Geldur varhug við minnkandi kjötframleiðslu innanlands
Hjónin í Garðshorni á Þelamörk hafa árum saman ræktað gæðinga og hlotið viðurkenningar fyrir, auk þess sem þau eru með 400 fjár.
Það eru þau Birna Tryggvadóttir Thorlacius og Agnar Þór Magnússon sem búa í fagurri Hörgársveitinni ásamt fjölskyldu sinni. Þau reka tamningastöð, hafa sýnt kynbótahross fyrir sig og aðra og boðið upp á reiðkennslu.
Í dag er heildarfjöldi hrossa í eigu búsins 34 og í kring skottast þrír Border Collie-hundar.
Aðspurð um hverjar helstu áherslur þeirra séu í búskapnum svarar Birna að í sauðfjárræktinni sé það auðvitað að bæta áfram kjötgæði og magn sem hver gripur fyrir sig gefi af sér.
„Við hyggjum ekki á neinar stórar breytingar hvað féð varðar,“ segir Birna. Þau muni halda áfram á sömu braut og reyna smám saman að ná inn í stofninn fleiri góðum gripum sem bera verndandi arfgerð gegn riðu.
Um hrossaræktina segir hún þau leitast við að rækta geðgóð, fallega sköpuð hross með góðar gangtegundir og rými.
„Framtíðaráformin í búskapnum eru í rauninni bara að hafa gaman af því sem maður er að gera og njóta,“ bætir Birna við.
Þau hlutu árin 2014 og 2021 Heiðursviðurkenningu Bændasamtaka Íslands fyrir árangur í hrossarækt.
Á tánum í rekstrinum
Misjafnt er milli árstíma hversu margir starfa við búið. Nú yfir vetrarmánuðina eru það tvær til fjórar manneskjur. Svo koma fleiri að á álagstímum eins og í sauðburði og smalamennsku. Þau Birna og Agnar hafa ekki farið varhluta af þungum búrekstri líkt og bændur um land allt. „Þar sem flestöll aðföng sem lúta að búrekstri hafa hækkað höfum við reynt eftir fremsta megni að hagræða í öllu og huga að öllum þáttum sem snúa að því að bæta reksturinn,“ segir Birna og heldur áfram:
„Við höfum hingað til reynt að koma hrossunum snemma í verð, til að yngja upp vélar og tæki til að lenda ekki í óþarflega miklum viðhaldskostnaði, sem vill oft verða þegar tækin eru komin til ára sinna.
Sem betur fer er áburðarverð eitthvað að síga niður á við á ný og afurðaverð hjá sauðfjárbændum að leita upp á við, þó svo enn megi bæta í til að vel megi við una.“
Verður að styðja vel við
Hvað varðar hennar sýn á stöðu landbúnaðarins nú um stundir telur hún að huga verði að mikilvægi þess að hlúa að góðu og uppbyggilegu kerfi fyrir þá bændur sem eru starfandi í landinu.
„Heilnæmari og óspilltari vörur er ekki hægt að finna og því mikilvægt að styðja vel við land- búnaðinn hérlendis svo ekki komi til þess að Íslendingar nái ekki að sinna eigin landi með afurðir. Við teljum að það megi endurskoða ýmsa liði er snúa að því kerfi sem er við lýði í dag til að bæta megi stöðu starfandi bænda.“
Hún veltir fyrir sér hvort fólk hafi ekki val um annað en að kaupa matvörur erlendis frá þar sem sýklalyfjanotkun sé víða ansi mikil.
„Maður veltir fyrir sér hvaða áhrif það hefur á okkar heilbrigðiskerfi ef við náum ekki að sinna okkar íslenska markaði og einungis erlendar matvörur verði á boðstólum stóran hluta ársins sem innihalda mun meira magn af sýklalyfjum.
Ef fram heldur sem horfir og kjötframleiðsla á Íslandi heldur áfram að minnka er möguleiki á þeirri stöðu í framtíðinni að við höfum ekki lengur val um að versla heilnæmar matvörur frá Íslandi,“ segir hún og rifjar upp að í grein eftir Ernu Bjarnadóttur í Bændablaðinu í fyrra hafi verið bent á að sýklalyfjaónæmi væri ein af þremur stærstu heilsufarsógnum samtímans, að mati framkvæmdastjórna ESB og WHO. Hætta á sýkingum af völdum fjölónæmra baktería, sem geti borist úr dýrum í fólk, aukist með vaxandi innflutningi á hráu kjöti frá þeim löndum þar sem sýklalyfjanotkun sé mikil.
Gæðastundir í búskaparstússi
Þau hjónin sjá gleðina í störfum sínum og Birna segir að það skemmtilegasta við búskapinn sé fjölbreytnin.
„Enginn dagur er eins og það er gott að geta unnið líkamlega vinnu sem heldur manni gangandi.“ Það sé í raun margt skemmtilegt við að fást og viðfangsefnin jafnólík eins og þau séu mörg.
„Það er gaman að sjá nýja gripi fæðast, sjá þá alast upp og svo að klára að láta eitthvað verða úr þeim með tamningu. A sjá hestana blómstra hjá öðrum og eða njóta þeirra sjálf.
Svo er ekki síður gaman að deila þessu með börnunum og við höfum sannarlega átt margar gæðastundir í alls konar stússi við búskapinn,“ segir Birna í Garðshorni að lokum.