Hagnaður jókst í landbúnaði árið 2021 en býlum fækkar örar
Nýlega birti Hagstofa Íslands niðurstöðu afkomurannsóknar landbúnaðarins fyrir árið 2021. Samanburður við árið á undan var jákvæður að flestu leyti.
Hagnaður þeirra fimm landbúnaðargreina sem falla undir rannsóknina þrefaldaðist á milli ára og nam 2,1 milljarði króna, samanborið við tæpar 700 milljónir árið á undan. Mest munaði um breytingu í loðdýrarækt þar sem 107 milljóna króna tapið árið 2020 snerist í 103 milljóna króna hagnað og var það í fyrsta sinn frá árinu 2013 sem búgreinin skilar hagnaði, sauðfjárrækt sneri einnig 94 milljóna króna tapi í 667 milljóna króna hagnað. Ein búgrein af þessum fimm skilaði tapi árið 2022 og það var holdanautarækt.
Á árinu jukust tekjur í ofangreindum landbúnaðargreinum um 6%, sem var bæði umfram verðbólgu og umtalsvert umfram hækkun rekstrarkostnaðar. Bætt afkoma leiddi af sér bætta fjárhagstöðu. Eigið fé í landbúnaði jókst um 15% á meðan langtímaskuldir jukust um 1%. Töluverður munur var þó þarna eftir búgreinum. Í tilfelli sauðfjárræktar og garðræktar jukust skuldir svipað mikið og aukning eigin fjár.
Á undanförum 10 árum hefur verið töluverð fækkun býla enda hefur afkoman ekki alltaf verið jafn jákvæð og árið 2021.
Frá árinu 2011 til ársins 2021 fækkaði býlum um 15%. Mest munaði þar um fækkun um 300 sauðfjárbýli, sem nemur 18% fækkun, og 27 holdanautsræktenda sem er 24% fækkun.
Skriðþunginn í fækkun býla er að aukast. Á árunum 2016-2021 hefur fækkunin að meðaltali verið 64 býli á ári samanborið við aðeins átta býli árin 2011-2015.