Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sunna Hrafnsdóttir með nýjar gulrætur.
Sunna Hrafnsdóttir með nýjar gulrætur.
Mynd / úr einkasafni
Líf og starf 22. október 2019

Byggja upp lífrænt vottað garðyrkjubýli í Hörgársveit

Höfundur: smh
Í undanförnum tölublöðum Bændablaðsins hefur verið fjallað um aðlögunarstyrki fyrir lífræna framleiðsluhætti sem Búnaðarstofa Matvælastofnunar úthlutar ár hvert. Mæðgurnar Nanna Stefánsdóttir og Sunna Hrafnsdóttir stýra garðyrkjunni á Ósi í Hörgársveit, en þær hafa tvisvar fengið úthlutað styrkjum til aðlögunar og hafa nýlega fengið sitt land vottað.
 
Þær hafa einnig fyrst um sinn veðjað á ræktun lífrænt vottaðra gulróta – í það minnsta til að byrja með. Þær hafa lengi dreymt um að geta stundað lífræna ræktun á landi sínu og aðlögunarstyrkirnir hafa gert þeim það kleift.
 
Í síðasta blaði var sagt frá Elínborgu Erlu Ásgeirsdóttur sem keypti eyðijörðina Breiðargerði þar sem hún hefur hreiðrað um sig til framtíðar með lífræna útiræktun grænmetis – og einnig fyrst um sinn með gulrætur. 
 
Vandlega valin jörð til ræktunarinnar
 
„Við keyptum jörðina Ós í Hörgár­sveit haustið 2016. Við vorum búin að leita okkur að jörð í ákveðinni fjarlægð frá Akureyri í nokkur ár. Við vorum með viss skilyrði til ræktunar í huga eins og sólargang, ræktunarland og frosthættu en þessi staður hentaði vel. Hér er þó vindasamt þannig að við byrjuðum strax í skjólbeltarækt,“ segir skrúð­garðyrkju­meistarinn Nanna, sem býr á Ósi ásamt dóttur sinni, manni hennar, Andra Sigurjónssyni, og sonum þeirra, Breka og Emil.
 
„Ég hef unnið við garðyrkju í meira en 30 ár. Sunna útskrifaðist úr garðyrkjuskólanum vorið 2018 af lífrænni braut skólans. Við vorum búin að hugsa um þessa lífrænu ræktun í mörg ár og ég hef alltaf gengið með þennan draum í maganum. Til að mynda er til á heimilinu fyrsta reglu­bókin sem Tún gaf út. Ég hef mikla reynslu af margs konar ræktun og Sunna hefur lengi verið með mér í ýmiss konar garðyrkju, en Andri starfar sem smiður,“ segir Nanna. 
 
Nýr heimur opnaðist í náminu í lífrænni ræktun
 
Sunna ákvað að drífa sig í garðyrkjuskólann eftir að hafa klárað háskólanám en hún fann sig ekki á þeirri braut. Hún segir að hún hafi fundið að garðyrkjan togaði sífellt meira í sig og þegar hún sá nám í lífrænni ræktun matjurta auglýsta lét hún slag standa og skellti sér í nám við skólann. „Námið tók tvö ár og þar opnaðist alveg nýr heimur, skólinn er algjörlega frábær staður. Þar höfðum við kennara sem hafa stundað lífræna ræktun lengi og eru hafsjór af þekkingu.
 
Samfélag lífrænna ræktenda er lítið á Íslandi en ég kynntist mörgum þeirra í gegnum námið. Það voru allir tilbúnir að deila sinni reynslu og hjálpa nýjum ræktendum. Eitt af því sem er erfitt við lífrænu ræktunina er að það er erfitt að afla sér þekkingar eins og til dæmis á netinu. Eins sorglegt og það nú er, þá eru lífrænir bændur fáir á Íslandi og lítið til af rannsóknum í greininni,“ segir Sunna.
 
„Við höfum nýtt tímann vel á meðan jörðin var í lífrænni aðlögun að byggja upp landið okkar og aðstöðu fyrir ræktunina. Það kemur sér vel að Andri er smiður og höfum við byggt mikið síðan við keyptum jörðina. Búið er að byggja 100 fm gróðurhús og einnig er búið að innrétta stóran bragga sem mun nýtast undir grænmetis­vinnsluna. Í bragganum verður pökkunar- og kaffiaðstaða ásamt vinnsluherbergi þar sem hægt verður að vinna áfram vörur eins og þær sem lenda í öðrum flokki.
 
 
Komin lengra en ella vegna styrkjanna
 
Garðyrkjustöðin Sólbakki hefur lokið tveggja ára aðlögun og því forvitnilegt að vita hvernig umsóknar- og aðlögunarferlið hafi gengið fyrir sig – hvort því hafi til dæmis fylgt mikil skriffinnska. 
 
„Aðlögunarferlið er tvö ár og því fylgir töluverð skriffinnska en ekkert sem við teljum vera mjög flókið,“ segir Sunna. „Við fáum reglulega úttektaraðila frá Tún sem tekur út okkar starfsemi og passar að við fylgjum settum reglum. Fremur strangt eftirlit er með lífrænum ræktendum en við teljum það vera af hinu góða og hægt er að treysta því að vörur sem eru vottaðar lífrænar séu ræktaðar eftir skilyrðum lífrænnar ræktunar.Við sóttum um lífrænan aðlögunar­styrk en þann styrk er hægt að sækja um á meðan aðlögun stendur yfir. Þessi styrkur breytti mjög miklu fyrir okkur og hefur gert það að verkum að við erum komin lengra af stað með okkar starfsemi en til stóð á þessum tímapunkti,“ útskýrir hún.
 
Kláruðu aðlögun í maí
 
„Við vorum alltaf með skýra stefnu um að fara í lífræna ræktun og sóttum því um að byrja í lífrænni aðlögun fljótlega eftir að við keyptum og við kláruðum tveggja ára aðlögunar­ferlið núna í maí. Við byrjuðum strax að undirbúa okkar land undir ræktunina, byrjuðum að plægja og sá höfrum sem við tættum niður árið eftir og nú í sumar fóru gulrætur í það land. Jarðvegurinn kom mjög vel út í ræktun í sumar. Við hugsum mörg ár fram í tímann með tilliti til þess að stunda skilvirka skiptirækt,“ segir Sunna. 
 
Hún bendir á að það sé bæði fyrirhöfn og það kosti auk þess talsvert að koma sér upp góðum lífrænum jarðvegi. „Lífræn ræktun er dýrari og tíma­frekari en hefðbundin ræktun. Kostnaður vegna frækaupa og lífrænna áburðar­gjafa eru dýrari og töluverður kostnaður fer í vottunar­gjöld. Oftast þarf að hafa meira ræktunarland vegna mikillar skiptiræktunar til að tryggja frjósemi jarðvegsins. Mestur tími fer þó í illgresiseyðingu þegar engin eiturefni eru notuð. Við höfum fengið ómetanlega aðstoð frá vinum og vandamönnum í allri okkar vinnu.
 
Sumarið 2018 seldum við frá okkur smávegis af grænmeti, þá aðallega gulrótum, um 250 kíló. Nú í vor ákváðum við að stækka töluvert og sáðum gulrótum í tæpan hektara. Núna í byrjun október er búið að taka upp um sex tonn en enn er mikið eftir. Við seljum okkar vörur undir vörumerkinu Garðyrkjustöðin Sólbakki og eru þær seldar í nokkrum Samkaup-búðum í Eyjafirði.
 
Mikil eftirspurn eftir lífrænt vottuðu grænmeti
 
Þær mæður segja að þær horfi fram á að geta unnið eingöngu við grænmetisræktunina í framtíð­inni. „Við höfum rekið skrúð­garðyrkju­fyrirtæki á Akureyri í 10 ár og höfum unnið við það með­fram grænmetis­ræktuninni alveg þangað til núna í lok sumars. Við stefnum á að geta skapað okkur nægar tekjur til að geta unnið alfarið við grænmetisræktunina, alla vega við mæðgur,“ segir Sunna. „Við ætlum að nýta gróður­húsið okkar betur og forrækta í því í vor og fjölga tegundum. Við ætlum einnig að rækta í smáum skala, kartöflur og rófur úti.
 
Við höfum fengið gríðarlega góð viðbrögð við gulrótunum okkar sem er virkilega skemmtilegt. Við erum spenntar að halda áfram að framleiða gæðavörur og við finnum fyrir því að viðhorf neytenda er að breytast. Fólk hugsar sífellt meira um hvernig vörur eru framleiddar og mikil eftirspurn er eftir íslensku lífrænt vottuðu grænmeti.“
 
Nanna og Andri á gulrótarakrinum.

5 myndir:

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...