Hoppar þú um berrassaður?
Þorrablót, sólarkaffi, bónda- og konudagar eru sitthvað sem landinn hefur glatt sig við í skammdeginu um árabil þegar þreyja þarf þorrann og góuna.
Þorrinn hefst að venju á degi bónda, nú í ár þann 24. janúar – þar til góan stígur sín fyrstu skref, í ár þann 23. febrúar. Á því tímabili þykir mörgum gott að belgja sig út af rammíslenskum mat, súrsuðum, kæstum eða reyktum, eins og enginn sé morgundagurinn og jafnvel staupa sig á íslensku brennivíni þess á milli. Dansiböll hafa einnig tíðkast þegar þorranum er blótað, oft undir hljómsveit þar sem fólk hefur dillað sér fram á rauða nótt og hafa einhver dansfíflin svo getað veitt sér þá ánægju að mæta beint í sólarkaffi.

Sólarkaffi hefur tíðkast lengur en elstu menn muna, en þá er fyrstu geislum sólarinnar fagnað eftir langan vetur. Í blaðinu Vestrinn frá árinu 1908 má finna eftirfarandi tilkynningu: „Sólardagur“ er dagurinn i dag, 25. janúar, nefndur hér á Ísafirði, því þá sér hér fyrst sól, eftir að hún hefir verið hulin bak við hamramúra bæjarins í kring um 10 vikur. Dagurinn hefir lengi verið uppáhaldsdagur hjá Ísfirðingum, er þá drukkið svo nefnt „sólarkaffi“ með ljúffengum kökum.“
Sólarkaffið var þó drukkið bæði austanlands jafnt sem vestan en er upphaflega hefð sem skapaðist á Ísafirði. Ísfirðingafélagið í Reykjavík hefur því haldið skemmtun og ball í tilefni dagsins síðan árið 1946 undir yfirskriftinni Sólarkaffi.

má ætla að fornir siðir séu hafðir
í hávegum, sbr. Þjóðsögur Jóns
Árnasonar. Mynd / Seyðisfjörður
Hinum megin á landinu láta Seyðfirðingar ekki sitt eftir liggja. Þeir fagna sólargeislunum með tveggja daga hátíð, List í ljósi, þar sem hinir ýmsu listamenn láta ljós sitt skína.
Í ár hefur hátíðin verið haldin í áratug og geta áhugasamir mætt á Seyðisfjörð 14.–15. febrúar nk.
Bóndadagur hefur þegar verið haldinn hátíðlegur á hinum ýmsu bæjum og karlkynið hyllt á einhvern hátt. Þó segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að bændur skuli bjóða þorra velkominn á þann hátt að hoppa berrassaðir í kringum bæinn, þó með annan fótlegginn hulinn buxnaskálm. Þessu halda hressir karlmenn efalaust við.
Góa hefst í lok mánaðar, á degi vaxandi birtu og vors, einnig þekktur sem konudagur. Engum sögum fer af hoppandi kvenfólki en komið hefur fyrir að þeim séu færð blóm eða þeim hyglt á annan hátt.
Það er að minnsta kosti um að gera að lífga aðeins upp á þennan kalda og dimma tíma vetrar, hvort sem fólk ásetur sér að borða kæstan hákarl, drekka sólarkaffi, hoppa um berrassað eða leyfa öðrum að mæra kosti sína.
Enn eru nokkur þorrablót eftir:
15. feb. Þorrablót Rangvellinga, Íþróttahúsið á Hellu
15. feb. Þorrablót Hvalfjarðarsveitar, Miðgarði
15. feb. Þorrablót Skagamanna í Íþróttahúsinu
15. feb. Þorrablót Fimleikafélagsins Bjarkar, Veislusal Bjarkanna við Haukahraun
15. feb. Þorrablót Grímseyjar í Múla
22. feb. Þorrablót Breiðdælinga, Frystihúsinu Breiðdalsvík
