Dagur sauðkindarinnar
Það verður mikið um að vera í reiðhöllinni Skeiðavangi á Hvolsvelli laugardaginn 14. október á „Degi sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu“ á vegum Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu.
Fjáreigendur milli Þjórsár og Markarfljóts mega mæta með fé til sýningar en dómar byrja klukkan 10 og sýningin sjálf klukkan 13.
Verðlaun verða veitt fyrir besta hyrnda lambhrútinn, besta kollótta lambhrútinn, bestu kollóttu gimbrin og bestu hyrndu gimbrina. Einnig verða verðlaun fyrir besta veturgamla hrútinn úr kynbótamati ársins 2022 og bestu fimm vetra ána úr kynbótamati ársins 2022.
Auk þess verður ræktunarbú ársins 2022 verðlaunað og sérstök verðlaun verða fyrir þykkasta bakvöðva sýningarinnar. Áhorfendur fá síðan að velja litfegurstu gimbrina úr lömbum sem taka þátt í litasamkeppni dagsins. SS styrkir sýninguna með því að gefa gestum kjötsúpu.