Kynngimagnað kaffihús í kúluhúsinu á Hellu
Það er sannkallaður ævintýra- heimur að koma til hjónanna Birnu Berndsen og Páls Benediktssonar í Auðkúlu við Hellu. Nýlega opnuðu þau kaffihús í innigarði kúluhússins sem þau búa í og stendur við árbakka Ytri-Rangár.
Þau keyptu kúluhúsið og jörðina fyrir rúmu ári síðan af Gerði Jónasdóttur, sem lést á dögunum. Hún byggði húsið árið 1993 og plantaði nokkur hundruð tegundum af trjám og runnum, sem hún ræktaði meira og minna sjálf upp af fræjum.
„Við fluttum hingað af Miklubrautinni í Reykjavík í fyrra og þetta kom nokkuð fljótlega til okkar, þessi hugmynd um að leyfa fleirum að njóta töfraheimsins sem þessi staður býr yfir. Við köllum skóginn hér Gerðarmörk. Kaffihúsið opnuðum við á þjóðhátíðardaginn 17. júní og það er í raun búið að vera brjálað að gera og gengið framar vonum,“ segir Birna.
Gerður Jónasdóttir tekur sig vel út með trjáklippurnar, en þó nokkuð margar tegundir má finna í skóginum,
þar á meðal beyki, eik, hegg og óvenju margar gerðir og litasamsetningar af hlyni.
Fékk skipun að ofan
Gerður Jónasdóttir lést þann 22. júlí síðastliðinn, 93 ára að aldri, og óhætt er að segja að lífsstarf hennar hafi verið um margt óvenjulegt og ótrúlegt í raun. Hún var rúmlega sextug þegar hún hófst handa við að byggja kúluhúsið og planta ævintýraskógi í kringum það.
„Hún bjó hér alltaf ein og ræktaði upp þessa paradís á 30 árum. Hér er að finna hátt í tvö hundruð tegundir af trjám, sumar sem eiga varla að geta lifað hérlendis. Hún ræktaði nánast allt upp af fræjum og með natni og mikilli vinnu ræktaði hún skóginn af miklum myndugleika. Hér hafa komið ýmsir garðyrkjuspekúlantar, tekið andköf og fullyrt að hvergi annars staðar á landinu sé að finna viðlíka plöntuflóru, nema þá helst í lystigörðum,“ segir Páll og Birna bætir við:
„Sagan er stórmerkileg. Gerður sagði okkur að rétt eftir að maðurinn hennar dó hafi hún fengið skipun að ofan þar sem henni var sagt að byggja kúluhús. Hún starfaði í Tjaldborg á þessum tíma og ákvað að hlýða skipuninni. Hún hafði samband við Elías Skaftason á Ísafirði, sem var frumkvöðull hérlendis í að byggja sér kúluhús til búsetu. Í framhaldinu ræddi hún við Einar Þorstein Ásgeirsson arkitekt, sem teiknaði fyrir hana húsið. Hann var mikill talsmaður kúluhúsa og hélt því fram að allir Íslendingar ættu að hafa eigin innigarð.“
Gerður Jónasdóttir, fyrrum eigandi Auðkúlu hófst handa rúmlega sextug við að byggja kúluhúsið og planta ævintýraskógi í kringum það. Í rúmlega þrjátíu ár hugsaði hún um gróðurinn af natni og umhyggju og ber hann þess svo sannarlega merki – enda plöntuflóran þvílík.
Kristallabyggingar og kúluhús
Einar Þorsteinn arkitekt var um margt merkilegur maður og frumkvöðull á sínu sviði. Hann kom oft í heimsókn til Gerðar í Auðkúlu og tókst með þeim sönn vinátta.
„Einar starfaði með Buckminster Fuller frá Bandaríkjunum sem má segja að sé frumkvöðull í byggingu nútíma kúluhúsa í heiminum. Einar var mjög andlega þenkjandi og mikill náttúruunnandi. Hann var jafnframt geómetrískur snillingur og spáði mikið í kristallaform. Hann rannsakaði innri gerð margflötunga og þótti öflugur og fær stærðfræðingur og flatarmálsfræðingur. Strúktúrinn, hið svokallaða gullinsnið sem sjá má á framhlið Hörpunnar í Reykjavík, er í raun hans hugarsmíð,“ segir Páll og bætir við:
„Einar er heimsþekktur í sínum geira en hefur kannski ekki verið virtur að verðleikum hérlendis. Hann þótti sérvitur og óvenjulegur en hann var til dæmis langt á undan sinni samtíð í umhverfisvernd. Einar byrjaði að kynna kúluhúsin upp úr 1970. Hann hélt að allir myndu vilja byggja slík hús því það væri mjög umhverfisvænt. Kostnaðurinn við að hita kúluhús er um það bil helmingi minni en venjuleg hús vegna gróðurhúsaáhrifa glerhjúpsins. Lífsstarf hans er afar merkilegt, hann vann til dæmis með hönnuðum Nasa að kúlufarartæki til að nota á Mars og var í teymi þýska arkitektsins Otto Frey við hönnun á hvelfingunni yfir Ólympíuleikvanginn í München, svo fátt eitt sé nefnt.“
„Ýmsir garðyrkjuspekúlantar hafa tekið andköf og fullyrt að hvergi annars staðar á landinu sé að finna viðlíka plöntuflóru, nema þá helst í lystigörðum,“ segir Páll Benediktsson.
Ótrúlegt lífsstarf
Auðkúla er rúmlega 200 fermetrar að stærð með innigarðinum og þar er að finna fjölbreyttan Miðjarðarhafsgróður innandyra svo sem Tenerifepálma, döðlupálma, keisaratré og margt fleira forvitnilegt.
„Hér eru alls konar plöntur í skóginum, Gerðarmörk, sem óvíða finnast á Íslandi. Margar tegundir af til að mynda beyki, eik, hegg og óvenju margar gerðir af hlyni í mörgum litum og fleira og fleira. Eitt sinn kom Hafsteinn Hafliðason garðyrkjuspekúlant hingað til okkar og við gengum með honum um grundirnar, þá stoppaði hann, tók andköf og sagði þetta ótrúlegt því hér væru margar tegundir sem ættu vart að geta vaxið á Íslandi. Það er í raun stórkostlegt hve Gerður var dugleg og hafði næmt auga fyrir fjölbreyttum gróðri og líka hvernig gróðurinn félli best inn í landslagið. Grænir fingur Gerðar voru svo sannarlega gulls ígildi,“ segir Páll og Birna bætir við:
„Hér var bara melur og mói þegar hún byrjar að byggja og planta. Það sem er líka svo merkilegt er að hún ræktar nánast allt upp af fræi og hún lá oftar á hnjánum en standandi á tveimur fótum. Hún notaði um tvö þúsund bíldekk til að koma upp græðlingum, dekkin veittu hita, skjól, viðhéldu raka og héldu illgresinu frá. Þegar plantan óx bætti hún við öðru dekki en þegar hún var orðin heilbrigð og hraust og tilbúin út í lífið voru dekkin færð á nýjan stað. Hún var á sjötugsaldri þegar hún byrjaði ræktunina og er að fram undir nírætt, sem er alveg magnað. Við berum svo sannarlega ómælda virðingu fyrir henni.“
Heilluð af ævintýrastaðnum
Hjónin runnu blint í sjóinn í byrjun sumars með að opna kaffihús í kúlunni en sjá svo sannarlega ekki eftir því enda hafa viðtökurnar farið fram úr björtustu vonum.
„Við vorum auðvitað á ákveðnum tímapunkti pínu efins hvort við ættum að flytja í sveitina en létum slag standa. Síðan kom hugmyndin um kaffihúsið til að hafa eitthvað að sýsla við í sveitinni. Það virðist hafa verið góð hugmynd og við getum notið þess að vera hér saman alla daga. Hingað koma jafnt innlendir sem erlendir gestir og allir verða jafn heillaðir eftir að hafa stoppað á þessum ævintýrastað. Í vetur stefnum við á að opna fyrir hópa sem vilja koma hér við og eiga góða stund. „Margir hafa látið í ljós ánægju yfir að við opnuðum kaffihús hér svo fleiri geti notið lífsstarfs Gerðar,“ segir Páll og Birna bætir við:
„Við ákváðum strax að vera með einfaldan og góðan matseðil og bjóðum upp á uppáhellt kaffi, súrdeigsbrauð með áleggi, vöfflur og kökur. Allt heimatilbúið nema súrdeigsbrauðið frá Almari bakara sem hefur fallið vel í kramið. Gamla bollastellið okkar er vinsælt og húsgögnin eru úr okkar búslóð og af nytjamörkuðum. Fólki virðist líka mjög vel hversu heimilislegt er að koma til okkar. Umhverfið spillir svo ekki fyrir meðan setið er yfir rjúkandi heitum kaffibolla.“