Fjölskyldufyrirtæki með 149 ára sögu að baki
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Austurríski landbúnaðartækjaframleiðandinn og fjölskyldufyrirtækið Pöttinger hefur kynnt Kraftvélar sem nýjan umboðsaðila Pöttinger á Íslandi. Þetta þykja nokkuð stórar fréttir fyrir íslenskan landbúnað enda hafa Pöttinger vélarnar verið mjög vinsælar hér á landi í mörg ár.
Pöttinger Landtechnik GmbH, hefur verið stýrt af fjórðu kynslóð Pöttinger fjölskyldunnar síðan 1991. Fyrirtækið var þó upphaflega stofnað af Franz Pöttinger í Grieskirchen árið 1871 og hefur alla tíð snúist að meira eða minna leyti um landbúnaðartæki. Sonur hans, Alois Pöttinger, tók við rekstrinum 1909. Þriðja kynslóðin, Hans og Heinz Pöttinger, tók síðan við stjórninni 1956. Fyrirtækið tók yfir rekstur á bæversku plógaverksmiðjunni árið 1975. Stjórnarskipti urðu síðan 1991 þegar fjórða kynslóð Pöttingersona, þeir Klaus og Heinz Pöttinger, tóku við rekstrinum.
Pöttinger rúllubaggavélar.
Leiðandi á alþjóðlega vísu
Fyrirtækið hefur verið leiðandi á alþjóðlega vísu og framleiðir bæði vélbúnað til margvíslegra nota í landbúnaði (jarð- og heyvinnslu) og háþróaðar tölvustýringar til nota í jarðrækt. Stjórnendur fyrirtækisins leggja áherslu á gæði, skilvirkni, hagkvæmni alls búnaðar til að auka sjálfbærni í landbúnaði. Þá eru umhverfimál líka ofarlega í huga stjórnenda. Hefur fyrirtækið sérhæft sig í smíði sáningartækja og í alhliða nýtingu á graslandi.
Sala fyrirtækisins nemur um 450 milljónum evra á ári. Um 90% af sölu Pöttinger fer til útflutnings og um 10% á innanlandsmarkað. Megin markaður fyrir tækjabúnað Pöttinger er í Evrópu og þar er salan mest í Þýskalandi, eða um 20%, og um 16% í Frakklandi. Þá fer um 6% sölunnar til Bandaríkjanna og annarra landa utan Evrópu.
Novacat Apha Motion Pro sláttuvélin frá Pöttinger var valin heyvinnsluvél ársins 2020 á landbúnaðartækjasýningunni Agritechnica sem fram fór í Hanover í Þýskalandi í nóvember síðastliðnum.
Með höfuðstöðvar í Grieskirchen
Fyrirtækið er og hefur alla tíð verið með höfuðstöðvar í Grieskirchen í norðurhluta Austurríkis, nokkurn veginn miðja vegu milli austurrísku höfuðborgarinnar Vínar og þýsku borgarinnar München. Fyrirtækið er með umboðsaðila víða um heim.
Hefur Pöttinger hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir sína framleiðslu á liðnum árum og þar má t.d. nefna sláttuvélina Novacat Apha Motion Pro. Hún var valin heyvinnsluvél ársins 2020 á landbúnaðartækjasýningunni Agritechnica sem fram fór í Hanover í Þýskalandi í nóvember síðastliðnum. Pöttinger framleiðir líka öflugar rúllubaggavélar í nokkrum gerðum.
Mikil viðurkenning
Viktor Karl Ævarsson segir val Pöttinger á Kraftvélum sem nýjum umboðsaðila á Íslandi mikinn heiður.
„Við í Kraftvélum erum virkilega stolt af því að hafa verið valin umboðsaðili Pöttinger á Íslandi, það er mikil viðurkenning fyrir okkur að hafa orðið fyrir valinu enda er Pöttinger einn allra öflugasti framleiðandi heyvinnutækja í heiminum,“ segir Viktor Karl Ævarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Kraftvéla.
„Pöttinger er öllum bændum og verktökum vel kunnugt vörumerki enda með langa sögu hér á landi og einstaklega breitt vöruúrval.
Þrátt fyrir að flestir þekki Pöttinger fyrir framúrskarandi heyvinnutæki þá bjóða þeir líka upp á spennandi tæki til jarðvinnslu og við munum leggja metnað okkur í að kynna þau tæki líka. Þar ber helst að nefna plóga, herfi, tætara og sáðvélar.“
Hætta með Fella, en tryggja áfram hnökralausa þjónustu
„Eins og flestir vita þá hafa Kraftvélar verið að selja Fella heyvinnutæki í gegnum árin og eflaust margir að velta fyrir sér með framtíð Fella hér á landi. Það er mörgu ósvarað í þeim efnum en Kraftvélar og Fella eiga að baki langt samstarf og er það sameiginlegt markmið beggja aðila að eigendur Fella upplifi enga hnökra í þjónustu tækjanna sinna þrátt fyrir að Kraftvélar muni formlega hætta sem umboðsaðili Fella á Íslandi.
Viðskiptavinir sem hafa mögulega áhyggjur af sínum Fella tækjum mega vita að við munum áfram hafa beinan aðgang að Fella og allri þeirri þjónustu sem þeir bjóða upp á tengt varahlutum, þjónustu og ábyrgðarmálum í 12 mánuði að lágmarki.
Við hlökkum til þess að kynna og þjónusta Pöttinger vélar og hvetjum viðskiptavini til þess að setja sig í samband við sölumenn Kraftvéla fyrir allar nánari upplýsingar,“ segir Viktor Karl Ævarsson.