Erfitt að vera „lífrænn neytandi“ á Íslandi
Tónlistarkonan og kvikmyndaframleiðandinn Anna María Björnsdóttir vinnur nú að gerð heimildarmyndar um lífræna matvælaframleiðslu.
Viðfangsefnið er meðal annars að kanna hvers vegna aðgengi að lífrænt vottuðum vörum er svona miklu minna hér á landi en í flestum nágrannalöndum okkar. Anna María segir að rætur heimildarmyndarinnar nái í raun aftur til ára sinna í Danmörku þar sem hún bjó í tíu ár.
Vöruskortur á Íslandi
„Maðurinn minn, Jesper Pedersen, er alinn upp á lífrænum bóndabæ á Jótlandi í Danmörku. Ég fór ekkert að pæla í lífrænum mat fyrr en ég kynnist honum og fer að heyra um þetta og sjá hvernig tengdaforeldrar mínir voru að vinna sem lífrænir bændur og hugsjón þeirra fyrir að rækta lífrænt,“ segir Anna María, spurð um þennan áhuga á lífrænni matvælaframleiðslu.
„Ég fór sjálf að borða lífrænt þegar ég varð ólétt í fyrsta sinn vegna umræðunnar í Danmörku um lífrænt fæði fyrir óléttar konur til að forðast eiturefnaleifar í mat. Svo flytjum við Jesper til Íslands fyrir þremur árum síðan með börnin okkar þá tvö – sem eru orðin þrjú núna – og þá fer ég raunverulega að kynna mér þetta þar sem það var svo erfitt að vera lífrænn neytandi á Íslandi. Það var í rauninni skorturinn á vörunum í búðunum sem vakti mig til umhugsunar um þetta. En einnig lítil vitund, lítil umræða um lífrænan mat og lífræna ræktun á Íslandi miðað við Danmörku. Börnin mín fengu lífrænan mat á leikskólum í Danmörku en það er ekkert verið að ræða það eða leggja áherslu á það hér.
Eftir nokkra mánuði var þetta farið að fylla huga minn mjög mikið og ég enda á að segja upp vinnu sem ég var í og byrja að kafa ofan í þetta efni. Mig langaði að skilja hvaða máli þetta skipti, af hverju væri svona mikil áhersla á þetta annars staðar en svona lítil hér á landi. Ég fer því af stað í leiðangur að kynna mér þetta betur.“
Móðir spyr spurninga
Í heimildarmyndinni er lagt upp með að málin séu skoðuð frá öllum hliðum. „Við heimsækjum bændur og sérfræðinga hér heima og erlendis og reynum að varpa ljósi á ákveðna hluti matvælaframleiðslu í heiminum í dag sem fæst okkar áttum okkur á,“ segir Anna María.„En þessi saga er sögð út frá mér sem móður sem í grunninn er að spyrja mig þeirrar spurningar hvaða máli það skiptir að börnin mín fái lífrænan mat. Þetta er í rauninni mitt ferðalag í gegnum þetta ferli að kynna mér þetta efni betur og skilja það. Það er ýmislegt sem kemur upp á leiðinni og eitthvað af því mun rata í myndina. Ferlið hefur verið alls konar – það er auðvitað áskorun að gera svona mynd – og barneignir verið að tefja aðeins fyrir líka.
Svo er það alltaf þessi gagnrýna hugsun á efnið, vera inni í efninu en standa líka fyrir utan það gagnrýnum augum. En engar heimildarmyndir eru fullkomlega hlutlausar. Þetta er mín saga og mitt sjónarhorn á efnið sem neytanda og móður, sem mun auðvitað koma fram í myndinni.“
Að sögn Önnu Maríu verður myndin sýnd í Sjónvarpi Símans, vonandi á þessu ári. „Myndin fór í gegnum hópfjármögnun árið 2021 og við fundum fyrir miklum áhuga á verkefninu víðs vegar úr samfélaginu. Við erum að vinna í síðasta hluta fjármögnunar á myndinni til að vita nákvæmlega hvenær við getum frumsýnt.“
Verkefnið er að auka lífræna matvælaframleiðslu
Anna María fór nýlega að vinna verkefni fyrir Lífrænt Ísland, sem er samstarfsverkefni félagsins VOR – Verndun og ræktun, Bændasamtaka Íslands og matvælaráðuneytisins, sem hefur það markmið að auka lífræna matvælaframleiðslu á Íslandi en hún hefur einnig haldið úti sínum eigin vef (lifraentlif.is) síðan 2021 þar sem hún hefur deilt fróðleik um lífræna ræktun og lífrænan mat sem hún hefur viðað að sér í ferlinu.
Anna María er leikstjóri og framleiðandi myndarinnar og Tumi Bjartur Valdimarsson er framleiðandi og jafnframt klippari myndarinnar.