Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Kúfskel getur orðið mörg hundruð ára gömul. Hér er mynd af tómri skel og má glögglega sjá vaxtarrendur hennar.
Kúfskel getur orðið mörg hundruð ára gömul. Hér er mynd af tómri skel og má glögglega sjá vaxtarrendur hennar.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 13. febrúar 2024

Kúfskelin verður allra dýra elst

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Elsta kúfskel sem fundist hefur við Ísland klaktist árið 1499; um það bil sem Sviss varð sjálfstætt ríki, landkönnuðurinn Vasco de Gama sneri aftur til Lissabon úr allra fyrstu siglingunni til Indlands og eyjan Arúba fannst í Karíbahafi og var helguð Spáni.

Skelin fannst á hafsbotni við Grímsey, á um 80 m dýpi, sumarið 2006 og komst í heimsmetabækur fyrir að vera þá elsta dýr jarðar sem fundist hefur á lífi. Fékk hún nafnið Hafrún með vísan í að hún hefði skráð sögu hafsins. Skelin var fryst um borð í hafrannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni og í kjölfarið rannsökuð.

„Rannsóknir á efnasamsetningu Hafrúnar og 28 annarra kúfskelja af Íslandsmiðum hafa leitt í ljós mikilsverðar upplýsingar um ástand sjávar undan norðurströnd Íslands þúsund ár aftur í tímann. Rannsóknirnar eru undirstaða skeljatímatals sem er gagnagrunnur sem skráir breytingar frá ári til árs allan þann tíma, m.a. um hafstrauma á Norðurhveli. Skeljatímatalið er mikilvægur grunnur til rannsókna á hlýnun jarðar.“, segir í Náttúrufræðingnum, 2.-4.h., 87. árg. 2017.

Hér einkum veidd í beitu

Kúfskelin, einnig nefnd kúskel á síðari tímum, er kennd við Ísland og nefnist Arctica islandica á fræðimáli. Hún er algeng við strendur Íslands. Helstu búsvæði hennar eru einkum á sandbotni, á um 0-100 m dýpi. Skelin liggur niðurgrafin í sjávarbotninn, oft á 10-15 cm dýpi, er staðbundin en getur fært sig upp og niður í botnlaginu með hjálp fótarins. Hún síar fæðu úr sjónum með hjálp tálkna. Hún getur orðið allt að 120 mm að lengd. Samkvæmt upplýsingum frá Stefáni Áka Ragnarssyni, sjávarvistfræðingi hjá Hafrannsóknastofnun, hefur fremur lítil vinna farið í aldurslesningu kúfskelja. Gamlar skeljar þurfi ekki endilega að vera óalgengar hér við land og myndu ef til finnast í meira mæli ef farið væri í ítarlegri leit að þeim. Kúfskel og fleiri svonefndar samlokur eru verðmæt neysluvara á heimsvísu vegna hás eggjahvítuinnihalds og bragðgæða. Bandaríkjamenn hafa m.a. veitt mikið af kúfskel þótt það fari minnkandi.

Kúfskel var veidd hér við land á tímabili og fóru umfangsmestu veiðarnar fram frá Þórshöfn á Langanesi, að sögn Stefáns Áka. Á Íslandi náðu veiðar hámarki á árunum 1920-1945. Lítið sé í dag um kúfskeljaveiðar, nema mögulega í beitu, en þá er um lítið magn að ræða.

„Vegna hægrar nýliðunar og vaxtar geta veiðar haft töluverð áhrif á þær, líkt og þær veiðar sem fóru fram á austurströnd Bandaríkjanna,“ segir Stefán Áki.

„Á hinn bóginn er stofninn gríðarlega stór hér við land og ólíklegt að veiðar hafi haft veruleg áhrif á hann þó að mögulega geti verið staðbundin áhrif. Áhrif veiða á annað botndýralíf geta verið töluverð en þau eru skammvinn,“ segir hann.

Á sjávarbotni í Önundarfirði. Sjá má öndunarop kúfskelja sem hafa grafið sig niður á botninum.

Löturhæg efnaskipti

Hár aldur kúfskeljar er líklega kominn til vegna hægs efnaskiptahraða. „Hún hefur mikla aðlögunarhæfni og getur legið grafin á hafsbotni í langan tíma, t.d. þegar aðstæður eru slæmar vegna storma og yfir vetrartímann,“ segir Stefán Áki og bendir á að slæm veður geti þó rótað skel upp á land.

Miklir stormar geta ýft upp botnlag sjávar og valdið því að kúfskelin rótast upp úr sandi eða seti og upp á harðara undirlag þar sem hún nær ekki að grafa sig niður og verður auðveld bráð rándýra.

Síðan sé spurning hvaða áhrif hlýnun sjávar, í tengslum við hnattræna hlýnun sem og súrnun sjávar, hafi á kúfskel.

„Það er hugsanlegt að kúfskel muni færa sig norðar með hlýnun sjávar. Hún gæti verið viðkvæm fyrir súrnun sjávar, en á hinn bóginn hjálpar það henni að hún hefur þykka skel,“ segir Stefán Áki jafnframt.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...