Hann stendur með landinu
Eskfirðingurinn Valdimar Andersen varði stórum hluta af starfsferli sínum í sölu og útflutningi á fiski, aðallega ferskum fiski í flugi eða skip, og sá ekki endilega fyrir sér stöðuna sem blasir við honum í dag. Þegar hann greindist með MS sneri hann við blaðinu, fann ásamt fjölskyldu sinni hús og ræktarland á Akranesi og reynir þar að lifa sem sjálfbærustu lífi.
Fólk spásserar gjarnan fram hjá þessu húsi og kíkir yfir hvíta girðinguna í von um að sjá glæsilegar brahma-hænur vappa hæglætislega um garðinn innan um iðnar býflugur, spörfugla, íslenska tík og ketti, og kasta eftir atvikum kveðju á íbúana sem iðulega eru úti við ræktunarstörf. Þarna búa hjónin Valdimar og Rósmarý Andersen Úlfarsdóttir, fagstjóri sjúkrasjóðs VR, ásamt Nóa syni sínum á unglingsaldri en tvö eldri börn þeirra eru flogin úr hreiðrinu.
Þau hafa alltaf haft mikinn áhuga á ræktun og reynt að koma ár sinni fyrir borð í þeim efnum þar sem þau hafa búið, hvort sem var í Reykjavík eða Hafnarfirði, í fjölbýli eða einbýli. Erfitt reyndist þó að samræma óskir og vilja fólks í sambýli hvað þetta varðar. Til að láta þennan draum rætast leigðu þau sumarhúsalóð í Eilífsdal, létu teikna fyrir sig sumarhús, lögðu veg og vatnsleiðslu og byggðu fyrst af öllu gróðurhús og hófu ræktun því það átti að vera grunnforsenda þess að dvelja í sveitinni. Gefum Valdimar orðið: „Stutta sagan er sú að það kom rokhvellur og allt fauk fjandans til, nýja gróðurhúsið brotnaði í spón. Þá fórum við í fýlu og langaði ekki að fylgja þessari hugmynd eftir. Og fórum aftur að hugsa okkar gang. Við þurftum jú áfram heimili, helst á einni hæð, og vildum gjarnan geta ræktað eitthvað. Þannig að með því að finna á Akranesi gott einlyft einbýlishús með stórri lóð gátum við sameinað þetta.“
Ævintýri í hverju horni
Húsið stendur austanvert í efri byggð Akraneskaupstaðar, með mjög stóran garð á þrjá vegu en sólpall og heimreið til suðurs. Þegar ræktun hófst var lóðin þegar jöfnuð og með trjágróðri við jaðrana til skjólmyndunar en heldur er vindasamt á þessum slóðum. Þau hófust strax handa við að byggja girðingu á alla kanta því skjól varð að efla ef takast ætti að rækta eitthvað af viti. Nú, sex árum síðar, er garðurinn orðinn hálfgert ævintýri. Myndarlegur hænsnakofi og gerði brahma-hæna (sem ganga annars frjálsar á lóðinni) stendur í austurhorninu og við taka upphækkuð ræktunarbeð fyrir jarðarber, blómkál og gulrætur, svo eitthvað sé nefnt. Þá er í norðurhorni moltugerð, svo kalt gróðurhús sem kallað er berjahúsið og þar ræktuð bláber, kirsuber, jarðarber, baunir og spergill. Nýrisinn er sólpallur í framhaldi af gróðurhúsinu og þar munu klifurjurtir mynda veggi og þak þegar fram í sækir. Þá kemur býflugnabú, eitt með flugum og annað sem bíður nýrra íbúa, trjálundur í norðvesturhorni, og enn fleiri upphækkaðir og yfirbyggðir gróðurkassar með gulrótum og salati. Skammt frá þeim stendur 18 m2 upphitað gróðurhús þar sem fram fer forræktun, vínviðar- og rósarækt, svo nokkuð sé nefnt. Timburstígur liggur um steinbeð að útisturtu og sólpallur með heitum potti og fjörugu humlubúi undir snýr til suðurs. Innan við suðurgluggana vex tómatplöntuþykkni og svalar nokkrum gárum sem lifa innandyra.
Auk alls þessa er garðurinn fullur af blómplöntum í beðum og ýmsum trjátegundum, að ógleymdum svolitlum hól sem gerður var úr uppgreftri fyrir gróðurhúsunum og íslenskt plöntulíf er látið hafa þar sinn gang, hvort sem eru fíflar eða bláklukkur.
Kuldinn erfiður býflugnaræktinni
Býflugnabúið undir norðurgirðingunni hýsir nú um 15 þúsund býflugur sem er algeng stærð á búi. Valdimar fór á býræktarnámskeið fyrir þremur árum og setti að því búnu upp fyrsta búið sitt með flugum frá Álandseyjum. Að ýmsu er að hyggja í þessum efnum, bæði búnaði og atlæti flugnanna. Hann missti þó fyrsta búið og kennir einkum kunnáttu- og reynsluleysi um en víst er að svöl vor og sumur hafa ekki hjálpað til. „Kannski fóðraði ég ekki nóg,“ segir hann en þau köldu vor sem hafa verið á svæðinu undanfarin ár gera að verkum að stöðugt verður að fóðra býflugurnar á sykurvatni svo þær haldi lífi uns hlýnar og blómgróður tekur við sér. „Það má ekkert hætta og nú er bú númer tvö komið gegnum fyrsta veturinn.“
Valdimar segir suma býflugnabændur halda því fram að í rauninni sé ekki hægt að halda býflugur hérlendis vegna veðurs en aðra telji að hvergi sé það betra. „Maður vill helst hafa minnst 10–12 gráðu hita, góðan lofthita, til að opna búið,“ segir Valdimar. „Vorin eru erfið. Þú vilt jú geta opnað fyrir kúnum á vorin og þær hlaupa út í haga hamingjusamar, en flugurnar hafa ekki getað flogið út í haga, það hefur verið kalt, rok og rigning alveg endalaust. Þær fara ekkert út í rigningu eða kulda en láta sig hafa vindinn.“ Hann opnar búið til hálfs og er snöggur að hella sykurvatninu inn og loka aftur svo kólni ekki hjá flugunum. „Flugurnar vinna eins og við gerðum á vertíð fyrir austan í gamla daga,“ heldur hann áfram. „Ef kom síld þá var hún kláruð. Það er unnið þegar tækifæri gefst. Komi klukkutíma sólskin þá er allt á kafi við búið, en svo er bara eins og slökkt hafi verið á öllu þegar kólnar.“ Þótt hann vaki stöðugt yfir búinu um þessar mundir þá sér það í góðri tíð að mestu um sig sjálft.
Valdimar hefur ekki fengið neinar afurðir frá býflugunum sínum enn sem komið er, þar sem hann missti búið í fyrravor og fékk flugur aftur um mitt síðasta sumar. Hann væntir þó hunangs ef búið lifir. „Já, og ég vil hafa fleiri bú, held að það sé of áhættusamt að hafa aðeins eitt. Ég er búinn að setja upp eitt við hliðina og pláss er fyrir 2–3 í viðbót, það væri skemmtilegt.“
Að halda býflugur í þéttbýli segir Valdimar vera hluta af ætlan sinni. „Maður var búinn að sjá þetta erlendis á þaktoppum og víðar, og hugsaði að það hlyti að vera hægt að vera með býflugur inni í bæ á Íslandi. Ég vildi láta reyna á það fyrir mig að hafa flugur í bakgarðinum og geta sinnt þeim eins og annarri ræktun hér. En svo er alltaf spurning hvað er þéttbýli, náttúran er allt í kringum okkur hér á Íslandi og bú eru víðar í eða við þéttbýli.“
Um viðbrögð næsta nágrennis við býflugnabúinu segir hann þau almennt vera jákvæð.
Akraneskaupstaður með á nótunum
Akraneskaupstaður hefur nú lýst reit norðan við lóð þeirra Valdimars og Rósmarýjar verndarsvæði og verður þar ekki slegið að sinni. Til stendur einnig að setja niður berjarunna en að öðru leyti fær svæðið að vaxa villt. Þetta kom til vegna erindis sem hjónin sendu garðyrkjustjóra Akraneskaupstaðar með beiðni um að gróðursett yrði skjólbelti á bæjarlandinu norðan við lóð þeirra til að brjóta vind og hvort mögulegt væri að sleppa slætti á skikanum svo þar mætti verða villiengi sem býflugurnar gætu nýtt sér. Tekið var jákvætt í umleitanina og hún sögð áhugaverð tilraun. Reiturinn var því girtur og sett upp skilti sem á stendur: Hér verður ekki slegið í sumar, þetta svæði er tileinkað líffræðilegum fjölbreytileika. Það er mögulegt að Akraneskaupstaður sé hér í fararbroddi sveitarfélaga á landsvísu með aðgerð af þessum toga. Erindi hjónanna vakti enda nokkra athygli í bænum, því fólk er almennt fremur að hvetja bæinn til tíðari sláttar en letja.
Spurður hvort ekki sé mikið verk að sinna garðinum segir Valdimar þau Rósmarý gera þetta jafnóðum og með þeirri orku sem til sé, „og hún dugar,“ segir hann. Þau afla sér allnokkurra matvæla úr eigin ræktun á uppskerutíma og fyrir utan allt grænmetið sem til dæmis unglingurinn á heimilinu er duglegur að borða, þá segir Valdimar eggin vera mikla búbót. „Maður finnur hversu heimaræktaða grænmetið er miklu betra en það sem keypt er í búðinni.“ Elskulegir nágrannar og velunnarar hafa gaukað lífrænum matarleifum að hænunum og það sem ekki dettur ofan í þær fer í moltugerðina. Allt er nýtt.
Valdimar segist þannig lagað vera kominn þangað sem hann langar að vera í ræktuninni. Þetta sé þó alltaf dálítill slagur, þau hafi sett epla- og plómutré framan við húsið og þau hvorki borið ávöxt né vaxið. Tvö eplatré fóru á besta stað upp við húsið og þau komi vonandi til með tímanum. Tómatar sem áður voru úti plumi sig betur inni. Þetta sé því allt tilraunastarfsemi og gleðin felist í vextinum og hverju þau nái á legg hverju sinni. Þau starfa með Akranesdeild Garðyrkjufélags Íslands auk þess að vera í samskiptum við aðra ræktendur á svæðinu.
Holtsflatarhjónin reyna, ásamt Nóa syni sínum, nýfermdum, að vera eins sjálfbær og þau mögulega geta og hvetja aðra í kringum sig til að gera hið sama. „Þetta er hluti af stærri myndinni, að gera umhverfinu sæmilega gott og fá að njóta dýranna í leiðinni,“ segir Valdimar. „Kannski má líta á þetta sem okkar sjálfbæra reit í tilverunni. Í ljós er komið að ef við ætlum að lifa hér á jörð þá þurfum við að lifa fullkomlega sjálfbæru lífi. Og þá meina ég fullkomlega. Við verðum alltaf að finna þær lausnir sem ganga ekki á náttúruna. Það er markmiðið hjá okkur hér, þótt af veikum mætti sé. En svo bara finnur maður sig sjálfur í sjálfbærum lifnaðarháttum, ég þarf enga hjálp við það.“
Hann segist standa með landinu og útskýrir það nánar. „Þegar þú ert með dýr þá hleypurðu ekkert frá fyrirvaralaust. Ákveðin forréttindi eru þó fólgin í því að taka þátt í veðrabrigðum og ástandi landsins hverju sinni, að fylgjast með því í blíðu og stríðu og geta þá brugðist rétt við og hlúð að. Ég sakna ekki sólarinnar þannig séð, hopa ekki og fylgi því sem kemur og verða vill, það er ekkert annað að gera og ákveðin fullnægja í því,“ segir hann.
Kúvending og hamingja
Áður fyrr starfaði Valdimar við útflutning á fiski. „Ég hafði fókusinn á útflutningi, fannst lítið göfugt að flytja inn,“ segir hann og brosir skelmislega, „en mun göfugra að flytja út vöruna og skapa þannig verðmæti og tekjur fyrir landið.“ Hann lærði útflutnings- og markaðsfræði í Danmörku og starfaði hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í um áratug en síðar varð hann sjálfstæður útflytjandi. „Ég var í þeim bransa að flytja út fisk lengst af minni starfsævi. Mér fannst þetta skemmtilegt en ferskfiskssalan gat verið mikið hark. Allt þurfti að ganga þar snurðulaust frá byrjunarreit til lokaáfangastaðar og síminn var alltaf opinn.“
Svo rakst hann dag einn á auglýsingu eftir sviðsmanni við Þjóðleikhúsið og ákvað að kúvenda. Þar vann hann í ár og naut þess að skyggnast um að tjaldabaki í leikhúslífinu en vann í framhaldinu við leikmyndagerð um tíma. „Þetta er rosalega skemmtilegur bransi og margt frábært og skemmtilegt fólk í honum.“
Valdimar greindist með MS- sjúkdóminn (multiple sclerosis) árið 2000. „Ég hætti að vinna 2016. Auðvitað hafa þessi einkenni, verkir og þrekleysi, alltaf verið þarna. Ég gat svo sem alveg unnið en hafði þá litla eða enga orku heima hjá mér. Ég gerði tilraunir með hálfan daginn í lok starfstímans en það var ekki að gera sig og í raun og veru varð ég að velja: ef ég ætlaði að hafa einhverja orku heima hjá mér þá yrði ég að hætta að vinna.“ Um það hvort hann hafi verið lengi að lenda þessu fyrir sjálfum sér svarar hann: „Ekki eftir að við vorum búin að ákveða þetta hjónin. Að nú væri kominn tími. Þá var þetta ekkert mál. Ég er hamingjusamasti maður í heimi! Við erum búin að skapa okkur umhverfi sem við elskum og þrífumst vel í og sjáum fram á að geta haldið því áfram. Þessar aðstæður verða ekkert betri.“
Fólk á að hafa jafnan rétt til tækifæra
Valdimar hefur tekið þátt í störfum félagsins Íslands-Palestínu eftir föngum um árabil og fór m.a. til Vesturbakkans í Palestínu sem sjálfboðaliði í nokkrar vikur. Hann er í kór á Akranesi og hefur unnið með Sósíalistaflokknum í ýmissi málefnavinnu.
„Ég fylgist með flokknum og reyni að taka þátt eins og ég hef þrek til, rífst á Facebook og svona,“ segir Valdimar og brosir í kampinn. „Er þetta ekki bara einhver réttlætiskennd? Það er svo margt að. Fólk á að hafa jafnan rétt til tækifæra og ekki þurfa að þola ofbeldi, þetta er í rauninni ekkert flóknara en það.“
Honum finnst nauðsynlegt að fólk spyrji sig í fullri alvöru hvort ekki séu einhverjir aðrir valkostir en það sem hann nefnir eitraða borgaramennsku. „Mér finnst hún svo agaleg. Við erum öll borgarar: fyrst erum við lífverur, síðan ákveðum við að lifa í hóp og þurfum þá að finna okkur leiðir að því að vinna í hóp, svo búum við okkur umhverfi sem borgarar.
Þú færð hús, mætir í vinnu, færð farartæki og lokast svo inni í þessum heimi þínum: húsinu, farartækinu, vinnunni, flugvélinni ... og þeim lífsmáta sem okkur er nánast skapaður af fyrri kynslóðum. En allt of fáir setja spurningu við þetta. Er þetta eðlilegt? Er eðlilegt að við getum verið að þeytast milli landa og brennt einhverjum ósköpum af olíu í hvert sinn? Fólki þykir alveg sjálfsögð réttindi að mega nýta öll þau þægindi sem olían býður upp á.“
Hann stendur upp og gefur hænunum Helgu, Hönnu, Rósu og Rúnu korn út um opinn gluggann og hleypir tíkinni Leyju inn sem sífellt er á ungæðislegum spretti nema þegar hún sefur. Hann heldur áfram: „Mín ósk væri fyrst og fremst að við myndum hægja á. En það er ekki til neins að tala um það, enginn vill minna, helst bara meiri hagvöxt. Mælikvarðarnir eru úti á túni. Hvað er annars verið að mæla?“ spyr hann og hristir höfuðið.
„Ræktun á að verða miklu víðtækari innan bæja og samfélaga fólks. Hér búum við og ætlum að hafa sæmilega heilbrigt umhverfi fyrir okkur sjálf og það felst í að rækta matinn nær okkur. Viss hætta er á að það verði til einhver þjóðernisrembingur tengdur svona hugmyndum en við eigum ekki að flytja inn mat heldur að rækta matinn hér, það er að mínu mati grundvallarforsenda. Og við eigum að rækta inni í bæjum. Það er aðeins byrjað en þarf að aukast mjög. Allir eiga að rækta sem hafa tækifæri til og við erum þessa dagana að verða vitni að mikilli viðhorfsbreytingu í lífrænum lífsstíl. Við eigum að gera allt okkar umhverfi sjálfbært. Ég vil búa í sjálfbæru og heilbrigðu umhverfi,“ segir Valdimar að lokum.