Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Meirihluti kúa á Íslandi eru í lausagöngufjósum.
Meirihluti kúa á Íslandi eru í lausagöngufjósum.
Mynd / ál
Á faglegum nótum 17. maí 2024

Fjósum á Íslandi fækkað um 9,2% á tveimur árum og 27% síðan 2013

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Árið 2003 hóf Landssamband kúabænda að taka saman upplýsingar um fjósgerðir á Íslandi og þróun þeirra ásamt ýmsum öðrum gagnlegum upplýsingum.

Þetta hefur síðan verið gert u.þ.b. annað hvert ár og er skýrslan nú unnin á vegum Bændasamtakanna. Nú liggur fyrir ellefta skýrslan og tekur hún til árabilsins 2021–2023. Margt afar áhugavert kemur fram í þessari skýrslu og m.a. að 69,3% fjósa landsins eru nú lausagöngufjós og að 83,0% kúnna á Íslandi eru nú í lausagöngu. Hlutfall mjólkur frá kúm í lausagöngu reiknast nú 84,7% framleiðslunnar. Þá vekur enn athygli að þrátt fyrir mikinn framgang mjaltaþjónatækninnar þá er enn eitt fjós á landinu sem notast við fötukerfi við mjaltir.

466 fjós í framleiðslu

Í skýrslunni kemur fram að í árslok 2023 voru 466 fjós í mjólkurframleiðslu á Íslandi en haustið 2013 voru þau 640 og hefur fjósum því fækkað um 174 á þessu árabili, eða um 27%. Þessi þróun er mjög svipuð því sem verið hefur hér á landi síðustu tvo áratugina en þó virðist fækkunin heldur vera að aukast ef litið er til síðustu tveggja ára. Þá fækkaði fjósunum hér á landi um 47, eða 9,2%.

Þessi þróun hér á landi er heldur hraðari en á sér stað víða í löndum Evrópu, þar sem fjósum hefur verið að fækka um 4–8% á ári undanfarna áratugi. Þrátt fyrir fækkun fjósa á hverju ári bæði á Íslandi og í Evrópu hefur heildarmjólkurframleiðslan ekki dregist saman og raunar aukist, enda hafa eigendur þeirra fjósa sem eftir standa stækkað bú sín.

83,0% kúnna í lausagöngu

Undanfarna áratugi hafa orðið gríðarlega miklar breytingar á húsvist íslenskra mjólkurkúa og ekki eru nema rétt rúm 25 ár síðan nærri öll fjós landsins voru básafjós af einhverri gerð og kýrnar því bundnar á bása, en þetta er gjörbreytt í dag. Af þeim 466 fjósum sem voru í framleiðslu í árslok 2023 þá voru eins og áður sagði 69,3% þeirra lausagöngufjós.

Þetta hlutfall gefur þó ekki alveg rétta mynd af stöðu aðbúnaðar kúa á Íslandi, því ef litið er til stærðar fjósanna þá eru lausagöngufjósin með mun fleiri kýr að jafnaði.

Í árslok 2023 voru þannig 83,0% allra kúa á landinu í lausagöngufjósum en fyrir átta árum var þetta hlutfall 60,3% svo breytingin er ansi hröð. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig þróun fjósgerða hefur verið síðustu áratugi. Eins og sjá má gengu breytingarnar nokkuð hratt fyrir sig fram undir hrun en svo hægði verulega á þróuninni, sem hefur svo aftur tekið mikinn kipp síðustu árin.

Mjaltaþjónafjós algengust

Í skýrslunni er fjósgerðum skipt upp í tvo yfirflokka og samtals fimm undirflokka þar sem yfirflokkarnir eru annars vegar básafjós og hins vegar lausagöngufjós. Undirflokkar þessara tveggja megin fjósgerða taka svo mið af þeirri mjaltatækni sem er í notkun í fjósunum.

Niðurstöðurnar má sjá í töflu 1, en þar kemur fram að frá árinu 2013 hefur básafjósum fækkað verulega, eða úr 392 í 143, eða um 63,5%. Á sama tíma tíma hefur lausagöngufjósum fjölgað úr 247 í 323 sem er 30,8% aukning síðan 2013. Raunar fækkaði öllum fjósgerðum á þessu tímabili nema mjaltaþjónafjósum sem voru 262 um síðustu áramót og hafði þeim fjölgað um 7,8% á þessu tveggja ára tímabili sem skýrslugögnin ná til. Þegar sambærileg skýrsla var gefin út fyrir árabilið 2017–2019 var það í fyrsta skipti sem básafjós með rörmjaltakerfi voru ekki lengur algengasta fjósgerðin á landinu síðan gagnasöfnun hófst.

Tafla 1. Fjósgerðir og mjaltatækni, breyting á landsvísu síðan 2013.

Þess í stað voru það mjaltaþjónafjósin sem voru algengasta fjósgerðin og síðan þá hafa þau bætt vel við sig og nú eru þessi fjós 56,2% allra fjósa landsins. Á mynd 2 má sjá hlutfallslega skiptingu fjósgerða og mjaltatækni síðan 1994.

Mynd 2. Hlutfallsleg skipting fjósgerða og mjaltatækni á landsvísu 1994–2023.

Enn er eitt fjós eftir með vélfötukerfi

Þegar fyrsta skýrslan var unnin, árið 2003, voru enn í notkun 24 fötukerfi þ.e. mjaltakerfi þar sem kýr eru mjólkaðar með vélfötum. Þessari gerð mjaltatækni hefur svo fækkað ört og nú um áramótin var einungis 1 slíkt kerfi eftir í notkun en þetta bú hefur verið það eina á landinu í nokkur ár.

Meðalnyt mjaltaþjónafjósa langhæst

Þegar skoðað er samhengi afurða, samkvæmt skýrsluhaldi RML, og fjósgerða kemur ekki á óvart að fjós með mjaltaþjónum eru langafurðahæst og er það í samræmi við uppgjör fyrri ára. Tekið skal fram að við þessa útreikninga er alltaf notað uppgjör allra búa í árslok uppgjörsársins, óháð því hvort þau hafi skipt um mjaltatækni á árinu eða ekki. Enn fremur eru til dæmi um að einn skýrsluhaldshafi sé með tvö fjós og/eða eitt fjós með tvo skýrsluhaldshafa. Í þessum tilvikum hafa vegnar niðurstöður verið annaðhvort sameinaðar eða skipt upp eftir ákveðnum reglum. Framangreindar reikniaðferðir bera auðvitað með sér ákveðna skekkju og skal því tekið með fyrirvara, enda má t.d. ætla að meðalafurðir ættu að vera hærri á búum sem skiptu úr hefðbundinni mjaltatækni á árinu og yfir í mjaltaþjónatækni vegna tíðari mjalta. Þrátt fyrir þessa annmarka er, eins og áður segir, heildarmeðaltal mjaltaþjónabúa landsins hæst en vegið meðaltal þeirra var 6.635 kg mjólkur að jafnaði á hverja árskú á nýliðnu ári. Næstafurðahæstu búin voru svo básafjós með mjaltabásum með 6.293 kg. Þá voru meðalafurðir kúa í lausagöngufjósum án mjaltaþjóna með 5.915 kg og lægstar meðalafurðir eru að jafnaði í básafjósum með rörmjaltakerfum, eða 5.646 kg. Hver meðalkýr er því að skila af sér 989 kg meira af mjólk ef hún er í mjaltaþjónafjósi miðað við að vera í básafjósi með rörmjaltakerfi. Þessi mikli munur getur skýrst af mörgum þáttum og sýna fyrri athuganir hér á landi að t.d. tíðari mjaltir mjaltaþjóna skýra í kringum helminginn af meðal afurðaaukningunni einni og sér. Hinn hlutann má skrifa á betri aðbúnað og hreyfingu, nákvæmari kjarnfóðrun og almennt betri búnað til bættrar bústjórnar á búum sem nota sjálfvirk mjaltakerfi.

Mynd 1. Hlutfallsleg skipting fjósgerða 1994-2023.

Mjaltaþjónafjós einnig stærst

Ekki þarf að koma á óvart að lausagöngufjós með mjaltaþjónum eru stærst að meðaltali en árskúafjöldi þeirra í árslok 2023 var 69,2 kýr en þessi bú eru að jafnaði með 1,24 mjaltaþjóna. Þrátt fyrir að þessi bú beri af í fjölda kúa, þá er bústærðin enn vafalítið nokkuð undir þeim mögulega árskúafjölda sem þessi fjós geta borið mjaltatæknilega séð. Næststærsta fjósgerðin er svo lausagöngufjós án mjaltaþjóns og þar á eftir koma básafjós með mjaltabásum. Hin hefðbundnu básafjós með rörmjaltakerfum eru vel innan við helmingi minni en mjaltaþjónafjósin eins og sjá má á töflu 2. Út frá framangreindum upp- lýsingum má áætla framleiðslugetu hverrar fjósgerðar, sem hlutfall af heild. Árið 2009 var fyrsta árið sem mjólk frá kúm í lausagöngu náði yfir 50% af heildinni en nú reiknast þetta hlutfall vera 84,7%.

Tafla 2. Meðalfjöldi árskúa eftir fjósgerð og mjaltatækni.

Nærri fjórðungur kúnna í fjósum með >80 kýr

Í skýrslunni kemur fram að flest fjós landsins eru í dag með 41–60 árskýr, eða 149 talsins, en fjós með færri en 20 árskýr voru ekki nema 30 í árslok 2023 og voru þau þá með 483 árskýr samtals. Það er áþekkur fjöldi árskúa og er í tveimur stærstu fjósum landsins.

Meðalbústærð fjósanna í uppgjörinu var 54,5 árskýr en tveimur árum fyrr var meðalbústærðin 49,9 árskýr, sem er stækkun um 9,2%. Alls voru 152 kúabú með færri en 40 árskýr í þessu uppgjöri, eða 32,6% fjósa landsins, en í þessum fjósum voru þó ekki nema 16,7% af árskúm landsins. Bú á bilinu 40–80 árskýr voru alls 263 talsins eða 56,4% og í þessum fjósum voru 60,2% af árskúm landsins í árslok 2023. Þá voru fjós með fleiri en 80 árskýr alls 51, eða 10,9% og hefur þetta hlutfall hægt og rólega verið að skríða upp á við á undanförnum árum. Þannig voru t.d. ekki nema 3,8% fjósa landsins með fleiri en 80 árskýr árið 2013 svo dæmi sé tekið. Nærri fjórðungur árskúa landsins, eða 23,1%, voru í fjósum með fleiri en 80 árskýr í árslok 2023.

Þetta hlutfall var rétt undir 20% í árslok 2021 sem bendir til þess að þróunin sé heldur í átt að stærri einingum.

Hlutfall aftakara hækkar hægt

Árið 2009 voru í fyrsta skipti teknar saman upplýsingar um vinnuléttandi tækni við mjaltir, þ.e. upplýsingar um brautakerfi í básafjósum, aftakarakerfi í básafjósum og tíðni aftakarakerfa í mjaltabásum. Var þetta gert til þess að varpa betur ljósi á þær vinnuaðstæður sem kúabændur landsins búa við, enda er einn mesti vinnusparnaður við mjaltir talinn felast í aftakaratækninni. Á þeim 14 árum sem liðin eru hefur orðið tiltölulega lítil hlutfallsleg aukning á notkun tækninnar og þannig mátti finna aftakara í 41,7% fjósa árið 2009 en nú í 51,2% allra fjósa þar sem hefðbundin mjaltatækni er notuð. Þessi vinnuléttandi tækni eykst því afar hægt hér á landi þrátt fyrir að hafa verið nú í notkun í rúma hálfa öld í heiminum.

Í skýrslunni eru ýmsar aðrar upplýsingar en hér hafa verið nefndar en hægt er að lesa hina ítarlegu skýrslu í heild sinni á vef Bændasamtaka Íslands, www.bondi.is.

Skylt efni: Fjós

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...