Sama sláturhús sektað þrisvar
Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á svínasláturhús á Suðvesturlandi. Sektirnar nema samtals 450.000 krónum.
Þann 1. mars tilkynnti MAST að það hafi lagt 160.000 kr. stjórnvaldssekt á sláturhús á Suðvesturlandi vegna þess að fótbrotinn grís lá yfir heila helgi í sláturrétt áður en honum var slátrað.
„Grísinn mun hafa fótbrotnað í flutningi til sláturhússins. Samkvæmt reglum hefði átt að slátra honum strax við móttöku,“ segir í tilkynningu MAST.
Einnig er sagt frá því í sömu tilkynningu að sláturhús á Suðvesturlandi hafi brotið dýravelferðarlög þegar grís var vegna mistaka ekki sviptur meðvitund fyrir aflífun. Stjórnvaldssekt sú nam 145.000 krónum. Í apríl tilkynnti svo MAST að í mars hafi sláturhús á Suðvesturlandi verið sektað um 145.000 kr. vegna fráviks við aflífun á grís.
Fjögur sláturhús slátra svínum á Íslandi. Það eru B. Jensen og Norðlenska á Akureyri, Stjörnugrís á Kjalarnesi og SS á Selfossi. Sláturhús Stjörnugríss á Kjalarnesi er það eina sem tilheyrir Suðvesturumdæmi samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun.