Hvanneyrar-pistlar
Hvanneyri í Borgarfirði er vel þekktur skólastaður. Að stofni til byggðarhverfi – sveitaþorp – með aldagamlar rætur.
Það breyttist fyrir einni öld og þriðjungi betur þegar þar var settur búnaðarskóli með tilheyrandi skólabúi. Í dag er Hvanneyri þéttbýli í sveit, raunar háskólaþorp, fjölbreytt að gerð og mannlífi, og með langa sögu.
Nokkurn hluta sögu Hvanneyrar hefur Bjarni Guðmundsson, lengi kennari þar, nú tekið saman í þrjú rit sem hann nefnir Hvanneyrarpistla. Pistlarnir eru harla fjölbreyttir að efni. Þeir eru allt frá sagnfræði byggðri á rannsóknum höfundar og lýsingum á stað og umhverfi til þjóðsagna og munnmæla. Inn í millum er skotið persónulegum minnisgreinum, reynslusögum og jafnvel álitamálum.
Hvanneyrar-pistlana hefur Bjarni kosið að birta í rithlöðu sinni á vefstaðnum www.issuu.com/bjgudm Þar liggja Hvanneyrarpistlarnir frammi á rafrænu formi, öllum sem vilja aðgengilegir til lesturs og án endurgjalds. Er það eins konar framlag Bjarna til Hvanneyrarstaðar eftir 63 ára kynni og samfylgd. Í sparnaðar- og umhverfisverndarskyni og í anda tíðarinnar verður að svo stöddu ekki um prentaða útgáfu Hvanneyrar-pistlanna að ræða.
Þórunn Edda Bjarnadóttir braut um efni Hvanneyrar-pistlanna og gaf þeim afar snoturt og læsilegt útlit. Þeir eru alls 328 bls. að stærð, prýddir fjölda ljósmynda og teikninga.