Fimm tvíkeflingar á ári
Þetta eru kvígurnar Dröfn og Díla frá Laxamýri í Suður- Þingeyjarsýslu.
„Þær voru komnar í heiminn að morgni 10. júní þegar fólk kom í fjós og eru fimmtu tvíkelfingarnir á árinu,“ segir Atli Vigfússon, bóndi á Laxamýri, aðspurður um þessa litfögru tvíkelfinga.
Móðir Dröfn og Dílu heitir Medúsa og er út af Núma nr.16038 frá Gaulverjabæ. Faðirinn heitir Hjörtur frá Hjartarstöðum á Héraði og er sonur Ýmis nr.13051 frá Klauf í Eyjafirði. Kvígurnar eru verðandi mjólkurkýr og hafa verið settar á í þeim tilgangi.
Á Laxamýri er blandað bú með 85 nautgripum í fjósi, þar af rúmlega 40 kýr. „Við sem búum hér á bænum höfum mikinn áhuga á litaflóru íslenska kúastofnsins og þar er sægrátt og grátt í uppáhaldi. Það er að vísu erfitt í ræktun því gráu litirnir eru víkjandi litir en stundum koma kýrnar skemmtilega á óvart með fallegum litarafbrigðum,“ segir Atli alsæll.