persónulega þætti, ný markmið eru við sjóndeildarhringinn og vinna þarf að langvarandi áformum. Steingeitin er eitt þeirra merkja sem þarf hvað helst að vinna í sjálfri sér þetta árið en hún þarf þó einnig að gæta þess að hvílast reglulega og sinna persónulegum þörfum. Álag verður í vinnu fyrri hluta árs, en aukinn stöðugleiki ýtir undir langtímamarkmið og gefur nýja möguleika á að bæta fjárhagslega stöðu steingeitarinnar. Töfrar ástarinnar láta ekki steingeitina ósnortna og mun hún öllum að óvörum taka einhver skref sem hún hefði sjálf ekki getað séð fyrir. Traust og staðfesting á tengslum eru lykilorðin hérna bæði fyrir þá sem eru í sambandi og þær steingeitur sem eru einhleypar ættu að vera opnar fyrir örvum ástarinnar á óvæntum stöðum. Árið verður jákvætt í heild sinni svo framarlega sem hvíld, vinna í sjálfinu og vinnuframlag hafa jafnt vægi á vogarskálunum.
Naðurvaldi
Stjörnufræðingar víða um heim, bæði hjá NASA og eins og lesa má á vefsíðu Stjörnufræðivefsins, vilja meina að í raun séu stjörnumerkin þrettán. Kemur það til vegna stöðu mönduls jarðar, eða pólveltunnar sem tekur um 26.000 ár og því eru stjörnumerkin sem sjá má á himni ekki lengur á sama stað og fyrir þúsundum ára. Upphaflega höfðu Babýlóníumenn stjörnumerkin þrettán talsins og var naðurvaldi, stjörnumerki á miðbaug himins, eitt þeirra. Myndgerð naðurvalda er maður haldandi á höggormi, samanber grísku goðsögnina um guðinn og lækninn Asklepíos. Er naðurvaldi ríkjandi frá 30. nóvember til 17. desember, þekktur fyrir eigingirni og öfundsýki, en einnig er hann litríkur og skemmtilegur persónuleiki auk þess að vera afar vel gáfum gæddur. Ef honum væri úthlutað varanlegt sæti meðal merkjanna myndu sæti hinna skarast sem svo svarar; Vatnsberi 16. febrúar til 12. mars, Fiskar 12. mars til 18. apríl, Hrútur 18. apríl til 14. maí, Naut 14. maí til 21. júní Tvíburi 21. júní til 20. júlí, Krabbi 20. júlí til 10. ágúst, Ljón 10. ágúst til 16. september, Meyja 16. september til 31. október, Vog 31. október til 23. nóvember, Sporðdreki 23. nóvember til 29. nóvember, Naðurvaldi 29. nóvember til 18. desember, Bogmaður 18. desember til 19. janúar, Steingeit 19. janúar til 16. febrúar. Eins og kemur hér glögglega fram eru tímatöl stjörnumerkjanna þrettán ekki jöfn að lengd, líkt og þau tólf sem nú ríkja – en í þeim virðist sólin ríkja um mánuð í senn.