Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Í huganum heim
Líf og starf 21. september 2021

Í huganum heim

Höfundur: Hörður Kristjánsson

„Þessi bók hefur allnokkra sérstöðu og við vitum ekki til að út hafi komið bók með svipuðu sniði hér á landi,“ segir höfundurinn Guðlaug Jónsdóttir, sem tileinkar bókina foreldrum sínum, Þóru Ágústdóttur og Jóni Jónssyni frá Melum í Hrútafirði.

Það er sannarlega ekki ofsagt að bókin er einstaklega falleg og einlæg. Hún er í harðbandi og mikið myndskreytt af Hlíf Unu Bárudóttur. Sögusviðið er sveit á áttunda áratug síðustu aldar þar sem horft er á heiminn með augum tíu ára stúlku sem er höfundur sjálfur og er kölluð Didda. Hún segir frá ýmsu sem á dagana drífur í sveitinni. Í inngangi ávarpar höfundur lesendur sína og gerir þá um leið ósjálfrátt að vinum sínum, þannig að framhaldið verður afskaplega ljúft.

„Við teljum að vel hafi tekist til við að draga fram tíðarandann, en myndir Hlífar Unu skipta þar miklu,“ segir höfundurinn Guðlaug.

„Fullorðnir lesendur ættu að kannast við margt sem þarna er skrifað, ekki síst fólk sem hefur alist upp í sveit eða átt tengingu við sveitalífið. Þótt bókin sé ætluð börnum þá teljum við að samlestur barna og fullorðinna geti verið afar skemmtilegur. Þarna er ýmislegt sem hægt er að velta vöngum yfir og er efni í þroskandi og uppbyggilegar samræður kynslóðanna.“

Bókin er skreytt fjölda fallegra mynda eftir eftir Hlíf Unu Bárudóttur.

Bókin sprottin upp úr starfi heimilisfræðikennara á Ísafirði

Guðlaug hóf störf við Grunnskólann á Ísafirði haustið 2007.

„Ég er matreiðslumeistari að mennt, bætti síðan við mig kennsluréttindum og kenni heimilisfræði. Þegar ég fór að kenna fann ég fljótt hversu gott gat verið að krydda kennsluna hjá yngri börnunum með stuttum sögum, börn elska sögur! Þannig byrjaði þetta allt saman og síðan fór ég að skrifa sögurnar niður. Á ákveðnum tímapunkti var mér ljóst að ég væri í raun komin með heilmiklar heimildir um líf fólks í sveit frá þessum tíma og jafnvel efni í ágætis bók. Ég tók því ákvörðun í félagi við manninn minn, Karl Kristján Ásgeirsson, að stefna á útgáfu.
Í huganum heim keppir ekki við fantasíubókmenntir eða spennutrylla. Bókinni fylgir friður og ró, hlýja og notalegheit sem ég tel að eigi virkilega erindi til barna og fullorðinna í erli og hraða nútímans.“

Betri barnabók er vandfundin

Herdís M. Hübner lýsir bókinni afskaplega vel í umsögn sinni og þarf eiginlega ekki að hafa um hana fleiri orð. Herdís hefur verið farsæll íslenskukennari á Ísafirði til margra ára og er nú afkastamikill þýðandi. Gefum Herdísi orðið:

„Í huganum heim eftir Guðlaugu Jónsdóttur (Diddu) er hugljúft og skemmtilegt ferðalag aftur í tímann, heim í sveitina hennar að Melum í Hrútafirði. Didda rifjar upp alls kyns ævintýri frá æskuárunum og lesandinn skynjar glöggt að þegar maður er 10 ára er lífið allt eitt ævintýri alla daga.

Á Melum bjuggu þrír bræður og fjölskyldur þeirra og þar voru mörg börn á ýmsum aldri sem voru sífellt að bralla eitthvað úti og inni og finna upp á alls konar uppátækjum. Didda dregur upp skemmtilegar og lifandi myndir af krökkunum og líka fullorðna fólkinu á bænum, öðru fólki í sveitinni, gestum og gangandi. Enn fremur eru dýrin mikilvægar persónur í sögunni og mörg ævintýranna tengjast samskiptum manna og dýra. Sumar persónur bókarinnar eru jafnvel ekki af þessum heimi!

Bókin er skemmtilega skrifuð á litríku og lifandi máli og dásamlega fallegar myndir Hlífar Unu gefa frásögninni enn meiri lit og líf. Aðstæður og andblær bókarinnar minna á sögur Astridar Lindgren um Börnin í Ólátagarði sem margir þekkja og þessar bækur eiga það einnig sameiginlegt að vera sannkallaður yndislestur, bæði fyrir börn og fullorðna. Í bókinni er góður boðskapur þótt hvergi örli á predikunartón, hún er einfaldlega full af hlýju og virðingu fyrir öllu sem lifir og hrífur lesandann með sér. Við lesturinn lá ég í grasinu, fann sólina verma mig, fann ilm af lyngi og heyrði lömbin jarma, krakkana hlæja og hrossagaukinn hneggja. Ég var komin í huganum heim til hennar Diddu litlu – og um leið til eigin æskuára.
Betri barnabók er vandfundin.
Herdís M. Hübner.“

Til sölu á netinu

Bókin er nú sem stendur til sölu á Fb-síðunni: Í huganum heim. Inni á þeirri síðu má einnig finna meira efni um bókina. Nánari upplýsingar gefur Karl í síma:895-0292.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...