Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Líf og starf 5. febrúar 2024
Íslensk framleiðsla eða ekki?
Höfundur: Ástvaldur Lárusson
„Skiptir það þig máli, þegar þú verslar í matinn, hvort framleiðslan sé íslensk og þá af hverju?“ var spurning sem Bændablaðið spurði nokkra neytendur á förnum vegi. Þó þetta sé ekki vísindaleg könnun virtust flestir neytendur vera sammála um að uppruni matvörunnar skipti máli.
Rakel Rut Valdimarsdóttir segir mestu máli skipta að matvaran sé ódýr.
„Já, algjörlega,“ segir María Vilborg. Hún nefnir í því samhengi að lægra vistspor sé á innlendri framleiðslu og að hægt sé að treysta vatninu. Þá sé hægt að stóla á að farið sé eftir stöðlum hvað varðar eiturefni en hún myndi þó vilja sjá meira lífrænt.
„Já. Þú vilt fá íslenskt grænmeti og skyr,“ segir Dagbjört Erla Baldursdóttir (t.v.). „Ég versla ekki mikið í matinn,“ segir Ásdís Rún Hrafnhildardóttir.
Kristjana Elínborg Óskarsdóttir (t.v.) vill styðja íslenska framleiðslu. „Ég er Íslendingur og ég vil að okkur gangi sem allra best,“ segir hún. Klara Rún Kjartansdóttir tekur undir þau orð. Minna sé notað af meindýraeitri við framleiðslu á íslenskum matvælum en erlendum.
„Algjörlega. Vegna þess að hún er betri,“ segir Guðrún Bjarnadóttir. „Ég hætti að kaupa papriku á veturna ef ég fæ ekki íslenska. Ég er ekki mikil kjötæta en ef ég borða kjöt þá vel ég íslenskt og helst lamb. Það er allt annað bragð, ferskara og ég treysti því að það sé minna notað af eiturefnum.“
„Já, maður veit ekkert hvað er í þessu innflutta,“ segir Guðjón Sigvaldason.
„Alveg númer eitt,“ segir Guðlaugur Valur Brynjólfsson með áherslu. „Ég vil að við borðum það sem við framleiðum hérna í landinu.“
Sigvaldi Jónasson vill styðja íslenskan landbúnað og segir að innlendar vörur séu mikið betri.
„Hundrað prósent,“ segir Sylvía Dögg Halldórsdóttir. „Ég vil styðja íslenskan landbúnað og íslenska framleiðslu í einu og öllu.“